Fjölmiðlun

Hæstiréttur tapar ítrekað

Fjölmiðlun

Enn tapar ríkið og Hæstiréttur meiðyrðamáli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strasbourg. Íslenzkir meiðyrðadómar eru nánast undantekningarlaust ómerktir úti í Evrópu. Í annað sinn vinnur Erla Hlynsdóttir þar mál. Fyrir nokkrum árum var ómerktur dómur gegn henni fyrir meiðyrði um Strawberries. Nú er ómerktur dómur gegn henni fyrir meiðyrði um eiginkonu Guðmundar í Byrginu. Hæstiréttur verður að fara að hugsa sinn gang, þegar dómar hans verða sífellt til athlægis. Hér er ekki dæmt eftir stjórnarskrá, sáttmálum og ætlun löggjafans, heldur eftir afar sérstæðri túlkun orða í lögum, svokölluðum legalisma. Nú er nóg komið af honum.

Góðar skoðanakannanir

Fjölmiðlun

Ég trúi niðurstöðum skoðanakannana Capacent-Gallup, Fréttablaðsins og MMR. Tel alls staðar vera góða vinnu að baki. Kannanir Fréttablaðsins og MMR eru meira spennandi en Capacent-Gallup. Sú síðastnefnda spyr jafnt og þétt yfir langt tímabil. Þar eru fréttirnar sumpart mánaðar gamlar. Hinar stofnanirnar ná betur í nýjar vendingar í pólitíkinni. Um leið kann þar að vera um að ræða sveiflur, sem koma og fara. Þannig að samtals koma allir þessir aðilar að gagni. Áður birtu hagsmunaaðilar útkomur í atkvæðagreiðslum, til dæmis á vinnustöðum. Það var til að blekkja kjósendur og er blessunarlega horfið í myrkur gleymskunnar.

Trúarbrögð sjónvarps

Fjölmiðlun

Fákænar trúarjátningar í sjónvarpsrekstri eru skýrðar með, að sjónvarp þurfi að höfða til ungs fólks. Það skrítna er samt, að eltingaleikur sjónvarps við meint áhugamál ungs fólks og unglinga skilar síminnkandi áhorfi allra ungra kynslóða. Meðalaldur áhorfenda hjá FOX er kominn upp í 68 ár. Eins nálægt grafarbakkanum og hægt er að komast í Bandaríkjunum. CNN eldist aðeins skár, meðalaldurinn þar er 59 ár. Ungt fólk horfir ekki á sjónvarp. Ekki einu sinni þótt áherzlan þar færist frá viðmælendum og viðfangsefnum yfir á sögumanninn sjálfan. Sjónvarpi hefur frá aldamótum verið stjórnað með síbylju innantómra trúarjátninga.

Erlend mistök stæld

Fjölmiðlun

Í dagskrárgerð er sjónvarpið að gera sömu mistök og erlendar sjónvarpsstöðvar gerðu um aldamótin. DR, danska sjónvarpið, fékk almannatengla til valda. Þeir sögðu fréttir eiga að vera jákvæðar, ekki neikvæðar. Reyndist rugl og skaddaði rannsóknablaðamensku. Næst sögðu þeir fólk hafa meiri áhuga á spyrlum og útliti þeirra en viðmælendum og viðfangsefnum. Því ættu sögumenn frekar að vera í mynd en viðfangsefnin. Sama rugl og það, sem eyðilagði þætti um sagnfræði, lönd og náttúru. Við erum hér að endurtaka mistök annarra lið fyrir lið. Því verðið þið þessa daga að þjást undir fremur sjálfhverfum Andra og húmorlausum Hraðfréttum.

Burt með tanngarðsfólkið

Fjölmiðlun

Mette Fugl hjá Danmarks Radio segir eina delluna, sem drepi fréttir, vera, að meira beri á spyrjanda en viðmælanda. Dellan ríkir víðar en í fréttum. Í gamla daga hafði ég gaman af sjónvarpi um sagnfræði, lönd og náttúru. Slíkir þættir snúast núna um allt annað, um sögumann. Þegar ég vil sjá forna og nýja Persíu, vil ég sjá forna og nýja Persíu, en engan andskotans sögumann með tanngarðinn. Engir slíkir þættir eru lengur í boði, bara endalausar kvikmyndir af Ian Wright eða ýmsu tanngarðsfólki, sem sjónvarpsstöðvar telja merkilegra en Persíu. Mér skilst, að almannatenglar hafi logið þessu rugli að trúgjörnum stöðvarstjórum.

Dauðastríð blaðamennsku

Fjölmiðlun

Blaðamaður við Danmarks Radio sagði upp og skrifaði bók um hrun þessarar merku fréttastofu. Mette FUGL var fréttaritari í Bruxelles um langan aldur. Lýsir í „Fra koncepterne“, hvernig almannatenglar yfirtóku fréttastofuna um aldamótin og eyðilögðu hana. Hver dellan rak aðra. Slagorð urðu trúaratriði. Á tímabili urðu fréttir að vera jákvæðar. Í annan tíma átti að bera meira á spyrjandanum en viðmælandanum. PR-slagorðin áttu að fanga hugi fólks, en leiddu þvert á móti til hruns í trausti. Sáum svipað á íslenzkum fjölmiðlum á sama tíma. Gamaldags fréttamennska vék fyrir eltingaleik almannatengla við innantóma slagorðatízku.

Washington Post kom aftur

Fjölmiðlun

Jeff Bezos, eigandi Amazon og nýr eigandi Washington Post, hefur hleypt eldmóði í flakið af gamla Watergate-fjölmiðlinum. Náði í Martin Baron, ritstjóra Boston Globe, og gerði að ritstjóra Washington Post. RÁÐNIR hundrað starfsmenn og líf og litur breiðist þar út. Blaðið er byrjað að skúbba og kvelja embættismenn eins og í gamla daga. Nú varð yfirmaður leyniþjónustunnar, Julia Pierson, að segja af sér. Blaðið er svo sem ekki orðið eins og hjá snillingnum Ben Bradlee á tíma Watergate. Er þó að ná sér á strik eftir langa lægð af tímum sparnaðar, niðurskurðar og fráhvarfs frá rannsóknum. Bættur tími Bezos með blóm í haga.

Klerkar ritskoða mig

Fjölmiðlun

Hef verið þögull á fésbók og tísti í tvær vikur. Var á ferð um Íran, þar sem skrúfað er fyrir þessa miðla. Þurfti að fara á góð netkaffihús til að krókast kringum það. Nennti því ekki, sætti mig við að vera ritskoðaður svona. Í Íran ráða klerkar öllu. Vasast í ríkisrekstri, loka fésbók og tísti, ritskoða allt efni, frá boðskortum yfir í kvikmyndir. Strika út frambjóðendur að vild. Taka lítið mark á ákvörðunum þings og forseta. Þær stöðvast hjá erkiklerkinum mikla, sem veit allt betur um, hvað sé heppilegast fyrir lýðinn. Forskrifar jafnvel, að trúhneigður Saadi sé betra skáld en veraldlegur Omar, er orti um víf og vín.

Glórulaus leiðari

Fjölmiðlun

LEIÐARI Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Fréttablaðinu er vondur fyrirboði. Ber saman Geirfinnsmálið og mál Jóns Ásgeirs. Í fyrra tilvikinu voru smælingjar í löngu gæzluvarðhaldi og mánuðum saman í einangrun. Í síðara tilvikinu veltir hinn grunaði sér í peningum og er með her færustu lögmanna. Hefur þar á ofan ekki séð fangelsi að innan, hvað þá einangrun. Að líkja framvindu þessara tveggja mála er svo gersamlega út í hött, að undrum sætir. Mér sýnist það boða ferðalag Fréttablaðisins í stöðu eindreginnar og glórulausrar hagsmunagæzlu fyrir Jón Ásgeir. Breytingarnar á ritstjórn blaðsins hafa gert það ómarktækt.

Vitgrannir ákafamenn

Fjölmiðlun

Efast um, að Hallgrímur Thorsteinsson hafi skilið stöðuna rétt. Að taka mark á Sigurði G. Guðjónssyni er of háll ís til að skauta á. Vinnubrögðin við yfirtöku voru ekki traustvekjandi og stuðuðu starfsmenn ritstjórnar. Hallgrímur átti að vita þetta. Hann er ágætlega menntaður í faginu og hefur langa reynslu. En nú situr hann í súpu Sigurðar og fær vart hnikað blaðamönnum. Reyndar er hann vel látinn, en er ekki maður erfiðra ákvarðana; hóflega hægri sinnaður, en mun ekki láta það flæjast fyrir sér. Yfirtökur eru kannski auðveldar í viðskiptalífinu, en alls ekki í fjölmiðlun. Svona fer, þegar vitgrannir ákafamenn halda annað.

