Author Archive

Víxilinn þarf að framlengja.

Greinar

Sanngjörn er tillaga Hjörleifs Guttormssonar iðnaðarráðherra um afnám aðlögunargjalds á innfluttar iðnaðarvörur í þremur áföngum á tveimur árum í stað algers afnáms nú um áramótin, svo sem viðskiptasamtökum Evrópu var lofað.

Tillagan felur í sér, að gjaldið lækki úr 3% í 2% um áramótin, síðan í 1% um áramótin þar á eftir og hverfi loks um áramótin 1982-1983. Með þessu fengi íslenzkur iðnaður aukið svigrúm til að mæta frjálsri, erlendri samkeppni.

Inn á við er tillagan sanngjörn. Íslenzkur iðnaður getur ekki breytzt á nokkrum árum úr verndaðri gróðurhúsajurt í harðgera útilífsplöntu. Samt hefur hann að verulegu leyti verið svikinn um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðuna.

Við höfum um langt skeið verið aðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu og að viðskiptasamningi við Efnahagsbandalag Evrópu. Við gerðum þetta bæði til að afla okkur markaða og til að koma atvinnuvegum okkar í markaðshæft ástand.

Auðvitað gátum við ekki rekið iðnað okkar eins og einhvern landbúnaðarræfil í skjóli innflutningsbanns og tollmúra. Við höfðum landbúnaðinn á herðum sjávarútvegsins og gátum engan veginn hlaðið iðnaðinum til viðbótar á þær herðar.

Við sömdum við evrópsku samtökin um tíu ára aðlögunartíma til að venja íslenzkan iðnað í áföngum við erlenda samkeppni. En svo notuðum við ekki þennan tíma nógu vel. Við létum undir höfuð leggjast að veita iðnaðinum jafnrétti.

Enn þarf iðnaðurinn að greiða tolla af ýmsum aðföngum, sem erlendur samkeppnisiðnaður þarf ekki að greiða. Iðnaðurinn hefur ekki sama aðgang að fjármagni og lánakjörum. Hann hefur ekki sama aðgang að vísindum og þróunaraðstoð.

Við erum svo gróflega úti að aka í þessum efnum, að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir hlutfallslega meiri hækkun framlaga til landbúnaðar en iðnaðar. Það er eins og stefnt sé að koma þjóðinni í sveit og á sveit.

Í kjölfar margra mistaka af þessu tagi þarf engan að undra, þótt örlitla framlengingu þurfi á ýmissi vernd, sem iðnaðurinn nýtur. Það breytir ekki markmiðinu, að hann verði nógu harðger til að þola norðangarra nútíma samkeppni.

Aðlögunargjaldið var og er í sjálfu sér hallærislausn. Í rauninni væri vitlegra að koma í framkvæmd ýmsum aðgerðum til að jafna aðstöðu íslenzkra atvinnuvega innbyrðis og gagnvart útlöndum. Þetta hefur rækilega verið trassað.

Við getum tekið tolla af aðföngum iðnaðarins sem dæmi. Alþingi fól ríkisstjórninni fyrir hálfu öðru ári að afnema þá. Þetta þýddi, að greina þurfti milli iðnaðarþarfa og annarra þarfa í 230 númerum í tollskránni. Iðnaðarráðuneytið lauk þeirri vinnu fyrir tveimur mánuðum.

Síðan hefur fjármálaráðuneytið legið á málinu, auðvitað vegna þess, að efnd loforðsins jafngildir eins milljarðs rýrnun ríkistekna. Í framhjáhlaupi má svo minna á, að tímabundin framlenging aðlögunargjalds gefur tekjur á móti.

Hversu gallað sem aðlögunargjaldið er, þá er tillagan um hægt fremur en snöggt andlát þess sett fram á þann hátt, að engin leið er fyrir Fríverzlunarsamtökin og Efnahagsbandalagið að hafna henni, þótt þau hafi varað við henni.

Tómas Árnason viðskiptaráðherra er óþarflega hræddur við ráðamenn samtakanna. Þeim fer eins og bankastjóranum, sem ætlaði að fá víxilinn borgaðan upp í fyrstu lotu, en sætti sig svo með góðu við framlengingu, af því að hver afborgun var þó einn þriðji .

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hagnaður Dagblaðsins og ykkar.

Greinar

Afkoma Dagblaðsins hefur batnað með hverju árinu. Á aðalfundi félagsins um helgina kom í ljós, að í fyrra nam hreinn hagnaður 11,7 milljónum króna. Höfðu þá verið greiddar fullar, lögleyfðar afskriftir, svo og tekju- og eignaskattar.

Eigið fé Dagblaðsins hefur smám saman aukizt upp í 193 bókfærðar milljónir króna og um meira í raun. Þetta hefur gert blaðinu kleift að vélvæðast í nútímastíl og hefja miklar byggingaframkvæmdir á lóð þess að Þverholti 11.

Enn er í gildi fyrri ákvörðun um stofnun sérstaks hlutafélags um þetta hús, þótt Dagblaðið hafi hingað til getað haldið hóflegum byggingarhraða af eigin fé. Má búast við stofnun húsfélags á næsta ári, svo að húsið nýtist sem fyrst.

Á aðalfundinum kom fram, að hagnaður og frekari eignaaukning hefur orðið á þessu ári. Tölur þær eru samt enn ekki nógu háar, ef miðað er við rúmlega milljarðs veltu í fyrra og tæplega tveggja milljarða króna veltu í ár.

Hagnaður Daghlaðsins væri margfaldur, ef blaðið þægi ríkisstyrk eins og hin hlöðin, sem öll tapa tugum milljóna króna á ári, önnur en Morgunblaðið. Dagblaðið vill vera frjálst og óháð og þar með ekki gerast próventukarl hjá hinu opinbera.

Afkoman leyfði í haust stækkun Dagblaðsins til aukinnar þjónustu við lesendur. Sá stækkunarkostnaður hefur sennilega skilað sér í stærri lesendahópi. En næstu skref þarf að stíga varlega inn í óvissa framtíð efnahagsmála.

Dagblaðið má ekki fara of geyst. Mestu máli skiptir nú að treysta fjárhagsstöðu þess, svo að það geti riðið af sér óvæntar öldur í róti almennra efnahagsmála. Sá einn, sem er öflugur, getur verið frjáls og óháður.

Dagblaðið reynir af megni að gegna hlutverki sínu sem fjölmiðill upplýsinga og skoðana, óháður ríki, stjórnmálaflokkum og öðrum öflugum þrýstihópum. Á þessum sviðum má gera mun betur, eftir því sem fleiri lesendur bætast í hópinn.

Á fimm ára ferli sínum hefur Dagblaðið breytt íslenzkri fjölmiðlun og opnað almenningi innsýn í þjóð- málin. Enda kvarta stjórnmála- og embættismenn sáran yfir því að fá ekki lengur að vera í friði með þjóðmálin sem sín einkamál.

Dagblaðið hefur sjálft breytzt á þessum fimm árum. Það er ekki lengur fyrst og fremst lausasölublað. Meirihluti upplagsins fer til áskrifenda og ekki síður út á land en á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað jafngildir þetta traustari stöðu blaðsins.

Almenningur hefur áttað sig á auglýsingagildi Dagblaðsins. Það hefur náð algerri sérstöðu sem smáauglýsingablað landsmanna. Stórir auglýsendur hafa verið seinni að taka við sér sumir hverjir, þótt aðrir hafi verið fljótir til.

Í fyrra stóðu auglýsingastofurnar að óháðri fjölmiðlakönnun, sem leiddi í ljós, að Dagblaðið kom næst Morgunblaðinu, langt á undan hinum blöðunum fjórum. Könnunin sýndi, að Dagblaðið var ótvíræður sigurvegari á síðdegismarkaðinum.

