Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að stuðla að því, að nýja krónan um áramótin verði annað og meira en kostnaðarsöm sjónhverfing. Hún gefur bara í skyn, að eitthvað verði gert, en lofar ekki einu sinni upplýsingum fyrir jól.
Tómas Árnason viðskiptaráðherra hefur tekið að sér hlutverk Cato gamla. Hann notar hvert tækifæri til að hvetja samráðherra sína til dáða í efnahagsmálunum. Neyðaróp Tómasar enduróma svo í forustugreinum Tímans.
Áminningar þessar hafa engin sjáanleg áhrif haft á samstarfsmenn Tómasar. Ráðherrar Alþýðubandalagsins eru þögulir sem gröfin. Þeir tóku ekki einu sinni þátt í efnahagsumræðu alþingis á þriðjudaginn var.
Að sjálfsögðu minnir þetta ástand á kenninguna um, að Alþýðubandalagið sé að eðlisfari óábyrgur stjórnmálaflokkur. Það sé byggt upp sem stjórnarandstöðuflokkur, yfirboðaflokkur og draumóraflokkur. Á það reynir vafalítið nú.
Hin skýringin er þó ekki síður nærtæk, að málleysið stafi af nálægð Alþýðusambandsþings. Samkvæmt því ættu ráðamenn Alþýðubandalagsins að hafa nokkra ábyrgðartilfinningu, en ekki næga til að koma framan að almenningi.
Fyrir rúmum tveimur áratugum gekk þáverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson, fyrir Alþýðusambandsþing til að biðja um frið til að stokka upp efnahagsmálin. Hann hlaut ekki náð og stjórn hans varð að hrökklast frá.
Í ljósi þeirrar reynslu er skiljanlegt, að ríkisstjórnin sé treg til að bera hliðstæð mál undir það þing Alþýðusambandsins, sem nú fer í hönd. Í stjórnmálum er það ekki alltaf hreinskilnin, sem borgar sig bezt.
Tómas Árnason var spurður á þriðjudaginn, hvort ráðstafanir ríkisstjórnarinnar mundu koma í ljós fyrir jól. Þá sagðist hann ekkert vilja um dagsetningar segja. Þau ummæli sýna greinilega, hve óljóst þetta mál er í heild.
Á þingfundinum hafði Tómas kjark til að skýra frá óskalista sínum. Hann nefndi hömlur á verðlagsbótum launa, verðlagi vöru og þjónustu, búvöru og fiskjar, svo og á vöxtum. Hann sagði hins vegar ekki, hvernig gera skyldi.
Ekki er hægt að taka afstöðu til hugmynda Tómasar, af því að þær eru enn svo almenns eðlis. En þó verður hér og nú að fagna því, að einn ráðherra skuli þó reyna að halda vöku sinni við magnaða svefnþörf sumra hinna.
Þjóðartekjur hafa minnkað í tvö ár og munu minnka áfram á næsta ári. Jafnframt hefur hið opinbera aukið hlut sinn af hinni smækkuðu köku. Eðlileg afleiðing er, að lífskjör hafa rýrnað og munu halda áfram að rýrna.
Það er því auðvitað sýndarmennska, þegar aðilar vinnumarkaðsins semja um 11% kjarabætur umfram verðbólgu. Náttúrulögmál hins kalda raunveruleika segir, að þessar kjarabætur hverfi, – á skipulegan eða óskipulegan hátt.
Hlutverk trúðanna í þessum leik er svo í höndum Morgunblaðsins og stjórnarandstöðuhluta Sjálfstæðisflokksins. Þar er grátið fögrum krókódílstárum út af kjaraskerðingu á skeiði þessarar ríkisstjórnar og hinnar næstu þar á undan.
Alvarlegast er þó, að ekkert bendir til, að ríkisstjórnin hafi færzt nokkuð í átt til samkomulags um áramótaaðgerðir. Hún riðar því til falls um leið og hún kemur í veg fyrir, að þjóðin hafi gagn af afnámi tveggja núlla.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið