Sanngjörn er tillaga Hjörleifs Guttormssonar iðnaðarráðherra um afnám aðlögunargjalds á innfluttar iðnaðarvörur í þremur áföngum á tveimur árum í stað algers afnáms nú um áramótin, svo sem viðskiptasamtökum Evrópu var lofað.
Tillagan felur í sér, að gjaldið lækki úr 3% í 2% um áramótin, síðan í 1% um áramótin þar á eftir og hverfi loks um áramótin 1982-1983. Með þessu fengi íslenzkur iðnaður aukið svigrúm til að mæta frjálsri, erlendri samkeppni.
Inn á við er tillagan sanngjörn. Íslenzkur iðnaður getur ekki breytzt á nokkrum árum úr verndaðri gróðurhúsajurt í harðgera útilífsplöntu. Samt hefur hann að verulegu leyti verið svikinn um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðuna.
Við höfum um langt skeið verið aðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu og að viðskiptasamningi við Efnahagsbandalag Evrópu. Við gerðum þetta bæði til að afla okkur markaða og til að koma atvinnuvegum okkar í markaðshæft ástand.
Auðvitað gátum við ekki rekið iðnað okkar eins og einhvern landbúnaðarræfil í skjóli innflutningsbanns og tollmúra. Við höfðum landbúnaðinn á herðum sjávarútvegsins og gátum engan veginn hlaðið iðnaðinum til viðbótar á þær herðar.
Við sömdum við evrópsku samtökin um tíu ára aðlögunartíma til að venja íslenzkan iðnað í áföngum við erlenda samkeppni. En svo notuðum við ekki þennan tíma nógu vel. Við létum undir höfuð leggjast að veita iðnaðinum jafnrétti.
Enn þarf iðnaðurinn að greiða tolla af ýmsum aðföngum, sem erlendur samkeppnisiðnaður þarf ekki að greiða. Iðnaðurinn hefur ekki sama aðgang að fjármagni og lánakjörum. Hann hefur ekki sama aðgang að vísindum og þróunaraðstoð.
Við erum svo gróflega úti að aka í þessum efnum, að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir hlutfallslega meiri hækkun framlaga til landbúnaðar en iðnaðar. Það er eins og stefnt sé að koma þjóðinni í sveit og á sveit.
Í kjölfar margra mistaka af þessu tagi þarf engan að undra, þótt örlitla framlengingu þurfi á ýmissi vernd, sem iðnaðurinn nýtur. Það breytir ekki markmiðinu, að hann verði nógu harðger til að þola norðangarra nútíma samkeppni.
Aðlögunargjaldið var og er í sjálfu sér hallærislausn. Í rauninni væri vitlegra að koma í framkvæmd ýmsum aðgerðum til að jafna aðstöðu íslenzkra atvinnuvega innbyrðis og gagnvart útlöndum. Þetta hefur rækilega verið trassað.
Við getum tekið tolla af aðföngum iðnaðarins sem dæmi. Alþingi fól ríkisstjórninni fyrir hálfu öðru ári að afnema þá. Þetta þýddi, að greina þurfti milli iðnaðarþarfa og annarra þarfa í 230 númerum í tollskránni. Iðnaðarráðuneytið lauk þeirri vinnu fyrir tveimur mánuðum.
Síðan hefur fjármálaráðuneytið legið á málinu, auðvitað vegna þess, að efnd loforðsins jafngildir eins milljarðs rýrnun ríkistekna. Í framhjáhlaupi má svo minna á, að tímabundin framlenging aðlögunargjalds gefur tekjur á móti.
Hversu gallað sem aðlögunargjaldið er, þá er tillagan um hægt fremur en snöggt andlát þess sett fram á þann hátt, að engin leið er fyrir Fríverzlunarsamtökin og Efnahagsbandalagið að hafna henni, þótt þau hafi varað við henni.
Tómas Árnason viðskiptaráðherra er óþarflega hræddur við ráðamenn samtakanna. Þeim fer eins og bankastjóranum, sem ætlaði að fá víxilinn borgaðan upp í fyrstu lotu, en sætti sig svo með góðu við framlengingu, af því að hver afborgun var þó einn þriðji .
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið