Valdhafar stýrðu þrælahaldinu

Greinar

Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur loksins tekið við sér eftir að hafa stutt starfsmannaleigur leynt og ljóst með langvinnu aðgerðarleysi. Þótt svindlið hafi staðið nokkur misseri við Kárahnjúka og víðar, hefur ráðuneyti hans sett kíkinn fyrir blinda augað. Þangað til í þessari viku.

Sama er að segja um flokksbróður hans í Vinnumálastofnun ríkisins. Gissur Pétursson hefur misserum saman daufheyrzt við ábendingum um mannréttindabrot í starfsmannaleigum, en hefur nú í vikunni skyndilega birzt á vettvangi með stírur í augum og tölvupóst með glannalegu orðalagi úr bíómyndum.

Það var ekki fyrr en óvenjulega firrtur og hrokafullur eigandi starfsmannaleigu kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku, að framsóknarmenn kerfisins hættu að hylma yfir starfsmannaleigum og fóru yfir á hin götuvígin. Við skulum muna, að þeir eru óvenjulega síðbúnir mannréttindavinir.

Starfsmannaleigur hér á landi virðast hafa starfað utan við lög og rétt, meðal annars af því, að félagsmálaráðuneyti Árna Magnússonar hefur ekki enn lagt fram lagafrumvarp um slíkan rekstur, þrátt fyrir Kárahnjúka. Þess vegna hafa starfsmannaleigur litið á Ísland sem fríríki þrælahaldara.

Það er deginum ljósara, að forstöðumenn starfsmannaleiga hafa brotið mannréttindi erlends verkafólks kruss og þvers og síðan rifið kjaft, þegar fréttir hafa birzt. Það stafar auðvitað af, að þeir hafa talið sig starfa í traustu skjóli framsóknarmanna í félagsmálaráðuneyti og vinnumálastofnun.

Þáttur launþegasamtaka hefur lengi verið tvíræður. Við höfum ekki áttað okkur á, hvort þau væru að reyna að gæta hagsmuna hinna leigðu starfsmanna eða hvort þau væru að reyna að losna við þá úr landinu. Nú loksins virðist vera að koma í ljós, að samtökin vilji reyna að starfa fyrir þrælana.

Fleiri valdaaðilar í þjóðfélaginu taka þátt í ábyrgðinni, þótt hún sé mest hjá félagsráðuneyti og vinnumálastofnun. Skattayfirvöld bera ábyrgð á umfangsmiklum skattsvikum í tengslum við starfsmannaleigur og lögreglan hefur tregðazt við að rannsaka mál, sem bent hefur verið á í fjölmiðlum.

Orsök fjölbreyttrar tregðu er, að valdhafar Framsóknar hafa undir niðri verið hlynntir því, að starfsmannaleigur brjóti niður vinnumarkaðinn og lækki laun verkafólks í landinu.

DV