Dagblaðið átti fimm ára afmæli fyrir þremur mánuðum. Hinar góðu viðtökur, sem blaðið fékk þegar í upphafi, og hinn jafni og þétti viðgangur þess á hinum fimm árum eru merki um, að mikil þörf var og er á óháðum fjölmiðli hér á landi.

Enn vantar okkur lesendur í hópinn. Fleiri lesendur munu leiða til stærra og betra blaðs. Þeir munu líka leiða til fleiri og betri auglýsinga og enn frekari víxlverkunar í þágu óháðs straums upplýsinga og skoðana.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Endurtekin gamansemi.

Greinar

“Utgerð þessa skips getur aldrei gengið og á það eftir að valda íbúum þessa byggðarlags svo óbærilegum skaða, að erfitt er að sjá, hvernig þeir geta undir risið”, sagði Kristján Ragnarsson á aðalfundi útgerðarmanna í síðustu viku.

Formaður útvegsmanna var að fjalla um kaup á erlendum togara til Þórshafnar. Með þeim er rofin reglan um, að skip skuli fara í skips stað. Mun hið nýja skip því auka sóknina í þorskstofninn og rýra afkomu togaraflotans í heild.

Kristján sagðist fyrir tveimur árum hafa gert að umtalsefni útgerð togarans Fonts frá Þórshöfn. “Fór allt það eftir, sem sagt var þá, og gefizt var upp á útgerðinni, en hún hafði valdið þorpsbúum ómældum búsifjum”, sagði hann.

Áfram hélt formaðurinn á aðalfundinum: “Tilurð þess skips var rakin til fyrirgreiðslupólitíkur alþingismanna og kommissara í valdastofnunum í Reykjavík. Ástæða til þess, að ég nefni þetta, er sú, að nú skal hefja leikinn á ný”.

Kristjám gat þess einnig, að við hin nýju kaup hafi ekki verið fylgt reglum um fjármögnun. Á hann þar við, að opinberir aðilar með sjávarútvegsráðherra og hina illræmdu Framkvæmdastofnun í broddi fylkingar fjármagna skipið til fulls.

Hin gífurlega og sjálfvirka fyrirgreiðsla hins opinbera til fiskiskipakaupa hefur í auknum mæli staðið arðsemi útgerðar fyrir þrifum. Hún hefur freistað óþarflega margra til slíkra kaupa og þar með valdið óhóflegri sókn í takmarkaðan stofn.

Öllum öðrum en Steingrími Hermannssyni og Sverri Hermannssyni má vera ljóst, að heildarafli eykst ekki um einn fisk, þótt skipum fjölgi, heldur eykst bara útgerðarkostnaður þjóðarinnar. Samt lána þeir yfir 100% í þetta nýja skip.

Húmoristum í Reykjavík kann að þykja fyndið að gera út hvert skipið á fætur öðru á kostnað sveitarsjóðs Þórshafnar, byggðasjóðs, ríkissjóðs og allra annarra fyrirfinnanlegra sjóða. Samt rýrir endurtekningin gildi fyndninnar.

Það gagn fylgir svo óneitanlega aðgerð þessari, að landsmenn sjá betur en áður, hvílíkir skrípakarlar stjórna málum þjóðarinnar, allt frá ráðherrum og kommissörum niður í minni háttar sjóðastjóra og þrýstihópa-þingmenn.

Útgerð togara frá Íslandi getur því aðeins gengið, að þeir hafi verið keyptir, þegar verðlag var mun lægra en nú, og að afborganir hafi verið greiddar, þegar betur áraði í togaraútgerð en nú á þessum síðustu skrapdagatímum.

Gera má ráð fyrir, að afborganir og vextir nýkeyptra togara nemi um 53% af aflatekjum þeirra. Þá er alveg eftir að greiða skipverjum og olíusölum, svo og annan kostnað. Slík útgerðardæmi ganga aðeins upp á kostnað skattgreiðenda.

Það kom fram í máli Kristjás, að sex togarar, sem nú eru í smíðum í landinu, muni, þegar þeir koma til skjalanna, fjölga veiðibanndögum togaraflomns um sextán. Og ekkert hinna nýju skipa mun geta aflað fyrir vöxtum eða afborgunum.

Sú skipulega rýrnun arðsemi togaraútgerðar, sem felst í sex nýjum togurum, kostar þjóðarbúið hvorki meira né minna en 24 milljarða króna í stofnkostnaði. Enda sagði formaðurinn: “Það er ekki í þágu sjávarútvegsins, að skip þessi eru smiðuð”.

Og “erfitt er að taka þátt í mótun fiskveiðistefnu á ábyrgan hátt, þegar stjórnvöld landsins brjóta eigin yfirlýsingar og leggja stein í götu þess, að árangri megi ná, – með sífelldri fjölgun skipa, sem byggist á óábyrgri fjárhagslegri fyrirgreiðslu”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Föðurlegar áminningar.

Greinar

Hinar árlegu og föðurlegu áminningar Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD eru nú komnar út enn einu sinni. Að baki kurteislegs orðalags eru Íslendingar eindregið hvattir til að láta af hálfkáki og taka upp styrka stjórn þjóðarhags.

Stofnunin hefur að undanförnu sætt gagnrýni alþjóðlegra verkalýðssamtaka fyrir að mæla með aðgerðum, sem auka atvinnuleysi, og fyrir að láta undir höfuð leggjast að líta á minnkandi atvinnu á Vesturlöndum sem alvarlegan vanda.

Eitthvert mark kann hún að hafa tekið á þessu, því að tillögur hennar til Íslendinga geta ekki talizt fela í sér neina leiftursókn, hvorki gegn verðbólgu né lífskjörum. Fremur mætti segja þær fela í sér ýmsar smáskammtalækningar.

Hins vegar er sá annmarki á skýrslu stofnunarinnar, að þar er ekki fjallað um það merkilega afrek Íslendinga að halda uppi fullri atvinnu í landinu á sama tíma og aðrar þjóðir Vesturlanda berjast við magnaða vofu atvinnuleysis.

Margt má ljótt um nokkrar síðustu ríkisstjórnir segja. Það mundi því ekki saka að geta hins fáa, sem vel er gert. En OECD er svo innilokuð í hagfræði sinni, að stofnunin kann ekki að meta fulla atvinnu sem þjóðhagslegt markmið.

Athyglisvert er þó, að í Íslandsskýrslunni beitir stofnunin sjálfa sig kurteislegri gagnrýni fyrir að hafa aldrei skilið, hvernig Íslendingar gætu lagað sig að mun magnaðri verðbólgu en þeir ættu hagfræðilega séð að þola.

Einu sinni þóttu 10% vera hneykslanleg verðbólga. Það hlutfall er nú talið selskapshæft, en 50% talin vera úr hófi fram. Af hverju ekki setja mörkin við 100% eða 500%, ef menn verðtryggja laun, verð og fjárskuldbindingar og láta gengið dansa?

Satt að segja er ekki auðvelt að sjá, hvað eru rök og hvað eru trúarsetningar í hagstjórn. Svo virðist sem Ísraelsmenn séu ekki á vonarvöl, þótt þeim hafi tekizt með aðstoð Friedmanns hins fræga að koma verðbólgunni yfir 100%.

Svo öllu réttlæti sé fullnægt, skal tekið fram, að trúarsetningarnar skipta litlu máli í Íslandsskýrslunni. Þar er bent á aðgerðir, sem flestir geta verið sammála um. Aðgerðir, sem miða að raunhæfum markmiðum á sviði jafnvægis.

OECD vill láta ljúka framkvæmd verðtryggingar fjárskuldbindinga. Hún vill láta gera verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins starfhæfa að nýju og bæta við útflutningssjóði eða auðlindaskatti. Sá skattur er nú loksins orðinn selskapshæfur.

Ýmislegt fleira er óvenjulegt og þess vegna athyglisvert í skýrslunni. Þar er tekið fram, að of einhæft sé að ráðast á laun manna. Þar er sagt, að taumhald þurfi að hafa á gengislækkunum. Og þar er hvatt til varúðar í óbeinum sköttum.

Kjarni máls OECD er þó sá, að stjórnvöld verði að láta af hálfkáki síðasta áratugar og taka upp styrka stjórn þjóðarhags í staðinn. Þetta er nokkrum sinnum tekið fram í skýrslunni og þetta eru líka lokaorðin í niðurstöðum hennar.

Gagnrýninni er ekki sérstaklega beint að núverandi ríkisstjórn, heldur sameiginlega að öllum sex ríkisstjórnum þessa áratugar, hægri og vinstri ríkisstjórnum, út- og suður ríkisstjórnum, norður- og niður ríkisstjórnum.

Hvatningin beinist hins vegar að núverandi ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar á alþingi og í þrýstihópum. Hún er hin sama og hér í Dagblaðinu hefur verið sett fram með vaxandi örvæntingu: Mannið ykkur upp í að nota myntbreytinguna!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þeir strá salti í sárin.

Greinar

Flugmenn eiga ekki mikla sök á, hvernig komið er fyrir Flugleiðum. Há laun þeirra og verkfallshótanir eru mun léttari á metunum en sofandaháttur forstjóra og rangar spár um þróun mikilvægra liða rekstrardæmisins.

Hins vegar er því ekki að leyna að flugmenn hafa með ýmsum gerðum sínum lítt stuðlað að gengi fyrirtækisins. Þeir hafa verið harðskeyttir í fjárheimtu. Og þeir hafa valdið beinum skaða með verkföllum og hótunum um verkföll.

Nú hefur verið og er verið að segja upp starfsmönnum, allt frá hinum lægst launuðu upp í framkvæmdastjóra. Svo virðist hins vegar sem forstjórar og flugmenn ætli sér að losna við þátttöku í því atvinnuböli almennings.

Hér hefur áður verið bent á, að forstjórar og stjórnarmenn áttu að fá fyrstu uppsagnarbréf Flugleiða. Þar er að leita mistakanna, sem starfsfólk þarf nú að borga fyrir með atvinnumissi. En höfðingjarnir hreyfa sig ekki.

Þessa dagana er til viðbótar að koma í ljós, að flugmenn njóta svipaðra forréttinda. Við þeim er ekki hægt að stugga, þótt ljóst sé, að Flugleiðir þurfa ekki á svo mörgum að halda. Þeir hafa verið endurráðnir til tíu mánaða.

Deilurnar um starfsaldurslista flugmanna eru orðnar afar þreytandi. Líkur benda til, að skattgreiðendur séu ekki hrifnir af að bæta þeim herkostnaði út í fjármálasúpu Flugleiða. Þeir fara senn að heimta lögfestan starfsaldurslista.

Kaldhæðni örlaganna er söm og jöfn. Þeir missa atvinnuna, sem alltaf hafa unnið fyrirtækinu vel, venjulegir starfsmenn. Þeir sitja áfram, sem eyðilagt hafa fyrirtækið, forstjórarnir, og einnig þeir, sem spillt hafa fyrir, flugmennirnir.

Raunsætt mat á stöðunni krefst þess, að viðkomandi einstaklingar sæti hinni miklu röskun, sem fylgir atvinnumissi hjá Flugleiðum. En forréttindahópar forstjóra og flugmanna strá salti í sárin, þegar þeir hlífa sjálfum sér.

Einokunin verði takmörkuð.

Steingrímur Hermannsson, ráðherra pósts og síma, hefur tekið undir það sjónarmið Alberts Guðmundssonar, að draga þurfi úr einokun Póst- og símamálastofnunar á innflutningi og sölu ýmissa fjarskiptatækja.

Albert hefur meðal annars bent á, að einkaleyfi símans ætti að enda í tengli innan húsveggs notanda, alveg eins og leiðslur rafmagns-,vatns- og hitaveitna. Menn geta valið sér rafmagnstæki, krana og ofna. Hví ekki fjarskiptatæki?

Enginn vafi er á, að einokun símans hefur tafið nýtingu rafeindatækni til fjarskipta. Símsvarar og skráningartæki af hinum fullkomnari gerðum hafa ekki hlotið náð, til mikils óhagræðis í viðskiptum innanlands sem út á við.

Þá hefur einokunin nánast hindrað notkun á telexi í viðskiptum innanlands og gert hana erfiða út á við. Það er ein mynd þess, hversu sjúkleg sú stofnun er, sem vill heldur okra á fáum en ná tekjum með almennari notkun.

Allt frá póstsamgöngum til rafeindatækni hvílir einokun hinnar sjúku stofnunar á viðskiptum atvinnulífsins. Og í framhjáhlaupi má hún vera að því að hindra fólk í að velja þær tegundir síma og þá liti síma sem því þóknast.

Stuðningur Steingríms bendir vonandi til, að nú sé á alþingi meðbyr með margfluttri tillögu Alberts um takmörkun einokunar símans til jafns við hita-, vatns- og rafveitur.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hátimbruð lagasmíði

Greinar

“Kostnað og dagsektir … má innheimta með lögtaki”, segir um valdsvið og þvingunarúrræði hollustunefnda gagnvart brotlegum aðilum í stjórnarfrumvarpi um hollustuhætti og hollustuvernd, sem lagt var fram á alþingi um daginn.

Síðan segir í frumvarpinu: “Er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafizt”. Andi lögregluríkis hvílir greinilega yfir þessu lögtaks- og lögveðsfrumvarpi.

Hingað til hefur þótt nægja að fara venjulegar leiðir fyrir dómstólum, þegar eftirlitsskyldir aðilar hafa neitað að greiða reikninga frá hinu opinbera fyrir unnin verk á kostnað aðilanna, til dæmis við hreinsun lóða.

“Sé öðrum en hollustunefnd falið með sérstökum lögum eftirlit með starfsemi, sem lög þessi taka til og fari fyrirmæli þeirra í bága við fyrirmæli hollustunefndar og takist ekki að samræma fyrirmælin, skal leggja málið til fullnaðarúrskurðar ráðherra”.

Þannig heldur frekja frumvarpsins áfram. Svo virðist sem fyrirmæli hollustunefnda eigi að teljast jafnrétthá landslögum. Eiga þá hollustunefndir að vera jafnmargar sveitarfélögum landsins og verða trúlega jafn misvitrar öðrum nefndum.

Ekki er ljóst, hvort þetta fyrirhugaða bákn á að vera undir væng heilbrigðisráðuneytisins, þótt svo segi á öðrum stað frumvarpsins. Á öðrum stað segir nefnilega: “Stjórn stofnunarinnar hefur undir yfirstjórn ráðherra æðsta vald í málefnum stofnunarinnar”.

Af þessari tilvitnun má ráða, að ráðuneytið sem slíkt geti takmörkuð áhrif haft á gang mála í stofnun, sem heyrir beint undir ráðherra eins og Póstur og sími. Ætla mætti, að hér væri verið að reyna að búa til nýtt ráðuneyti.

Hvaða mál er þá svona mikilvægt, að skrifræðismenn þurfi að stunda gandreið í smíði frumvarpa? Hlutverk hinna fyrirhuguðu laga kemur fram í fyrstu grein þess. Það er almenn óskhyggja og huggulegar hugleiðingar.

“Lögum þessum er ætlað að skapa grundvöll til þess að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði, sem á hverjum tíma eru tök á að veita”. Ennfremur: “Með markvissum aðgerðum skal vinna að þessu …”

Síðan koma næstu greinar og fjalla um, að innihald sjálfra laganna skuli ekki vera neitt, heldur skuli allt vald sett í hendur ráðherra. Alþingi á ekki að setja honum fyrirmæli um innihald reglugerða á neinu sviði:

“… setur ráðherra hollustuverndarreglugerð”, þar sem vera skulu “almenn ákvæði” í 29 málaflokkum. Ennfremur “… setur ráðherra mengunarvarnareglugerð”, þar sem vera skulu “almenn ákvæði” í 13 málaflokkum.

Hið eina áþreifanlega í frumvarpinu fjallar ekki um hollustu sem slíka, heldur smíði stórfenglegs bákns ótal hollustunefnda, hollustusvæðisnefnda, nokkurra forstöðumanna hollustueftirlits eða Hollustuverndar ríkisins.

Svo langt er gengið í óskhyggju skrifræðissinna, að ákvæði eru í frumvarpinu um, hversu oft hollustunefndirnar 224 og hollustusvæðisnefndirnar 11 skuli koma saman.

Frumvarp þetta ætti að gefa þingmönnum tækifæri til að reyna að endurfinna, hvert skuli annars vegar vera hlutverk laga og hins vegar reglugerða og hver skuli vera takmörk þeirra gagnvart almennum mannréttinum.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Ætli menn yfir fljótið.

Greinar

“Þeir segja við kjósendur: 1. Þú hefur alltof lítið, 2. þessu verður að breyta og 3. það er enginn vandi”. Þannig lýsti Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður “sumum” stjórnmálamönnum í kjallaragrein hér í Dagblaðinu á laugardaginn.

Lýsing Guðmundar er laukrétt. Íslenzk stjórnmál eru full af kjarkleysingjum, sem þykjast allt fyrir alla vilja gera og eru sjúklega hræddir við að viðurkenna tilvist vandamála. Þeir halda nefnilega, að þeir verði annars óvinsælir.

Þessi sjúkdómur hefur hrjáð stjórnmálaflokkana misjafnlega mikið eftir aðstæðum. Nú hrjáir hann einkum stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins, sem hossar sér í ábyrgðarleysinu, og Alþýðubandalagið, sem er í eðli sínu ábyrgðarlítið.

Í greininni benti Guðmundur á, að þjóðartekjur á mann hafa farið minnkandi árin 1979 og 1980 og virðast enn munu minnka á næsta ári. Hann segir réttilega, að þetta hljóti að koma fram í kjörum, því að laun séu 70-80% þjóðartekna.

Enginn galdramaður er til í hópi stjórnmálamanna, hagfræðinga, þrýstara og sáttasemjara, sem getur bætt lífskjör fólks, þegar þjóðartekjur á mann fara minnkandi. Lífskjör og þjóðartekjur eru næstum einn og sami hlutur.

Allir vita í rauninni, að þjóðarbúið getur ekki greitt 11% hækkun launa umfram verðbætur. Allir vita, að hvert einasta prósent fer út í verðlagið og mun á næsta ári magna verðbólguna úr 50% í 75%, ef kyrrt verður látið liggja.

Fróðlegt væri að vita, hvern á að blekkja, þegar samið er um launakjör með þeim hætti, sem nú hefur verið gert. Kannski er þó verið að létta róður manna yfir jólin, unz allt sækir í sama horf upp úr áramótunum.

Verkjatöflur geta verið þægilegar, þótt þær lækni ekki neitt. Og óneitanlega er hlálegt, að 11% launahækkun muni hverfa á næsta ári og snúast við í 4% kjararýrnun. Það mun einmitt gerast, þótt ekki verði “ráðizt” á lífskjör fólks.

Hættan er svo sú, að hin óhefta verðbólga muni sprengja atvinnulífið á limminu, valda gjaldþrotum og samdrætti. Þar með værum við búin að fá atvinnuleysi ofan á verðbólgubölið. Og þá er verðbólgan ekki lengur til neins gagns.

Skynsamlegra er að ráðast af hörku gegn verðbólgunni, þótt aðgerðir verði að töluverðum hluta fólgnar í kjararýrnun. Hún kemur hvort sem er, svo að eins gott er að skipuleggja hana og hagnýta til síðari tíma kjarabóta.

Síðast sýndu íslenzkir stjórnmálamenn kjark fyrir tveimur áratugum. Róttækar aðgerðir Viðreisnarstjórnarinnar á fyrsta kjörtímabili hennar sprautuðu fjöri í sjúkan þjóðarhag og komu á nýrri gullöld lífsgæða.

Það má svo vera stjórnmálamönnum lærdómsríkt, að þessi stjórn vann næstu kosningar á eftir þessum harkalegu aðgerðum. Kjósendur kunna nefnilega að meta stjórnmálamenn, sem þora. Kjósendur eru ekki fáráðlingar.

Guðmundur segir í greininni, að ekki sé hægt að bíða lengur en til áramóta eftir heilsteyptum og samræmdum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Í veganesti færir hann henni tilvitnun í Horatius, sem þolir endurtekningu:

“Ætli menn yfir fljótið, er seinlegast að bíða, þar til það hefur skipt um farveg. Óvænlegt er að fresta framkvæmdum, þar sem dugleysið sér enga erfiðleika. Ætlum við yfir fljótið, verðum við að treysta á eitthvað annað en náð vatnsins”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fara undan í flæmingi.

Greinar

Örlítið friðvænlegra ætti að verða í ríkisstjórninni eftir landsfund Alþýðubandalagsins. Þar voru ágreiningsefni þess og Framsóknarflokksins ekki sett fram á svo eindreginn hátt, að hindra muni svigrúm til samkomulags.

Í Helguvíkurmálinu neyddist bandalagið til að taka tillit til sjónarmiða af Suðurnesjum, sem Oddbergur Eiríksson lýsti á landsfundinum. Í ályktun fundarins er viðurkennt, að mengunarhætta kalli á smíði olíugeyma á nýjum stað.

Alþýðubandalagið er samt óánægt með Helguvík og einkum þó með fyrirhugaða stækkun geymslurýmis. Ályktunin er nokkuð óljós, en bendir þó til, að bandalagið vilji helzt hafa olíugeymana inni á núverandi vallarsvæði.

Í þessu máli horfir bandalagið mjög til Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra, sem hefur opinberlega lofað, að Helguvíkurmálið verði tekið upp í ríkisstjórninni. Þar með hefur hann þó ekki lofað neinum neitunarvaldi í málinu.

Ólafur Jóhannesson segir svo, að Helguvíkurmálið sé sitt mál og að framkvæmdir muni hefjast á næsta ári. Hugsanlegt er, að standa megi svo að málum í upphafi, að endanleg stærð geymslurýmis verði ekki fastmótuð.

Ef sú yrði niðurstaðan, væri fengið sögulegt samræmi í meðhöndlun hermála, þegar bandalagið er í ríkisstjórn. Þá er ríkjandi ástand fryst, viðbúnaður hvorki minnkaður né aukinn. Síðan er unnt að efla viðbúnað, þegar bandalagið er utan stjórnar.

Þar með væri viðurkennt, að bandalagið mætti hafa hemlunaráhrif á varnarliðsframkvæmdir, þegar það er í ríkisstjórn, en hins vegar ekki áhrif til samdráttar eða hvað þá brottfarar bandaríska hersins. Það væri skynsamleg niðurstaða.

Athyglisvert er, að í ályktun bandalagsins voru engin stóryrði eða hótanir um stjórnarslit, hvorki vegna Helguvíkurummæla Ólafs Jóhannessonar né vegna ummæla Tómasar Árnasonar og Steingríms Hermannssonar um efnahagsaðgerðir áramóta.

Í ályktuninni er því andmælt, sem kallað er einhliða skerðing verðbóta, og lagt til, að tekið verði á öllum þáttum efnahagslífsins í senn. Þar með er engri loku fyrir það skotið, að skerðing verðbóta geti verið einn þessara þátta.

Þá er viðurkennt í ályktuninni, að framundan sé verðbólguskriða og það veruleg. Ennfremur, að nauðsynlegt sé að stemma stigu við henni. Af þessu má sjá, að bandalagið getur tæpast verið alveg lokað fyrir heilbrigðri skynsemi.

Af ályktuninni má ráða, að hugur forustu Alþýðubandalagsins staðnæmist einkum við hinar jákvæðu hhðar stjórnarsamstarfsins. Sú mærð gengur svo langt, að fullyrt er, að verðbólga hafi minnkað úr 60-65%. í 50% á þessu ári.

Einnig er prísuð full atvinna í landinu, árangur í félagsmálum og félagsmálapökkum, samningar á vinnumarkaði og vinnufriður í landinu, svo og hallalaus ríkisbúskapur. Það er eins og bandalagið vilji áfram vera í þessari ríkisstjórn.

Í ályktuninni er ekkí andmælt kenningum framsóknarmanna um 20% gengislækkunarþörf um áramót. Að öllu samanlögðu lítur því út fyrir, að bandalagið sé ekki fast fyrir, heldur muni fara í flæmingi undan aðgerðakröfum framsóknarmanna.

Óneitanlega. hefur hrikt í stjórnarsamstarfinu að undanförnu, er forustumenn Framsóknarflokksins hafa með vaxandi þunga krafizt efnda á loforðum um niðurtalningu verðbólgu. Svo kann að fara, að á þá verði hlustað í ríkisstjórninni!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Árbæjarstefna Alþýðubandalags

Greinar

A landsfundi Alþýðubandalagsins fyrir helgjna tjáði Lúðvík Jósepsson fundarmönnum, að gagnrýni á ríkjandi landbúnaðarstefnu væri rugl. Ennfremur sagði hann, að innlend orka til almennra nota og og stóriðju yrði uppurin eftir 40 ár.

Þessar yfirlýsingar eru hápunktur stjórnmálaferils hins frárarandi formanns Alþýðubandalagsins. Þær sýpa formann og flokk, sem “falla utan við efnahagslega hugsun”, svo að notuð séu orð Þrastar Ólafssonar á sama landsfundi.

Ekki fylgir sögunni, hvort Lúðvík tók ofan gleraugun, meðan hann fræddi fundarmenn um þessi atriði. Vel getur verið, að hann trúi því sjálfur, að stunda megi hér rányrkju og offramleiðslu á sjó og landi og geyma orkuna til síðara brúks.

Lúðvík er ekki einn í draumaheimi Alþýðubandalagsins. Á landsfundinum kvartaði Hrafnkell Jónsson frá Eskifirði um, að jafn íhaldssamt væri mál hins nýkjörna formanns flokksins, Svavars Gestssonar félagsmálaráðherra.

Hrafnkell óttaðist rányrkju og offjárfestingu í landbúnaði og sjávarútvegi, innflutningshöft og íhaldssemi Alþýðubandalagsins og mælti síðan með orkufrekum iðnaði. Líklega hefur Hrafnkell farið flokkavillt inn í forneskju Lúðvíks.

Enn sem komið er notum við ekki nema 10% af skynsamlega nýtilegri vatnsorku landsins og 5% af varmaorkunni. Sumt af þessu fer til stóriðju og annað til almennra nota. Samanlagt fáum við út úr þessu um 1000 megawött.

Heildarorkuþörf okkar er nú um 2000 megawött. Hún gæti hugsanlega verið komin upp í 3400 megawött um aldamótin. Þá þyrftum við jafnframt að vera búin að láta innlenda orkugjafa ryðja innfluttri olíu úr vegi.

Til þess að ná báðum þessum markmiðum í senn þyrftum við að nota um 25% af skynsamlega nýtilegri orku landsins. Við eigum því töluvert aflögu til síðari tíma brúks, eins og Lúðvík vill, eða til orkufreks iðnaðar, eins og flestir aðrir vilja.

Eftir aldamótin verður þjóðinni að mestu hætt að fjölga. Þá mun orkuþörf til almennra nota aukast mjög lítið, hvað sem Lúðvík segir. Ennfremur verða þá komnir til skjalanna nýir orkugjafar, sem munu veita vatni og varma harða keppni.

Í rauninni þurfum við að efna tvöfalt hraðar til orkufreks iðnaðar en við hðfum gert undanfarin ár. Við þurfum fyrirtæki á borð við saltver, sykurver, ylræktarver, pappírsver og málmver, svo að nokkur umtöluð dæmi séu nefnd.

Þessi þörf stafar ekki af því, að orkufrekur iðnaður sé allra meina bót. Hún stafar bara af því, að við þurfum fleiri stoðir undir lífskjör þjóðarinnar. Almenningur mun ekki una hagrýrnun, þótt Alþýðubandalagið vilji meiri landbúnað.

Við lifum í veröld samanburðar og við skugga landflótta. Í nágrannalöndunum eiga landar okkar kost á stuttum vinnutíma og þægilegri útborgun í eigin húsnæði, svo að tvö dæmi séu nefnd. Ísland neyðist til að kepparvið þessar freistingar.

Í Alþýðubandalagið hefur safnazt margt fólk utan efnahagslegrar hugsunar. Það heldur, að orkufrekur iðnaður felist í sálarlausum færiböndum. Það heldur, að hér á landi sé unnt að halda úti þjóðfélagi í líkingu við Árbæjarsafn.

Ef Lúðvík og Svavari tækist að reka þjóðina ýmist upp á heiðar eða af landi brott, er hætt við, að orkuvandinn leysist á þann hátt, að hér verði ekki mannskapur til að nýta orkuna, hvorki til 40 né 400 ára.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hálfur sigur í Madrid.

Greinar

Dagskrá öryggis- og samstarfsfundar Evrópu í Madrid felur í sér hálfan sigur Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Þrátt fyrir ákafa andstöðu Sovétríkjanna hefur náðst samkomulag um, að í sex vikur megi á fundinum ræða um brot á mannréttindum.

Fundurinn í Madrid er hinn þriðji í röðinni á eftir fundum í Helsinki og Belgrað. Umræðuefnið er hið svonefnda Helsinki-samkomulag austurs og vesturs um að draga úr spennu, einnig hugsanleg frekari útfærsla þess samkomulags.

Ráðamenn Sovétríkjanna vildu aðeins láta ræða um frekari útfærslu, en ekki um, hvernig hingað til hefur verið staðið við samkomulagið. Þeir ætluðust til, að litið væri á mannréttindakaflann sem dauðan bókstaf eða eins konar orðaleik.

Brezhnev og menn hans misreiknuðu Vesturlönd að þessu sinni. Þeir töldu sig geta þreytt fulltrúa vesturs á fundinum í Madrid. Þeir töldu sig geta sáð til missættis milli NATO-ríkja og hlutlausra ríkja og milli Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja.

Viðbrögðin við ótíðindunum frá Afganistan höfðu sýnt, að í ýmsum atriðum voru bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu ekki reiðubúnir til sömu hörku og forusturíkið. Þá vildu ráðamenn Frakklands og Vestur-Þýzkalands fara eigin leiðir.

Margvíslegir eiginhagsmunir liggja að baki þessa misræmis. Vestur-Þýzkaland hefur lagt mikið undir í hinni svonefndu “opnun til austurs”. Og ráðamenn Frakklands telja hagkvæmt að sýna sérstöðu gagnvart Atlantshafsbandalaginu.

Til viðbótar töldu Kremlverjar, að þeir gætu notfært sér samkomulagsáráttu embættismanna í utanríkisráðuneytum. Þeir töldu vestræna embættismenn ekki mega til þess hugsa, að ráðstefnan í Madrid færi út um þúfur.

Fyrir aðeins þremur vikum sá sovétstjórnin hina vestrænu sendimenn brotna á þingi Menningarstofnunar sameinuðu þjóðanna í Belgrað og undirrita hugmyndir harðstjóra þriðja heimsins um takmörkun frétta- og upplýsingafrelsis.

Ekkert slíkt gerðist að þessu sinni í Madrid. Vesturlönd héldu þar samstöðu sinni og misstu ekki móðinn, þótt komið væri fram á yztu nöf og fyrirsjáanlegt, að ráðstefnunni yrði aflýst. Þannig vannst hinn hálfi sigur.

Á síðustu stund féllust Kremlverjar á sænska málamiðlum, sem fól í sér að efndir fyrri loforða yrðu ræddar fyrir jól og ný loforð eftir jól. Það þýðir, að Vesturlönd hafa sex vikur til að fjalla um frammistöðu austantjaldsríkja.

Málþóf sendimanna Sovétríkjanna í Madrid reyndist þeim dýrt. Spennan við smíði dagskrárinnar olli því, að ráðstefnan varð fréttaefni dag eftir dag. Hún vakti miklu meiri athygli en orðið hefði, ef allt hefði verið með friði og spekt.

Enn einu sinni hefur gefizt tækifæri til að rifja upp, að Brezhnev og menn hans hafa þverbrotið hvert einasta mannréttindaákvæði Helsinki-samkomulagsins. Um þau brot verður nú fjallað í einstökum atriðum á næstu vikum í Madrid.

Á sínum tíma undirritaði Brezhnev sjálfur Helsinki-samkomulagið, þar á meðal ákvæði um aukið ferðafrelsi almennings yfir landamæri og um aukinn straum upplýsinga og skoðana yfir landamæri. Og nú á að meta árangurinn.

Fljótsagt er, að hann er neikvæður. Ofan á ofsóknir og brottfararbönn, truflun útvarps og takmörkun erlendra fjölmiðla, hefur sovétstjórnin lagt sérstaka áherzlu á að kvelja þá heimamenn, sem hafa borið saman orð og efndir Helsinki-samkomulagsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hún er enn ráðalaus.

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að stuðla að því, að nýja krónan um áramótin verði annað og meira en kostnaðarsöm sjónhverfing. Hún gefur bara í skyn, að eitthvað verði gert, en lofar ekki einu sinni upplýsingum fyrir jól.

Tómas Árnason viðskiptaráðherra hefur tekið að sér hlutverk Cato gamla. Hann notar hvert tækifæri til að hvetja samráðherra sína til dáða í efnahagsmálunum. Neyðaróp Tómasar enduróma svo í forustugreinum Tímans.

Áminningar þessar hafa engin sjáanleg áhrif haft á samstarfsmenn Tómasar. Ráðherrar Alþýðubandalagsins eru þögulir sem gröfin. Þeir tóku ekki einu sinni þátt í efnahagsumræðu alþingis á þriðjudaginn var.

Að sjálfsögðu minnir þetta ástand á kenninguna um, að Alþýðubandalagið sé að eðlisfari óábyrgur stjórnmálaflokkur. Það sé byggt upp sem stjórnarandstöðuflokkur, yfirboðaflokkur og draumóraflokkur. Á það reynir vafalítið nú.

Hin skýringin er þó ekki síður nærtæk, að málleysið stafi af nálægð Alþýðusambandsþings. Samkvæmt því ættu ráðamenn Alþýðubandalagsins að hafa nokkra ábyrgðartilfinningu, en ekki næga til að koma framan að almenningi.

Fyrir rúmum tveimur áratugum gekk þáverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson, fyrir Alþýðusambandsþing til að biðja um frið til að stokka upp efnahagsmálin. Hann hlaut ekki náð og stjórn hans varð að hrökklast frá.

Í ljósi þeirrar reynslu er skiljanlegt, að ríkisstjórnin sé treg til að bera hliðstæð mál undir það þing Alþýðusambandsins, sem nú fer í hönd. Í stjórnmálum er það ekki alltaf hreinskilnin, sem borgar sig bezt.

Tómas Árnason var spurður á þriðjudaginn, hvort ráðstafanir ríkisstjórnarinnar mundu koma í ljós fyrir jól. Þá sagðist hann ekkert vilja um dagsetningar segja. Þau ummæli sýna greinilega, hve óljóst þetta mál er í heild.

Á þingfundinum hafði Tómas kjark til að skýra frá óskalista sínum. Hann nefndi hömlur á verðlagsbótum launa, verðlagi vöru og þjónustu, búvöru og fiskjar, svo og á vöxtum. Hann sagði hins vegar ekki, hvernig gera skyldi.

Ekki er hægt að taka afstöðu til hugmynda Tómasar, af því að þær eru enn svo almenns eðlis. En þó verður hér og nú að fagna því, að einn ráðherra skuli þó reyna að halda vöku sinni við magnaða svefnþörf sumra hinna.

Þjóðartekjur hafa minnkað í tvö ár og munu minnka áfram á næsta ári. Jafnframt hefur hið opinbera aukið hlut sinn af hinni smækkuðu köku. Eðlileg afleiðing er, að lífskjör hafa rýrnað og munu halda áfram að rýrna.

Það er því auðvitað sýndarmennska, þegar aðilar vinnumarkaðsins semja um 11% kjarabætur umfram verðbólgu. Náttúrulögmál hins kalda raunveruleika segir, að þessar kjarabætur hverfi, – á skipulegan eða óskipulegan hátt.

Hlutverk trúðanna í þessum leik er svo í höndum Morgunblaðsins og stjórnarandstöðuhluta Sjálfstæðisflokksins. Þar er grátið fögrum krókódílstárum út af kjaraskerðingu á skeiði þessarar ríkisstjórnar og hinnar næstu þar á undan.

Alvarlegast er þó, að ekkert bendir til, að ríkisstjórnin hafi færzt nokkuð í átt til samkomulags um áramótaaðgerðir. Hún riðar því til falls um leið og hún kemur í veg fyrir, að þjóðin hafi gagn af afnámi tveggja núlla.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ostagerð í ólestri.

Greinar

Í ævintýrunum fékk bóndasonur osthleif í malinn, þegar hann fór að heiman að leita sér frægðar og frama eða að ná sér í prinsessu. Þessi ostur hefur vafalítið verið grunnostur Evrópumanna, hinn grjótharði Grana eða Parmigiano.

Þessi ostur hefur þá náttúru að renna ekki við matreiðslu. Hann tognar hvorki, né verður límkenndur, heldur varðveitir hann kornun sína. Því er hann fyrsti og síðasti eldhúsostur Evrópubúa, auk þess sem hann er gjarna stýfður úr hnefa.

Íslenzkir bændasynir á frægðarvegi verða að hafa önnur ráð en úr ævintýrunum, því að merkasti ostur heims fæst ekki hér á landi. Ísland er raunar eina landið í hinum vestræna heimi, sem ekki býður upp á þennan sjálfsagða ost.

Hér eru nær eingöngu framleiddir ostar, sem kalla má barnaosta eða osta fyrir þá, sem vilja ekki borða ost. Þetta eru áleggsostarnir, sem skornir eru með ostahníf. Þeir eru sumir ágætir og tegundum þeirra fjölgar ört.

