Fara undan í flæmingi.

Greinar

Örlítið friðvænlegra ætti að verða í ríkisstjórninni eftir landsfund Alþýðubandalagsins. Þar voru ágreiningsefni þess og Framsóknarflokksins ekki sett fram á svo eindreginn hátt, að hindra muni svigrúm til samkomulags.

Í Helguvíkurmálinu neyddist bandalagið til að taka tillit til sjónarmiða af Suðurnesjum, sem Oddbergur Eiríksson lýsti á landsfundinum. Í ályktun fundarins er viðurkennt, að mengunarhætta kalli á smíði olíugeyma á nýjum stað.

Alþýðubandalagið er samt óánægt með Helguvík og einkum þó með fyrirhugaða stækkun geymslurýmis. Ályktunin er nokkuð óljós, en bendir þó til, að bandalagið vilji helzt hafa olíugeymana inni á núverandi vallarsvæði.

Í þessu máli horfir bandalagið mjög til Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra, sem hefur opinberlega lofað, að Helguvíkurmálið verði tekið upp í ríkisstjórninni. Þar með hefur hann þó ekki lofað neinum neitunarvaldi í málinu.

Ólafur Jóhannesson segir svo, að Helguvíkurmálið sé sitt mál og að framkvæmdir muni hefjast á næsta ári. Hugsanlegt er, að standa megi svo að málum í upphafi, að endanleg stærð geymslurýmis verði ekki fastmótuð.

Ef sú yrði niðurstaðan, væri fengið sögulegt samræmi í meðhöndlun hermála, þegar bandalagið er í ríkisstjórn. Þá er ríkjandi ástand fryst, viðbúnaður hvorki minnkaður né aukinn. Síðan er unnt að efla viðbúnað, þegar bandalagið er utan stjórnar.

Þar með væri viðurkennt, að bandalagið mætti hafa hemlunaráhrif á varnarliðsframkvæmdir, þegar það er í ríkisstjórn, en hins vegar ekki áhrif til samdráttar eða hvað þá brottfarar bandaríska hersins. Það væri skynsamleg niðurstaða.

Athyglisvert er, að í ályktun bandalagsins voru engin stóryrði eða hótanir um stjórnarslit, hvorki vegna Helguvíkurummæla Ólafs Jóhannessonar né vegna ummæla Tómasar Árnasonar og Steingríms Hermannssonar um efnahagsaðgerðir áramóta.

Í ályktuninni er því andmælt, sem kallað er einhliða skerðing verðbóta, og lagt til, að tekið verði á öllum þáttum efnahagslífsins í senn. Þar með er engri loku fyrir það skotið, að skerðing verðbóta geti verið einn þessara þátta.

Þá er viðurkennt í ályktuninni, að framundan sé verðbólguskriða og það veruleg. Ennfremur, að nauðsynlegt sé að stemma stigu við henni. Af þessu má sjá, að bandalagið getur tæpast verið alveg lokað fyrir heilbrigðri skynsemi.

Af ályktuninni má ráða, að hugur forustu Alþýðubandalagsins staðnæmist einkum við hinar jákvæðu hhðar stjórnarsamstarfsins. Sú mærð gengur svo langt, að fullyrt er, að verðbólga hafi minnkað úr 60-65%. í 50% á þessu ári.

Einnig er prísuð full atvinna í landinu, árangur í félagsmálum og félagsmálapökkum, samningar á vinnumarkaði og vinnufriður í landinu, svo og hallalaus ríkisbúskapur. Það er eins og bandalagið vilji áfram vera í þessari ríkisstjórn.

Í ályktuninni er ekkí andmælt kenningum framsóknarmanna um 20% gengislækkunarþörf um áramót. Að öllu samanlögðu lítur því út fyrir, að bandalagið sé ekki fast fyrir, heldur muni fara í flæmingi undan aðgerðakröfum framsóknarmanna.

Óneitanlega. hefur hrikt í stjórnarsamstarfinu að undanförnu, er forustumenn Framsóknarflokksins hafa með vaxandi þunga krafizt efnda á loforðum um niðurtalningu verðbólgu. Svo kann að fara, að á þá verði hlustað í ríkisstjórninni!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið