Við erum enn í stríði

Greinar

Skrítið er, hversu reiðir málsmetandi menn eru út af flugi bandarísku leyniþjónustunnar um Keflavíkurflugvöll með fanga á leið til pyndingar á vegum bandarísku þjóðarinnar. Við verðum að líta á þessa aðstoð okkar við pyndingar sem rökréttan hluta af aðild okkar að stríðinu gegn Írökum.

Við getum ekki verið í fínimannsleik hér á Íslandi og þvegið blóðið í sífellu af höndum okkar. Við fórum í stríð, að vísu án þess að vera spurð. En við höfum síðan ítrekað staðfest í skoðanakönnunum, að við styðjum eindregið höfuðflokk ríkisstjórnarinnar, sem kom okkur í þennan sérstæða vanda.

Við höfum ákveðið að vera í nánu hernaðarbandalag við þjóð, sem er mjög herská og illskeytt. Ég er ekki bara að tala um George W. Bush og ríkisstjórn hans eða um stjórnkerfið í Bandaríkjunum, heldur bandarísku þjóðina, sem hefur í kosningum staðfest dálæti sitt á stjórnarháttum Bush.

Enginn hádegisverður er ókeypis. Við verðum eins og Danir að taka á afleiðingum ákvörðunar, sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku fyrir hönd þjóðarinnar. Við erum í stríði gegn saklausu fólki, þar sem tugir þúsunda, sennilega eitt hundrað þúsund manns hafa verið myrt af vinum okkar.

Við verðum að gera ráð fyrir að þurfa að vinna einhver skítverk í stríðinu, ekki bara kaupa teppi á bazar í Kabúl. Það þýðir ekki að vera í stríði, en heimta svo, að glæpalýðurinn, sem við styðjum svo eindregið, fari með fanga sína um aðra flugvelli en þann, sem óvart er hér á landi.

Við þurfum ekki bara að sætta okkur við aðild að pyndingum, heldur þurfum við líka að undirbúa okkur gegn hugsanlegum gagnaðgerðum fátæka mannsins í þriðja heiminum. Stríð fátæka mannsins heitir hryðjuverk og við munum fyrr eða síðar fá að kenna á því. Við getum þá auðvitað sjálfum okkur um kennt.

Ekki er ógeðslegra eða ógeðfelldara að stunda hryðjuverk fátæka mannsins en að reka stríð ríka mannsins. Hvor tveggja er glæpamaður, Bandaríkjamaðurinn og Íslendingurinn annars vegar og hryðjuverkamaðurinn hins vegar. Hver um sig rekur stríðsglæpi með tiltækum vopnum miðað við stríðsgetu sína.

Ef við heyjum stríð hinum megin á hnettinum, getum við ekki farið að gráta, þótt stríðið verði flutt til okkar. Við skulum því bíta á jaxlinn og borga sjálf rekstur Vallarins.

DV