Almenningur tapaði

Fjölmiðlun

Fráfarandi valdakerfi DV var frá upphafi veikt og bauð upp á hallarbyltingu. Fjármögnun fyrirtækisins byggðist á Lilju Skaftadóttir, sem var afskiptalítill eigandi í gamla stílnum. Þegar hún bilaði og seldi hrægömmum hlutabréfin, var úti um DV í núverandi mynd. Bakhjarl svona blaðs má ekki bila. Á aðalfundi félagsins kom í ljós, að þau bréf voru komin í hendur Sigurðar G. Guðjónssonar lagatæknis. Hann leiddi saman ýmsa hatursmenn Reynis Traustasonar, sem var felldur í sameinuðu átaki. Þannig fór tilraun Reynis til alvöru blaðamennsku. Mest er tjón almennings, sem reyrður verður fastar í fjötra eigenda ríkisins.

Þeir seigu eru gulls ígildi

Fjölmiðlun

Ég þekki svo marga málsaðila deilna um eignarhald og stjórn á fjölmiðlum, að ég á erfitt með að tjá mig um málsatvik. Get bara talað almennt um málið. Þungt er í vöfum að ná fram breyttum áherzlum í ritstjórnarstefnu. Þær koma strax í ljós og valda fjölmiðlinum búsifjum. Til dæmis sú kenning, að hrunið hafi stafað af mistökum fremur en glæpum. Hlegið verður að því. Dýrt er að kaupa fjölmiðil til að leggja hann niður. Blaðamenn eru seigir eins og sést af Fréttatímanum, sem blómstrar, og Kjarnanum, sem sífellt er vitnað í. Ég var oft rekinn. Koma og fara fjölmiðlar og tegundir fjölmiðla, en seigir blaðamenn eru gulls ígildi.

Steininn tekur úr

Fjölmiðlun

Í Mogganum í dag birtist einstæð fávitagrein hæstaréttarlögmanns um bréf umba alþingis til Hönnu Birnu. Margt er skrítið í umræðunni hér á landi, en þessi grein er langt utan við það. Lögmaðurinn heldur, að orð Hönnu Birnu séu ígildi dómsúrskurðar. Hún hafi úrskurðað, að leka- og fölsunarmálið hafi ekki verið rætt á fundum eða í símtölum sínum við Stefán lögreglustjóra. Þar með þurfi umbinn ekki að spyrja um tímasetningar og önnur tækniatriði þessara funda og símtala. Þau komi málinu ekki við. Mér skilst, að lögmaðurinn hafi tekið próf í lagadeild Háskóla Íslands. Froða hans er samt ekki hæf sem texti í fjölmiðli.

Reynir er toppmaður

Fjölmiðlun

DV er Reynir Traustason í fyrsta, öðru og þriðja lagi. Hann hefur lengi verið merkisberi staðfastrar blaðamennsku. Í gamla daga á DV sýndi hann mikla seiglu í biskupsmálinu svonefnda og í dúksmáli Árna Johnsen. Aðrir fjölmiðlar vildu ekki snerta málin fyrr en á síðari stigum. Sama er að segja nú um lekamál Hönnu Birnu. Reynir lætur ekki bugast, þótt móti blási um sinn. Vinnubrögð hans hafa einkennt endurreisn DV á síðustu misserum. Því er dapurlegt, ef hluti eigenda blaðsins vill losna við hann eða setja yfirfrakka á hann. Þar hljóta annarleg sjónarmið að vera að baki, enda eiga hér margir bófarnir um sárt að binda.

Skugginn á gæðatímanum

Fjölmiðlun

Allt í lagi að vera án fasts netsambands? Heimsótti tjaldstæði tvisvar á dag (Já, netið er komið á tjaldstæðin). Kíkti á fésbók, blogggátt og fréttagátt og setti punkta á netið. Oftast um atriði, sem hafa verið í fréttum og umræðu eða verða næstu daga. Þarf ekki að skoða póstinn og kíkja á veðurspána oftar á dag. Alls fara þannig tveir tímar á dag í internetið. Það er bara fjandans ekki nóg. Mig skorti nettíma til að gúgla og wikipedíast við að kíkja bakvið tjöldin. Var því tæpast upplýstur um öll mál dagsins. Sleppti að skrifa um flækjur, tók bara fyrir einföld mál. Skuggahliðin á gæðatíma sveitasælunnar var óþægileg. Hlakkaði til að komast í betri manna netsamband í stórborginni.