Fjölmiðlun

Fjölmiðla-rökkur

Fjölmiðlun

Fjölmiðlar sinna fréttum misjafnlega, en samtals nokkuð sæmilega. Samdráttur hefur þó orðið í rannsóknum, sem eru dýrari en venjuleg blaðamennska. Túlkun frétta er afleit í fjölmiðlum, nema helzt í Kjarnanum og væntanlega einnig í Stundinni, þegar hún fæðist. Öflug túlkun frétta hefur að mestu flutzt yfir í fólksmiðla á vefnum. Á sama tíma hafa komið til sögunnar millistig frétta og auglýsinga, svo sem kostanir, kynningar og fleira slíkt. Það spillta efni er sumpart unnið af blaðamönnum. Fjölmiðlar fyllast af frábærum kínalífselixírum, sem forheimska lýðinn. Aukin fátækt fjölmiðla keyrir áfram þessa óheillaþróun.

Enn ein fiskdýrðin

Fjölmiðlun

Fiskur dagsins var pönnusteikt langa með kartöflum, rófuþráðum og lauk, frábær matur (1790 kr). Nýveiddur kræklingur úr Breiðafirði í soði með sólselju var enn betri (1890 kr). Nýsteikt kleina með ídýfu úr mysuosti var skemmtilegur eftirréttur (990 kr). Matur og Drykkur er nýtt veitingahús í gamla Ellingsen-húsinu við Grandagarð, þar sem líka er Sögusafnið. Hátt til lofts í rustalegum matsal, þar sem frumlegir skúlptúrar úr gegnsöguðum málverkum klæða einn vegg. Þjónusta var notaleg, en ekki skólagengin. Beztur var maturinn, enn ein vinin í sífellt lengri röð góðra fiskréttahúsa landsins. Guði sé lof fyrir ferðafólkið.

Ólöf opnar leyndó

Fjölmiðlun, Punktar

Ólöf Nordal opnaði leyndó um vopna- og valdbeitingarreglur löggunnar, sem vonda Hanna Birna hafði læst. Mikilvægt skref til opnara þjóðfélags, burtséð frá mati okkar á reglunum. Okkur hafði verið sagt, að birting mundi auðvelda glæpi. Svo mælti Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem hefur ætíð verið og er enn helzti varðhundur hins lokaða stjórnkerfis. Nú er búið að birta þessar voðalegu reglur og þá kemur í ljós, að þær eru í meginatriðum vel hugsaðar og gagnlegar. Í ljós er komið, að það var leyndin, sem var skrímslið, en ekki innihaldið. Kerfi úreltrar leyndar lætur sér vonandi gott framtak ráðherrans að kenningu verða.

„Minn flokkur“

Fjölmiðlun

Mér sýnist marktækir aðilarnir, sem reglulega kanna fylgi flokka, Gallup, MMR, Fréttablaðið og Félagsvísindastofnun. Áhugafólk verður bara að hafa skekkjumörk í huga. Sveifla milli kannana um tvö prósentustig er ekki marktæk. Aðferðirnar eru mismunandi, svo að varasamt er að bera könnun eins saman við könnun annars. Betra er að bera könnun saman við fyrri kannanir sama aðila.  Gott er líka að muna, að Gallup spannar mánuð aftur í tímann. Að meðaltali eru skoðanir á þeim bæ tveggja vikna gamlar. Mér sýnist þó merkast, hversu litlar breytingar eru oftast milli mánaða á fylginu. Þar gildir máltækið: „My party, right or wrong.“

Móðgelsi er ekki val

Fjölmiðlun

Um skeið gátu menn valið að móðgast yfir miðluðu efni hér á landi, fengu dæmdar bætur fyrir meiðyrði. Slíkt stríðir samt gegn tjáningarfrelsi. Sjáið Charlie Hebdo. Tímaritið birti teikningar og múslimar völdu að móðgast. Aðrir söfnuðir velja að móðgast ekki, þótt þeir sæti sams konar háði. Ekki getur verið nein sjálftekt móðgaðra, þannig að sumir velji að móðgast sí og æ. Róbert Wessmann rak fáránlegt mál af þessu tagi og tapaði í héraði. Vonandi er það merki um, að íslenzkir dómstólar hætti að taka mark á væli um móðgelsi. Það er grunnmúraður hluti lýðræðis, að pamfílar sæti því að geta ekki valið, hvort þeir móðgast.

Google ræðst á Kristin

Fjölmiðlun

Don´t be evil var lengi kjörorð Google. Fyrirtækið er á flótta undan kjörorði sínu. Upplýsti í dag, að það hafi fyrir þremur árum orðið við kröfu bandarískra yfirvalda um að afhenda öll samskipti Kristins Hrafnssonar á netinu. Afhending nær til skjala þriggja blaðamanna Wikileaks, Kristins, Sarah Harrison og Joseph Farrel. Þau þrjú eru talin ógna öryggi Bandaríkjanna vegna vinnu sinnar fyrir Wikileaks. Enn eitt dæmið um breytingu Bandaríkjanna í alræðisríki að hætti skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell. Fengu líka kortafyrirtæki til að stinga undan greiðslum til Wikileaks. Mál gegn Valitor vegna þess er nú rekið hér.

KJARNINN

Svei þér Skjár einn

Fjölmiðlun, Megrun

Mér finnst hráslagalegt að draga einfeldninga á svið til að skopast að þeim. The Biggest Loser kitlar eineltishneigð áhorfenda. Megrunaraðferðin er fráleit, sérfræðingar vara eindregið við henni. Megrun er flókin og gerist ekki svona. Eftir þrjú ár verða nærri allir þáttakendur orðnir feitari en áður. Það skiptir siðblinda stjóra engu máli, áskrifendur hafa fengið sitt kikk. Hafa hlegið að fitubollum, sem prófa nýjasta trikkið í langri örvæntingu. Þarna er reynt að ná alltof hröðu og hættulegu þyngdartapi með öskrum og ógeði siðblindra þjálfara. Þetta eru hættulegir og annarlegir öfgar í sirkuslátum. Svei þér Skjár einn.

Horfinn hornsteinn

Fjölmiðlun

Þegar fólk hættir að horfa á sjónvarpsfréttir á kvöldin, stafar það sumpart af vonbrigðum. Ég get ekki treyst tímasetningunni. Horfði lengst af á fréttir í sjónvarpi. En boltaleikir ryðja sjónvarpsfréttum í auknum mæli úr slotti þeirra í dagskrá. Og það eru ekki bara leikirnir, sem fylla dagskrá sjónvarps, heldur endalaust blaður um leikina. Þetta er orðið að vítahring. Minna áhorf á fréttir er notað sem skálkaskjól. Sem ástæða að leyfa boltaleikjum að ryðja þeim oftar til hliðar. Þannig er verið að drepa sjónvarpsfréttirnar. Traustur hornsteinn í degi mínum er horfinn. Þar með hvarf ríkissjónvarpið endanlega úr lífi mínu. Er hornsteinar hverfa, hættir sjálf dagskráin að vera hornsteinn og Netflix tekur við.

Frelsið er til að móðga

Fjölmiðlun

Margir voru á sínum tíma ósáttir við Jyllandsposten og létu það í ljós. Að því leyti brást heimurinn tjáningarfrelsinu. Salman Rusdie skilgreinir það svona: „What is freedom of expression? Without the freedom to offend, it ceases to exist.“ Tjáningarfrelsi er semsagt frelsi til að móðga fólk. Það er kjarninn. Tjáningarfrelsi sést einmitt af atburðum, sem reyna á tjáningarfrelsi. Fólk segir það einmitt þessa dagana í orðunum: „Je suis Charlie“. Þegar menn segja hins vegar „Je ne suis pas Charlie“, hafna þeir tjáningarfrelsinu. Frelsinu til að móðga hvern sem er, jafnvel almættið og handhafa félagslegs rétttrúnaðar.

Sjálfhverfa sögumanns

Ferðir, Fjölmiðlun

Vænti þess, að sjónvarpsþættir um fjarlæga staði í nútíð eða fortíð snúist um þá, en ekki um sjálfhverfan þáttarstjórnanda. Í þætti um Róm vil ég sjá Róm og Rómverja, en ekki Michael Palin eða Ian Smith. Þegar ríkissjónvarpið gerir út þáttaröð um Færeyjar, vænti ég Færeyja og Færeyinga. Hef hins vegar engan áhuga á Andra. Vil ekki, að hann fylli út myndflötinn. Vil ekki sjá Andra á kendiríi. Vil ekki sjá hann keyra bíl. Vil ekki heyra fimmaurabrandara hans á ensku í Færeyjum. Fráleitt er, að dýrir þættir snúist um sjálfhverfu fáfróðs sögumanns. Má þó sjást í mynd, ef hann er gamlingi, heitir Attenborough og veit bara allt.

Hástig sjálfhverfunnar

Fjölmiðlun

Michael Palin varð frægur af Monty Python. Varð síðar þekktur af ferðaþáttum á BBC. Ég gerði þau mistök að sjá diskasafn 50 ferðaþátta hans, fjalla nefnilega lítið um fjarlægar slóðir. Þeir fjalla um Palin. Palin missir af skipi, Palin spilar bolta við krakka, Palin skúrar þilfar, Palin óttast terrorista, Palin fer á fyllerí með innfæddum, Palin hristir hausinn yfir vankunnáttu í ensku. Ég hef engan áhuga á þessum Palin. Vil sjá Ægisif, Esfahan, Samburu, Delhi, Luxor, frekar en sjá fáfróðan Palin. Hann er enginn Attenborough, hann er Andri. Síðan stældu aðrir sjálfhverfuna. Leitun er að DVD diskum, sem án fíflaláta lýsa ferðastöðum heims.

Sjónvarpið hrynur

Fjölmiðlun

Tölur um áhorf sýna meira hrun sjónvarps en er í lestri prentmiðla. Ungt fólk notar hvorugan fjölmiðilinn. Og unga fólkið kemur ekki, þótt sjónvarp sé poppað upp með rugli á borð við Hraðfréttir og Andra. Krúttin eru að gera annað. Vörn sjónvarps væri virkari, ef farið væri að sjónvarpa jarðarförum fyrir gamlingja. Á miðjum aldri færa margir sig yfir í safnmiðla á borð við Fréttagáttina, þar sem allir fjölmiðlar eru í einum graut. Mér nægir hún fullkomlega sem miðill innlendra frétta eins og Blogggáttin nægir mér sem miðill bloggs. Hefðbundnir fjölmiðlar fatta þetta alltof hægt og horfa fram á aukið tap næstu misserin.

Ísland er ekki DoHop

Fjölmiðlun

Kjarninn reynir í fyrirsögn að telja þér trú um, að 82% Íslendinga hafi ferðast til útlanda árið 2014. Samt er langt í frá, að notendur DoHop samsvari þjóðinni almennt. Þetta er ekki sama mengi. Þótt notendur DoHop fari mikið til útlanda, segir það ekkert um Íslendinga almennt. Fyrirsögnin var bara þetta venjulega hugsunarleysi, sem í allt of miklum mæli einkennir fjölmiðla okkar. Ég hefði samt frekar búist við þessu í einhverjum öðrum fjölmiðli. En við þurfum alltaf að gæta okkar. Fullyrðingar í fjölmiðlum eru oft vafasamar og stundum rangar, ættaðar frá almannatenglum. Og því miður eru þær stundum viljandi falsaðar.

Engum er að treysta

Fjölmiðlun, Punktar

Allt frá tíma Kosovo-stríðsins trúi ég engu, sem Nató fullyrðir. Því vantreysti ég sögum þess um brot rússneskra herflugvéla á lofthelgi landa í Austur-Evrópu. Pútín er að vísu til alls vís, en ég þarf traustari heimild en Nató. Mikilvægt er þó að vara sig á Pútín. Hann er geðbilaður heimsvaldasinni. Það þýðir líka, að auðvelt er að ljúga upp á hann. Og ég veit ekki um neinn, sem lýgur jafn grimmt og Nató. Raunar er vont, að ekki skuli vera til neinn aðili, sem hægt er að treysta. Við þekkjum það vonda ástand vel á Íslandi. Hér ljúga nærri allir pólitíkusar án þess að svitna á efri vör og embættismennirnir engu síður.

Furðuleg gröf í Vísi

Fjölmiðlun

Lengi hef ég furðað mig á sumum gröfum í Vísi. Þau brjóta allar brýnustu reglur um grafagerð. Tímaás á alltaf að vera frá vinstri til hægri og magnás á að vera upp eftir magni. Tölur og lengd flata eiga að vera í samræmi. Graf í Vísi á miðvikudaginn um afbrotatíðni hafði tímaás frá hægri til vinstri. Skömmu áður birtist þar graf um fylgi flokka í könnunum. Hæð súlna var í engu samræmi við tölur. Um gröf gilda fræði, sem grafagerðarmenn læra í skólum. Hlutverk grafa er að varpa í sjónhendingu ljósi á mál, sem annars þarf að lesa í löngu máli. Villandi gröf fórna þessu hlutverki. Fjölmiðlum ber að hafa fagfólk í vinnu.