Pólland er í hættu.

Greinar

Kaþólska kirkjan er að ýmsu leyti raunsæ sem stjórnmálastofnun. Hún hefur einkar langa sögulega yfirsýn og horfir þar á ofan léttilega yfir landamæri. Þess vegna er ástæða til að taka mark á ótta pólsku kirkjunnar þessa daga.

Pólskir verkamenn hafa ekki eins langa söguskoðun, né jafn góða yfirsýn til annarra landa. Þeim er ekki eins vel kunnugt um aldagamla harmsögu Póllands gagnvart Rússlandi, né þekkja þeir eins vel til Ungverjalands og Tékkóslóvakíu.

Mikil hrifning greip um sig, þegar Ungverjar fyrst og síðan Tékkar reyndu að varpa af sér oki nýlenduveldisins og taka þróun mála sinna í eigin hendur. Á Vesturlöndum töluðu menn um vorið í Búdapest og vorið í Prag.

Menn sáu þá fyrir sér hláku í sovézka frostinu yfir Austur-Evrópu og héldu, að smám saman yrði komið á lýðræðislegu stjórnarfari. Þetta reyndust vera hillingar í bæði skiptin. Sovézkir skriðdrekar rufu draumórana.

Nú hafa pólskir verkamenn unnið tvo nýja sigra. Þeir hafa fengið hæstarétt til að staðfesta samkomulagið við ríkisstjórnina um, að hin nýju félög þeirra lytu ekki forsjá kommúnistaflokksins. Þar með var hrundið gagnstæðum dómi undirréttar.

Ennfremur hefur þeim tekizt að fara óáreittir þúsundum saman um götur Varsjár til að krefjast málfrelsis í landinu og frelsis landsins sjálfs. Hið síðara getur ekki þýtt annað en frelsi frá hinu sovézka nýlenduveldi.

Öldungaráðinu í Moskvu er ekki sama um þessa þróun. Það sér nú, að pólska valdakerfið hefur tilhneigingu til að forðast ofbeldi gagnvart almenningi og viðurkenna brot á hornsteini í hugmyndafræði kommúnismans.

Hvort tveggja hlýtur að stuðla að fjölgun þeirra radda í Kreml, sem segja, að yfirvöld í Póllandi ráði ekki við ástandið og Rauði herinn verði að koma til hjálpar. Kremlverjar telja sig hafa góða reynslu af slíkri aðstoð.

Hernaðarlegur máttur er hið eina, sem eftir stendur af krafti Sovétríkjanna. Hugmyndafræði þeirra er gjaldþrota og sömuleiðis hagkerfið. Sárafáar ríkisstjórnir og fámennir hópar telja fyrirmynda að leita austur í Moskvu.

Þeim mun meira ríghalda öldungarnir í hið eina, sem eftir er. Þeir muna, að þeim tókst með hervaldi að endurheimta tökin á Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu. Og þeir telja líklegt, að á sama hátt muni þeir ná Afganistan á sitt vald.

Síðasta landið er dæmi um, að Moskvumenn telja sig ekki bundna af fyrra samkomulagi um mörkun áhrifasvæða eftir síðari heimsstyrjöldina. Þeir leita alls staðar að veikleikum, möguleikum til að færa út kvíarnar.

Vesturlandabúum er hollt að muna, að öldungarnir í Kreml taka ekki hið minnsta mark á orðum sínum eða undirskriftum. Í Madrid er þessa dagana verið að minna á, að þeir hafa margrofið hvert einasta ákvæði mannréttindakafla Helsinki-sáttmálans.

Hugmyndafræðilega og hagfræðilega berskjaldaðir sveipa þessir öldruðu glæpamenn um sig þeirri skikkju, sem ein er eftir, hinu hreina og klára ofbeldi, leyniþjónustunni og Rauða hernum.

Pólska kirkjan sér þetta. Hún hefur varað verkamenn við þeim árangri, sem þeir nú síðast hafa náð. Hugur okkar Vesturlandamanna stendur með þeim óskiptur, en blandinn ótta, því að þetta er aðeins hugur sjónarvotta, sem virðast máttlausir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið