Fjölmiðlun

Lekinn rann til okkar

Fjölmiðlun

Áratugum saman var leki til innvígðra, einkum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og heildsala Sjálfstæðisflokksins, greiðasta leiðin til auðs. Gengislækkanir fylltu fjárhirzlur innvígðra. Núna átti afnám gjaldeyrishafta að vera tækifæri útvalinna braskara til að komast yfir gengismun. Þá og nú var hin heittelskaða króna í þungamiðjunni. En BIngi sá við þessu, lét DV birta lekann. Þessu urðu sjálfstæðisbófar öskureiðir, Már var vakinn upp í Seðlabankanum og skyndifundur haldinn á alþingi. BIngi ætti að fá blaðamannaverðlaun ársins fyrir eflingu gegnsæis. Málið sýnir, hversu brýnt er, að skríllinn fái aðgang að leynigögnum.

Áfall blaðamennskunnar

Fjölmiðlun

Mikið áfall fyrir íslenzka blaðamennsku er, ef tveir félagsmenn hafa látið sér sæma að beita fjárkúgun í stað uppljóstrunar. Sjaldgæft á vesturlöndum, en hér á landi er siðferði almennt með daprasta móti. Með sönnunargagn í höndum hefði verið rétt að upplýsa milligöngu forsætisráðherra í fjármögnun á fjandsamlegri yfirtöku DV. Blaðamannafélagið verður og hlýtur að fordæma þessi vinnubrögð systranna. Þau draga úr líkum á upplýstu gegnsæi í samfélaginu. Okkur veitir ekki af auknu gegnsæi. Þjóðfélagið er gegnrotið af spillingu í skjóli leyndar. Fjárkúgunin átti að viðhalda þessari leynd og það út af fyrir sig er glæpur.

Hlegið að Hæstarétti

Fjölmiðlun

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í fjórgang sparkað í Hæstarétt fyrir vonda dóma, sem stríða gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Erla Hlynsdóttir blaðamaður var í þrígang dæmd í Hæstarétti fyrir meiðyrði. Í þrígang hefur Strassbourg hrundið þeim dómum. Íslenzka ríkið verður að borga skaðabætur fyrir framgöngu Hæstaréttar. Sama niðurstaða og í fjórða málinu, sem Björk Eiðdóttir blaðamaður höfðaði gegn ríkinu. Hæstiréttur er orðinn þjóðinni til skammar á alþjóðlegum vettvangi. Hatur aftan úr öldum á meintum meiðyrðum getur ekki gengið lengur. Tími er til kominn, að Hæstiréttur átti sig á, að hann er ekki einn í heiminum.

Endurreistir bakþankar

Fjölmiðlun

Bankaþankar Fréttablaðsins eru komnir til baka á sinn stað á baksíðu. Þekktir stílistar skrifuðu þar í gamla daga hnyttið koserí um daginn og veginn. Svo var bankþönkum vísað í útlegð sem bakverkur aftan við textreklame, sem nú kallast kynningar. Fljótt fækkaði þeim, sem höfðu eitthvað að segja. Við tók sjálfhverf þegnskylda krútt-blaðamanna. Á baksíðu fór hins vegar langdregið moð um fræga fólkið, sem er frægt fyrir að vera frægt. Stílistar flúðu í blogg og á fésbók. En nú er komin betri tíð með blóm í haga. Bakþankar aftur á baksíðu frá og með gærdeginum. Á vaðið reið öndvegis-húmoristinn Jón Sigurður Eyjólfsson. Bravó.

Heimsblöðin eru gölluð

Fjölmiðlun

Heimsblöðin eru fimm, enska The Guardian, spænska El País, franska Le Monde, þýzka Der Spiegel og ameríska The New York Times. Aðrir fjölmiðlar skipta engu. Þetta eru blöðin, sem þú þarft að fylgjast með. Öll eru þau samt stórgölluð yfirstéttarblöð með nánum tengslum við bankstera og auðgreifa. Frásagnir af WikiLeaks og Julian Assange eru yfirleitt brenglaðar í þágu hins yfirþyrmandi valds leyniþjónustanna. Litlar og lélegar eru frásagnir þeirra af fyrirhuguðum leynisamningi um réttarstöðu auðgreifa sem ígildi þjóðríkja. Ísland er aðili að þeim glæpasamningi. Alvörufréttir finnurðu helzt í andspyrnupressu á vefnum.

