Slagur við sósíalista

Punktar

Píratar eiga í hörkuslag við Sósíalista um athygli á félagsmiðlum. Og þeir skafa af okkur fylgi með beinskeyttri stefnu í mörgum svipuðum málum. Frambjóðendur okkar þurfa að taka upp einstök mál okkar, eitt í einu, og skýra þau hvössum orðum. Frá alþingi hafa dólgarnir vanizt því að píratar gefi ekki millimetra eftir. Flestir flokkar eru næsta mállausir, en píratar geta kveðið þá í kútinn. Verið frökk eins og sósíalistar og látið sjást eitthvað nýtt á degi hverjum. Einkum um húsnæðisleysi fátækra og skort þeirra á borgaralaunum.

Borgarlína er úrelt

Punktar

Þegar tugmilljarða borgarlína verður tilbúin, er hún þegar orðin úrelt. Senn fara að koma sjálfkeyrandi skutlur, sem verða alls staðar á lausu. Þú kallar að morgni í skutlu og hún ekur þér í vinnuna. Flestar skutlur verða litlar, fyrir einn mann, en hluti verður stærri. Þú notar líka skutlur til að senda börn í skóla eða í aukatíma eða íþróttir. Þú notar skutlur á skemmtistaði og af þeim. Skutlurnar ganga fyrir rafmagni og hlaða sig sjálfar. Þú getur verið í áskrift eða keypt einstakar ferðir og hvort tveggja verður á færi fátækra. Skutlurnar eru léttar og menga lítið. Vonandi frestast borgarlínan, unz menn sjá, að hún mun verða úrelt.

Frá dyrum til dyra
Hafandi lesið þessar ýmsu athugasemdir um borgarlínu og rafskutlur, hallast ég að skutlunum. Þær flytja þig frá dyrum að dyrum. Annars þyrftir þú að ganga frá dyrum í hverfinu til að komast á strætóstopp, bíða þar eftir borgarlínu og fara með henni að öðru strætóstoppi, til að bíða eftir strætó og loks að ganga að hinm langþráðu dyrum. Rafskutlur eru miklu virkari og öflugri ferðamáti.

Strætó mengar og skemmir

Punktar

Strætó er þungur og þarf oft að stanza. Eyðir um 35 lítrum á hundrað kílómetrum að sögn framleiðenda, sem þora ekki að ljúga. Hjálmar telur hann hins vegar eyða 20 lítrum, sem er fjarri lagi. Ekki eru til tölur um meðalfjölda fólks í hverjum vagni, en mér sýnist það geta verið fimm eða færri. Mengun af völdum strætó er því miklu meiri en af völdum einkabíla. Færu þessir fimm farþegar hver fyrir sig í sínum einkabíl væri heildarmengun mun minni. Þar að auki skemmir þungur strætó göturnar meira en fimm einkabílar. Strætó er ekki samkeppnishæfur, ef eftirspurn gerir ekki kleifa aukna ferðatíðni, til dæmis á fimm mínútna fresti.

Þeir ljúga þig fullan

Punktar

Ríkisútvarpið endurtekur ósómann frá alþingiskosningum. Býður kosningapróf, sem á að sýna þá flokka, sem næst standa þínum skoðunum. Samt hefur komið í ljós, að gerðir flokka eru allt aðrar og jafnvel þveröfugar við yfirlýstar skoðanir þeirra. Sjáið til dæmis Vinstri græn. Þar er 180 gráða munur milli stefnuskrár flokksins fyrir kosningar og gerða Katrínar Jakobsdóttur eftir kosningar. RÚV er að gefa í skyn, að heilindi ríki í pólitík. Það er mesta rugl, sem ég hef heyrt um langt árabil. Alls engin heilindi eru í íslenzkri pólitík. Sé einhver flokkur nálægt þér í kosningaprófi RÚV, hefur Ríkisútvarpinu tekizt að ljúga þig fullan.

Misöflug kosningamál

Punktar

Hef ekki trú á, að auðvelt sé að vinna borgarstjórnarkosningar á fjarlægum draumi um borgarlínu. Það verða bara hraðferðirnar eins og í gamla daga, nema næst eiga þær að kosta tugmilljarða. Á tímamótum í orkugjöfum farartækja er erfitt að spá um, hverjir vilja ganga eða hjóla eða nota hraðferð strætó. Við vitum ekki, hvaða nýjungar muni seljast. Borgin er að undirbúa þrefalda umferð, bíla, hjóla og gangandi fólks. Hvar eiga vélknúin reiðhjól að vera, rafhjólastólar, raftvíhjól og önnur tæki, sem sjást hér á ferli? Auðveldara er að vinna kosningar á nærtækum rökum um, hvernig verði í snarhasti komið upp ódýrum smáíbúðum fyrir unga fólkið.

Lærið af sárri reynslu

Punktar

Senn kemur sá tími, að fjölmiðlar freistast til að búa til töflur, þar sem fram kemur mikið eða lítið samræmi skoðana þinna og stjórnmálaflokkanna eins og gert var í síðustu alþingiskosningum. Slíkir útreikningar hafa ekkert veruleikagildi. Ekkert samband er milli skoðana stjórnmálaflokks og skoðana þess meirihluta, sem flokkurinn tekur þátt í. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sósíaldemókratíska stefnu en öfgafrjálshyggju í verki. Vinstri græn og fleiri flokkar hafa svipað ósamræmi. Sá, sem reiknar út, hvaða flokkur sé næstur sér, er dæmdur til verða fyrir sárum vonbrigðum. Látið ekki plata ykkur eins og sum ykkar gerðu í kosningunum í fyrra.

Blóðuga byltingin

Punktar

Kenningar Karl Marx um sósíalisma hafa yfirleitt ekki gengið upp, svo sem ótal dæmi sanna, nema menn vilji telja Kína vera flaggskip marxismans. Rússland er það ekki og ekki heldur Kúba eða Venezúela. Hins vegar hafa fullkomlega staðizt kenningar Marx um þróun og dauða kapítalismans. Merkisberi hans eru Bandaríkin og Bretland siglir í kjölfarið. Meginland Evrópu er hins vegar sósíaldemókratískt. Kapítalisminn þróast yfir í fáokun risafyrirtækja, sem skáka ríkisheildum. Því fylgir gelding stéttarfélaga og stórfelld mismunun þjóðfélagshópa. Ísland hefur verið á þessari braut í fjóra áratugi. Kapítalisminn deyr í blóðugri byltingu.

Á undan sinni samtíð

Punktar

Ég hef löngum mælt með, að hæfni hesta verði meira metin eftir mældum tölum. Að svo miklu leyti sem það er gerlegt. Landbúnaðarháskólinn er farinn að feta þessa braut með því að hljóðmæla takt gangtegunda. Þannig er hægt að skilja hreinan takt frá óhreinum, blönduðum takti. Þá er væntanlega skammt undan, að farið verði að mæla hristing í gangtegundum. Hestur er mjúkur, ef hnakkhornið sveiflast lítið upp og niður á brokki og til hliðanna á skeiði. Þannig er hægt að skilja hast hreindýrahopp frá þægilegum, mjúkum, hreinum gangi. Þessum hugmyndum  var fálega tekið á sínum tíma. En nú eru vísindin og háskólinn um síðir að koma á minn vagn.

Dauðaferli Sjálfstæðisflokksins

Punktar

Þegar ég var ungur, var Ólafur Björnsson hagfræðingur Sjálfstæðisflokksins. Síðan komu Jónas Haralz og Eyjólfur Konráð Jónsson. Voru allir frekar mildir og lausir við æsinginn, sem fór að grafa um sig með valdatöku Davíðs Oddssonar. Davíð og eftirmenn hans hafa siglt út í öfgafrjálshyggju með vaxandi stéttaskiptingu milli stóreignamanna og almennings. Með Bjarna Benediktssyni yngra er flokkurinn orðinn að bófaflokki í þágu stóreignamanna. Sjálfur er hann fjárglæframaður með margs konar milljarða-afskriftir á bakinu. Með honum er bófaflokkurinn hættur að vera stjórntækur. Aðrir flokkar geta ekki hugsað sér pólitískt samstarf við bófana.