Að baki einhæfni áleggsostanna liggur hin norræna ostahefð, sem er mun frumstæðari en ostahefð meginlands Evrópu. Hér er hver danski osturinn stældur á fætur öðrum, án þess að raunveruleg fjölbreytni ostaframboðs aukist að gagni.

Tilraunir íslenzka ostaiðnaðarins til að framleiða aðra osta hafa gengið hörmulega. Sjaldnast eru þeir eins og þeir eiga að vera. Stundum eyðileggst hver lögunin á fætur annarri, svo að viðkomandi ostur hverfur af markaði um skeið.

Gráðostur hefur ekki fengizt í landinu mánuðum saman vegna mistaka í framleiðslu. Þegar hann fékkst, var hann oft sæmilegur, en auðvitað bara einn. Erlendis fást margar tegundir gráðosta, bæði linar og harðar. Hvers eigum við að gjalda?

Port Salut ostur er jafnan ólíkur fyrirmynd sinni, þótt hann væri oft ágætur hér fyrr á árum. Upp á síð- kastið hefur hann ævinlega verið óhæfilega stækur, þótt menn hafi getað svælt hann í sig með bundið fyrir nefið.

Tilsitter er annar ostur, sem sjaldan hefur í seinni tíð verið eins og hann á að vera. Stundum er hann of kornaður og ævinlega of daufur. Þess á milli hverfur hann af markaði, sennilega vegna misheppnaðrar lögunar.

Enn ein harmsagan er Camembert, sem síðustu mánuðina og líklega árið hefur alveg hætt að heppnast. Þegar hann er orðinn svo þroskaður, að hann rennur um allt borð, er enn fastur kjarni í miðju. Hann er ekki eins og hann á að vera.

Íslenzkum ostagerðarmönnum virðist hafa farið aftur. Sé hinn frambærilegi hluti afurða þeirra skoðaður, sést, að fjölbreytnin fer minnkandi, þótt fjölgi þeim tegundum, sem skera má með hinni norsku uppfinningu, ostahnífnum.

Auðvitað er ekki hægt að ætlast til, að hér á landi séu framleiddir mörg hundruð mismunandi ostar eins og í Frakklandi. Það er raunar ekki hægt að ætlast til, að hér séu framleiddar fleiri tegundir en þær, sem seljast að marki.

Aðrar vestrænar þjóðir bæta sér upp sérhæfinguna í eigin framleiðslu með því að heimila innflutning osta. Hér ríkir hins vegar innflutningsbann og einokun í ostum. Til frekara öryggis var sjálfstæður framleiðandi svældur út um árið.

Íslenzkir ostaframleiðendur mættu vera hógværari, þegar þeir halda mjólkurdaga og hrósa sér af nýjum ostum. Staðreyndin er hin, að ostagerð er hér í lamasessi og stendur engan veginn undir innflutningsbanni, sem neytendur verða að sæta. Og prinsessum ná ostagerðarmenn engum!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Förum úr UNESCO.

Greinar

Þegar menn settust niður til að búa til nýtt þjóðabandalag á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar, vildu þeir stefna að nýrri öld mannréttinda í heiminum. Þeir bjuggu til mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, hátimbrað plagg.

Feður Sameinuðu þjóðanna sáu fyrir sér Þjóðabandalag millistríðsáranna, þar sem samningarefir ríkisstjórna tefldu skákir sínar án tillits til peðanna, sem færð voru eða fórnað var. Gamla bandalagið var klúbbur ríkisstjórna.

Sameinuðu þjóðirnar áttu hins vegar að rista dýpra. Þær áttu ekki aðeins að vera samfélag ríkisstjórna, heldur líka samfélag manna, verndari almennings. Þar átti ekki aðeins að fjalla um réttindi ríkisstjórna. Einnig réttindi fólks.

Í mannréttindayfirlýsingunni voru dregin saman hin göfugustu markmið á þessu sviði. Ennfremur voru búnar til sérstakar deildir eða stofnanir Sameinuðu þjóðanna, svo sem UNESCO, Menningarstofnunin, er líka hefur sína mannréttindaskrá.

Markmiðið var að vernda fólk hvert fyrir öðru og einkum þó fyrir stjórnvöldum. Til þess voru ákvæðin um skoðanafrelsi, trúfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi, upplýsingafrelsi, ferðafrelsi og frelsi frá lögreglu og fangelsum.

Vesturlönd voru á þessum tíma kjarni Sameinuðu þjóðanna. Þau bjuggu flest á gömlum grunni aldagamallar baráttu fyrir mannréttindum. Þau vildu gera nýjustu og beztu réttindaákvæði stjórnarskráa sinna að alþjóðlegri hefð.

Þetta hefur gengið upp og ofan í rúma þrjá áratugi, einkum ofan. Til skamms tíma var litið á mannréttindaskrárnar sem nauðsynlegan, en dauðan bókstaf, er frá upphafi var marklaus í Austur-Evrópu og síðan í þriðja heiminum.

Á þessum þremur áratugum hafa Vesturlönd smám saman lent í minnihluta í Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra. Nú er svo komið, að mikill meirihluti ríkisstjórna hafnar í reynd mannréttindum, eins og þau eru skilin á Vesturlöndum.

Í þessum löndum eru menn fangelsaðir, kvaldir og drepnir án dóms og laga. Fjölmiðlar eru málgögn ríkisstjórna. Stjórnmálaflokkur er aðeins einn á hverjum stað. Mútur og önnur spilling ráða ríkjum, enda mata valdamenn krókinn sem mest þeir mega.

Harðstjórar þriðja heimsins eru sammála harðstjórum Austur-Evrópu í, að allt of mikið sé gert úr mannréttindum. Þeir eru sérstaklega óánægðir með vestrænar fréttastofnanir og fréttamenn, sem lýsa harðstjórninni.

Þeir segja, að Vesturlönd séu að þröngva yfirburðum sínum í fjölmiðlun upp á þjóðir, sem hafi um eigin þróunarhagsmuni að hugsa. Þess vegna þurfi að setja reglur um réttindi þjóða til að verjast vestrænu menningar- og peningaofbeldi.

Nýjasta skref þessarar breytingar er nýliðið þing UNESCO í Belgrað, þar sem ákveðið var að koma á nýrri heimsskipan fjölmiðlunar. Sú skipan mun fela í sér eftirlit af hálfu ríkisstjórna, skrásetningu fréttamanna, bönn og ritskoðanir.

Allt siglir þetta undir glæstum fána frelsis fátækra þjóða. Að baki liggur sú ákvörðun harðstjóranna, að þeir einir skuli ákveða, hvað þjóðir þeirra fái að heyra, sjá og lesa og hvað Vesturlandabúar frétti úr þriðja heiminum.

Á þetta hafa samningaliprir fulltrúar Vesturlanda fallizt. Þar með er hrunin gamla hugsjónin um mannréttindi, réttindi hins einstaka manns gegn ofurvaldi umhverfisins. Þar með fer að verða tímabært að hætta þátttöku í UNESCO.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Pólland er í hættu.

Greinar

Kaþólska kirkjan er að ýmsu leyti raunsæ sem stjórnmálastofnun. Hún hefur einkar langa sögulega yfirsýn og horfir þar á ofan léttilega yfir landamæri. Þess vegna er ástæða til að taka mark á ótta pólsku kirkjunnar þessa daga.

Pólskir verkamenn hafa ekki eins langa söguskoðun, né jafn góða yfirsýn til annarra landa. Þeim er ekki eins vel kunnugt um aldagamla harmsögu Póllands gagnvart Rússlandi, né þekkja þeir eins vel til Ungverjalands og Tékkóslóvakíu.