Til borðs með víkingum

Fjölmiðlun

Á síðustu áratugum hefur mótazt sú hefð, að alvörufjölmiðlar á Vesturlöndum borga sjálfir fyrir boðsferðir. Eða fara að öðrum kosti ekki í slíkar ferðir. Sannleiksnefnd alþingis sagði líka, að of náið samband fyrirtækja og blaðamanna hefði stuðlað að bankahruninu 2008. Ríkisútvarpið hafnaði nýlega boði um ferð til Washington á vegum Wow flugfélagsins og flugvallarins í Washington. Aðrir þáðu boðið, 365 miðlar, Mogginn, DV, Viðskiptablaðið og Kjarninn. Teljast því ekki alvöru fjölmiðlar samkvæmt skilgreiningunni. Ekki sæmir blaðamönnum að sitja til borðs með útrásarvíkingum, hvort sem snætt er gull eða spaghetti.

Amazon-dagblaðið

Fjölmiðlun

Jeff Bezos, eigandi Amazon netverzlunarinnar, hefur átt Washington Post í rúmt ár. Að hans undirlagi er blaðið að steypa sér á bólakaf í veraldarvefinn. Núna fylgjast blaðamennirnir vel með umræðunni á vefnum, taka hana upp og vinna úr henni fréttir. Reynt er að finna strauma í umræðunni og nýta þá til að grafa upp frekari fréttir. Þær verða síðan hluti umræðunnar. Óljóst er enn, hvert breytingar Bezos munu leiða. Stefnan er að koma upp hundrað milljón lesendum á vefnum. Einnig er óljóst, hvernig hinum mikla ókeypis lestri verður breytt í tekjur. Þær þurfa að mæta kostnaði við hið sögufræga blað, sem rotaði Nixon. Sjá SPIEGEL

Ókeypis námskeið

Fjölmiðlun

Í símenntadeild Háskólans í Reykjavík kenndi ég fyrir nokkrum árum blaðamennsku fyrir starfandi blaðamenn. Nokkru síðar tók ég fyrirlestrana upp á myndskeið og var með námskeið á heimasíðu minni. Vegna aldurs nenni ég ekki lengur að bjóða kennslu með þessum námskeiðum og hef því opnað þau til afnota án endurgjalds.

Þú ferð á jonas.is og potar í hnappinn „Námskeið“. Forsíða námskeiðanna opnast og þú velur: Textastíll. Blaðamennska. Nýmiðlun. Fréttamennska. Miðlunartækni. Rannsóknir. Ritstjórn. Fjölmiðlasaga. Hvert þessara námskeiða býr yfir um fimmtíu fyrirlestrum, sem þú getur séð í mynd, heyrt eða lesið eftir þörfum.

Því miður var ég orðinn svo hrumur, að fúttið vantar oft í flutninginn. Ekki verður við öllu séð og þetta er altjend frítt til afnota. Fyrirlestrarnir skipta hundruðum og samtals dekka námskeiðin allt, sem þú þarft að vita um fjölmiðlun. Mundu samt, að engir fyrirlestrar koma í stað starfsreynslu.

Lamaðir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Umræður á alþingi sýna, að ekkert tillit var tekið til haugs af athugasemdum um svokallaða kerfisáætlun Landsnets. Sú áætlun gerir ráð fyrir, að Landsnet geti valtað yfir sveitarfélög, sem heimta jarðlínur í stað loftlína. Gerir líka ráð fyrir, að hið pólitíska vald geti engin afskipti haft af yfirgangi Landsnets, sem trúir á guðinn Loftlínuturn. Hagsmunir ferðaþjónustunnar koma hvergi fram í frumvarpinu, enda telja Jón Gunnarsson og atvinnuveganefnd, að ferðaþjónusta sé ekki atvinnuvegur. Svartasta afturhaldið hefur öll tögl og hagldir í nefndinni, óskir hennar um athugasemdir eru sýndarmennska. Ekki er orð um þetta í fréttum.

Götótt fréttamennska

Fjölmiðlun

Meira en áður er um, að fréttir skilji eftir augljósar spurningar. Sagt er, að umhverfisráðherra hafi skipað nýjan ráðuneytisstjóra. Ekki er spurt, hvort staðan hafi verið auglýst eða hvers vegna ekki. Mundi bara kosta eitt símtal. Sagt er, að þrír þingmenn af 63 hafni skattasniðgöngu út af kostnaði án fylgiskjala. Ekki er spurt, hverjir hinir þrír heiðarlegu séu. Mundi bara kosta eitt símtal. Fréttir af rugli bæjarstjórans í Hafnarfirði skilja eftir ótal spurningar og sömuleiðis deleringar dósents um kvótakerfið. Í auknum mæli varpa fréttamenn frá sér lágmarksskyldum í fréttagerð. Sérhagsmunir yfirtaka fréttaflutninginn.

Silkihúfur í felum

Fjölmiðlun

Daglega les ég í fréttum, að einhver pólitíkus, silkihúfa eða annar óbótamaður neiti að tjá sig. Um daginn var nýr lögreglustjóri skipulega í felum, því að hún var aðili að samsæri. Í dag eru tvær fréttir í Fréttablaðinu, þar sem sést, að tveir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafa misst málið og hlaupið í felur. Auðvitað vegna aðildar að siðlausum vinnubrögðum. Í Garðabæ vegna nefndasetu og í Hafnarfirði út af leynifundi á bæjarkontór. Mér sýnist, að almennt ráðleggi almannatenglar minniháttar silkihúfum að hlaupa í felur, hvenær sem glittir í fjölmiðla. Gott er, að fjölmiðlar skrái opinberlega öll slík tilvik getuleysis.

Telegraph er hóra

Fjölmiðlun

Sem málgagn brezka íhaldsins hefur Telegraph lent á villigötum. Hefur tapað sér í hægri öfgum, svo og í hatri á meginlandi Evrópu og Evrópusambandinu. Lengst af var minna tekið eftir, að blaðið varð málgagn risabankanna. Um jól fékk það 250 milljón punda lán hjá hinum alræmda HSBC banka. Síðan hefur það þagað þunnu hljóði um skandal bankans. Risabankarnir hafa einnig náð tökum á heilum ríkjum, Bandaríkjunum og Bretlandi, svo og ríkjasamtökum, Evrópusambandinu og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Það sést vel af TISA-viðræðunum, þar sem Ísland er aðili. Í raun eru risabankar heims orðnir valdameiri en lýðræðislega kjörnir valdhafar.

Þola ekki gagnrýni

Fjölmiðlun

Framsóknarmenn beggja flokka ímynda sér, að tjáningarfrelsi felist í að þurfa ekki að sæta gagnrýni. Séu Sigmundur Davíð eða Ásmundur Friðriksson gagnrýndir, segja þeir slíkt vera skerðingu á tjáningarfrelsi sínu. Menn þurfa að vera úti að aka til að halda slíku fram. Tjáningarfrelsi felst í að mega tjá sig, þar á meðal að gagnrýna aðra eða gera grín að þeim. Gagnrýni getur út af fyrir sig aldrei talist skerðing á tjáningarfrelsi. Felist gagnrýni í, að gert sé grín að skoðunum bjána, er það engin skerðing á persónufrelsi þeirra. Þeir geta eigi að síður haldið áfram að tjá sig eða „taka umræðuna“ eins og málhaltir orða það.

Gott er að gúgla

Fjölmiðlun

Flestir nota Google til að leita, enda er nýyrðið að gúgla notað um alla leit á vefnum. Google er samt að ýmsu leyti hættulegt fyrirtæki, er til dæmis í nánum tengslum við leyniþjónustur Bandaríkjanna. Spurning er, hvort það hafi áhrif á gildi leitarvélarinnar. Nota Google-leit mikið, hef ekkert við hana að athuga. Hún vísar yfirleitt efst í Wikipedia, sem reynist traust heimild. Síðan vísar Google í þekktar heimildir, sem flestar eru sæmilega áreiðanlegar. Notandinn verður að vísu að þekkja heimildirnar og gera sér grein fyrir misjöfnu gildi þeirra. Ég verð ekki var við annarleg sjónarmið við röð heimilda hjá Google.

Vægir dómar

Fjölmiðlun

Dómar Kaupþingsmanna eru vægir, þótt sumir fjölmiðlar segi þá þunga. Skýringar vantar með þessu mati fjölmiðlunga, enginn samanburður á Lalla Johns og Sigurði Einarssyni. Dómarnir snúast um stjarnfræðilegar upphæðir, en ekki um bjórkippur eins og dómarnir yfir Lalla. Bernard Madoff fékk 150 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir fjárglæfra. Hvað mundi Fréttablaðið kalla slíkan dóm. Hæstaréttardómarnir í gær voru vægir. Sendu þó skilaboð um, að það kosti að setja þjóðfélagið á hvolf. Því er hægt að sætta sig við dómana, en þungir verða þeir seint taldir. Og túlkanir eiga ekki heima í fréttum, aðeins í útskýrðum fréttaskýringum.