Einkalíf er skálkaskjól

Greinar

Orðin persónuvernd og einkalíf koma ekki fyrir í bandarísku stjórnarskránni og ekki í þeirri frönsku heldur. Þessir hornsteinar lýðræðis eru frá þeim tíma, þegar menn vissu, að lýðræði felur í sér opnun þjóðfélagsins, “transparency”, svo að hægt sé að lýsa inn í margvísleg skúmaskot þjóðfélagsins.

Orðin persónuvernd og einkalíf eru skálkaskjól, einkum notuð af embættismönnum, stjórnmálamönnum, fjársýslumönnum og glæpamönnum, sem vilja ráðskast með mál, sem koma við fólki, án þess að fólk sé að skipta sér af. Þessir aðilar hafa t.d. komið upp stofnun, sem heitir Persónuvernd, óvinur lýðræðis.

Íslenzkir blaðamenn hafa tekið þátt í þessari atlögu að lýðræði. Í stað þess að búa til samskiptakerfi milli blaðamanna annars vegar og stjórnmála, fjölmiðlaeigenda og auglýsenda hins vegar, hafa þeir búið til siðareglur, sem miða að lokun þjóðfélagsins, að ótilhlýðilegri tillitssemi.

Lýðræði er orðið svo gamalt fyrirbæri, að menn eru farnir að gleyma hornsteinum þess. Sumir ímynda sér, að lýðræði sé lítið annað en frjálsar kosningar. Fáir muna eftir, að lýðræði er fyrst og fremst gegnsæi og í öðru lagi einföld aðferð við að skipta um ráðamenn án þess að beita byltingu.

Síðustu árin hefur orðið vart markvissra aðgerða til að draga úr lýðræði og gegnsæi með því að efla persónuvernd og búa til einkalíf, þar sem það var ekki áður. Nú nær einkalíf ekki bara til heimila, heldur einnig til bíla á almannafæri, til peninga, jafnvel til útgáfu diplómatapassa til gæludýra.

Hvarvetna tala andstæðingar lýðræðis um persónuvernd og einkalíf. Utanríkisráðuneytið felur diplómatapassa á bak við einkalíf. Stofnunin Persónuvernd gerir sér tíðrætt um svonefndan Karólínudóm, sem fól í sér útfærslu einkalífs í eins konar blöðru, sem fylgi fólki á leið um opinbera staði.

Jafnvel dómarar eru farnir að kveða upp úrskurði um einkalíf dómhúsa. Eiga þeir þó að vera öðrum kunnugri þeirri staðreynd, að lýðræði fól upphaflega í sér, að dómarar starfi fyrir opnum tjöldum og að dómar séu gegnsæir. Ef kveða á upp dóma í leyni, verða dómstólar að herdómstólum.

Kominn er tími til að spyrna við fótum, auglýsa framferði þeirra, sem reyna að draga úr lýðræði með því að búa sér til skálkaskjól undir yfirskini persónverndar og einkalífs.

DV