Mikil hrifning greip um sig, þegar Ungverjar fyrst og síðan Tékkar reyndu að varpa af sér oki nýlenduveldisins og taka þróun mála sinna í eigin hendur. Á Vesturlöndum töluðu menn um vorið í Búdapest og vorið í Prag.

Menn sáu þá fyrir sér hláku í sovézka frostinu yfir Austur-Evrópu og héldu, að smám saman yrði komið á lýðræðislegu stjórnarfari. Þetta reyndust vera hillingar í bæði skiptin. Sovézkir skriðdrekar rufu draumórana.

Nú hafa pólskir verkamenn unnið tvo nýja sigra. Þeir hafa fengið hæstarétt til að staðfesta samkomulagið við ríkisstjórnina um, að hin nýju félög þeirra lytu ekki forsjá kommúnistaflokksins. Þar með var hrundið gagnstæðum dómi undirréttar.

Ennfremur hefur þeim tekizt að fara óáreittir þúsundum saman um götur Varsjár til að krefjast málfrelsis í landinu og frelsis landsins sjálfs. Hið síðara getur ekki þýtt annað en frelsi frá hinu sovézka nýlenduveldi.

Öldungaráðinu í Moskvu er ekki sama um þessa þróun. Það sér nú, að pólska valdakerfið hefur tilhneigingu til að forðast ofbeldi gagnvart almenningi og viðurkenna brot á hornsteini í hugmyndafræði kommúnismans.

Hvort tveggja hlýtur að stuðla að fjölgun þeirra radda í Kreml, sem segja, að yfirvöld í Póllandi ráði ekki við ástandið og Rauði herinn verði að koma til hjálpar. Kremlverjar telja sig hafa góða reynslu af slíkri aðstoð.

Hernaðarlegur máttur er hið eina, sem eftir stendur af krafti Sovétríkjanna. Hugmyndafræði þeirra er gjaldþrota og sömuleiðis hagkerfið. Sárafáar ríkisstjórnir og fámennir hópar telja fyrirmynda að leita austur í Moskvu.

Þeim mun meira ríghalda öldungarnir í hið eina, sem eftir er. Þeir muna, að þeim tókst með hervaldi að endurheimta tökin á Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu. Og þeir telja líklegt, að á sama hátt muni þeir ná Afganistan á sitt vald.

Síðasta landið er dæmi um, að Moskvumenn telja sig ekki bundna af fyrra samkomulagi um mörkun áhrifasvæða eftir síðari heimsstyrjöldina. Þeir leita alls staðar að veikleikum, möguleikum til að færa út kvíarnar.

Vesturlandabúum er hollt að muna, að öldungarnir í Kreml taka ekki hið minnsta mark á orðum sínum eða undirskriftum. Í Madrid er þessa dagana verið að minna á, að þeir hafa margrofið hvert einasta ákvæði mannréttindakafla Helsinki-sáttmálans.

Hugmyndafræðilega og hagfræðilega berskjaldaðir sveipa þessir öldruðu glæpamenn um sig þeirri skikkju, sem ein er eftir, hinu hreina og klára ofbeldi, leyniþjónustunni og Rauða hernum.

Pólska kirkjan sér þetta. Hún hefur varað verkamenn við þeim árangri, sem þeir nú síðast hafa náð. Hugur okkar Vesturlandamanna stendur með þeim óskiptur, en blandinn ótta, því að þetta er aðeins hugur sjónarvotta, sem virðast máttlausir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Nýkrónan er neikvæð.

Greinar

Við höfum löngum horft öfundar- og aðdáunaraugum til Frakka og Finna, sem á sínum tíma skáru núll aftan af gjaldmiðlum sínum og breyttu slæmum efnahag í góðan. Í augum okkar hafa þessar aðgerðir jafnan minnt á töfrasprota ævintýranna.

Í rauninni hafði niðurskurður núlla sem slíkur engin efnisleg áhrif á hag Frakka og Finna. Niðurskurðurinn var fyrst og fremst táknrænn. Hann hafði sálræn áhrif á fólk, fékk það til að trúa, að töfrasprota væri slegið á þjóðarhag.

Að baki gjaldmiðilsbreytinga Frakka og Finna lágu umfangsmiklar, róttækar og harðskeyttar aðgerðir stjórnvalda á breiðu sviði fjármála og efnahagsmála. Í þeim aðgerðum fólst lækningin, en ekki í sýndarmennsku núllafækkunar.

Alþingi, nokkrar ríkisstjórnir og ráðamenn seðlamála bera ábyrgð á nýkrónu þeirri, sem hér á að taka við um áramót. Allir þessir aðilar hafa væntanlega reiknað með, að í fyllingu tímans mundi eitthvað fleira fylgja með nýkrónunni.

Þegar nýkrónan var ákveðin, kom að vísu ekki beint fram, hvað skyldi gera um leið og hún yrði framkvæmd. Ábyrgðarmenn hafa sennilega reiknað með, að væntanleg ríkisstjórn yrði að bíta á jaxlinn á svipaðan hátt og Viðreisn gerði.

Þeir tímar koma jafnan í sögu þjóða, að ráðamenn verða að líta upp úr kökuboðum og niðurtalningum og byrja að höggva á hefðbundna hnúta. Á slíkum tímum gildir ekki lögmál óvinsælda, heldur fylgja þjóðir þeim, sem þora.

Viðreisnarstjórnin varð vinsæl í upphafi ferils síns, einmitt þegar hún hafði komið í verk öllu því, sem óvinsælast var. Hún vann sigur í næstu kosningum. En síðan féll hún í dá, svo sem títt er um þá, sem hvíla á lárviðarsveigum.

Núverandi ríkisstjórn varð vinsæl í upphafi ferils síns, sennilega af því að hún þorði að verða til. Enn eimir eftir af þeim vinsældum, hvað sem síðar verður, ef þjóðin kemst að því, að ríkisstjórnin ætli sér ekki fleiri afrek.

Því miður bendir ekki hið minnsta til, að ríkisstjórnin hyggist bregðast við hinum sögulegu aðstæðum komandi áramóta, þegar stórtæk gjaldmiðilsbreyting fer saman við óvenju harkalegan verðbólgukipp. Kall tímans virðist fara hjá.

Ekki hvílir þó öll ríkisstjórnin í dái á lárviðarsveigum þess afreks að verða til. Tómas Árnason viðskiptaráð- herra hefur hvað eftir annað opinberlega minnt samráðherra sína á, að örlagastundin er að nálgast óþægilega hratt.

Tillögur Tómasar og raunar Steingríms Hermannsonar líka eru þó ekki slíkar, að finna megi skyldleika með ráðagerðum Frakka og Finna á sínum tíma. Tillögunum er rétt og myndrænt lýst sem tilfærslu jólanna fram yfir áramót.

Frestun vísitölu um einn mánuð og stórfengleg aukning niðurgreiðsla í einn mánuð eiga ekkert skylt við varanlegar ráðstafanir. Og varla er hægt að segja, að hugmyndirnar auki svigrúm þeirra ráðamanna, sem vilja bara vera í dái.

Sennilegra er, að tilfærsla jólanna miði að þeirri sjónhverfingu, að verðbólga ársins 1980 mælist nokkru minni en verðbólga ársins 1979. Svo standa ráðamenn í janúar með nýkrónu í höndum, jafn ráðalausir og fyrr.

Við slíkar aðstæður er sjónhverfing núllafækkunar til ills eins. Hún veldur truflunum og kostnaði í upphafi og síðan gífurlegum vonbrigðum, þegar þjóðin áttar sig á, að töfrasproti var ekki til, né heldur neitt ævintýri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið