Enn ein fiskdýrðin

Fjölmiðlun

Fiskur dagsins var pönnusteikt langa með kartöflum, rófuþráðum og lauk, frábær matur (1790 kr). Nýveiddur kræklingur úr Breiðafirði í soði með sólselju var enn betri (1890 kr). Nýsteikt kleina með ídýfu úr mysuosti var skemmtilegur eftirréttur (990 kr). Matur og Drykkur er nýtt veitingahús í gamla Ellingsen-húsinu við Grandagarð, þar sem líka er Sögusafnið. Hátt til lofts í rustalegum matsal, þar sem frumlegir skúlptúrar úr gegnsöguðum málverkum klæða einn vegg. Þjónusta var notaleg, en ekki skólagengin. Beztur var maturinn, enn ein vinin í sífellt lengri röð góðra fiskréttahúsa landsins. Guði sé lof fyrir ferðafólkið.