Bófarnir og hækjurnar

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er hreini bófaflokkurinn í pólitík landsins. Gætir hagsmuna bófa og hefur fjárglæframenn að leiðtogum í lands- og borgarmálum. Aðrir flokkar eru margir markaðir glæpum vegna samstarfs við bófana um ár og áratugi. Ákafast gildir það um Framsókn, sem nú býður fram í tvennu lagi vegna pólitískra hagsmuna fjárglæframanns í Miðflokknum. Einnig Samfylkinguna, Viðreisn og að lokum Vinstri græn, sem nú stýra hægri stjórn. Flestir nýju smáflokkarnir eru þjóðrembuflokkar, þar á meðal Flokkur fólksins. Píratar eru eini gróni flokkurinn, sem er hreinn af þátttöku í þjófræðinu. Einn nýju flokkanna, Sósíalistar, er á svipuðu róli.

Við þurfum þjóðarsátt

Punktar

Þurfum þjóðarsátt um ýmsa velferð, sem meirihluti þjóðarinnar óskar eftir. Sátt um ókeypis skóla og ókeypis heilsuþjónustu. Raunar er það ekkert annað en ósk um norræna og vesturevrópska velferð. Þurfum líka sátt um lágmarkslaun, sem nægja fyrir húsnæði og daglegum þörfum. Þurfum sátt um stóra innspýtingu í byggingu ódýrra smáíbúða. Sjálfstæðisflokkurinn er gráðugi bófaflokkurinn, sem stendur í vegi slíkrar þjóðarsáttar. Framsókn, Miðflokkur og Vinstri græn hafa reynzt viljug til að styðja bófana í þessu. Við þurfum að koma bófaflokknum niður fyrir 20% fylgi, því að með núverandi 25% fylgi stjórnar hann í raun öllum ríkisþráðum.

Alþýðan tekur völdin

Punktar

Meðan Svandís Svavarsdóttir heilsuráðherra níðist á ljósmæðrum, hafa stærstu verkalýðsfélögin náð samkomulagi um kjarabaráttu sína. Þau hafa meirihluta í Alþýðusambandinu og munu væntanlega sparka forseta þess, þræli atvinnurekenda. Augljós eru mikil umskipti, þar sem forstjórar í velmegunarblöðru hafa fengið 20% hækkun hið minnsta. Alþýðan þarf 400.000 króna lágmarkslaun. Og stytta þarf launabilið, þannig að forstjórar hafi ekki meira en fimmföld lágmarkslaun. Það er eina leiðin til að minnka lífskjarabilið í landinu. Eftir langvinnan svefn Gylfa Arnbjörnssonar forseta er alþýða landsins sjálf að búa sig undir að taka völdin.

Ráðherra fíflar sig

Punktar

Einkennilegt hlýtur að vera að spyrja ráðherra ítrekað sömu spurningarinnar án þess að hann svari henni. Ásmundur Einar Daðason er svo sem ekki mikill bógur. Samt er skrítið, að hann geti ekki ungað út úr sér svari um, hvort ráðuneyti hans telji embættismann hafa farið ítrekað út fyrir verksvið sitt. Vitað er, að það var niðurstaða ráðuneytisins og vitað, að ráðherra þarf að viðurkenna það. Hann er hins vegar svo sannfærður um nauðsyn leyndar um mál embættismannsins, að hann gerir sig að fífli fyrir framan nefnd alþingis. Ekki er síður athyglisvert, að þingmenn bófaflokksins í nefndinni skuli ekki geta talað um fyrir ráðherranum.

Atómslys í Norður-Kóreu

Punktar

Kim Jong-un sneri utanríkispólitík Norður-Kóreu skyndilega við. Í stað stöðugra hótana um atómstríð, sagðist hann í gær mundu loka tilraunastöð kjarnorkuvopna landsins í Punggye-ri. Þar að auki býður hann Suður-Kóreu og Bandaríkjunum að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með framkvæmdinni. Ástæðan er ekki friðarást Kims, heldur sprakk tilraunastöðin á svipaðan hátt og stöðin í Chernobyl árið 1986. Öryggismál í Punggye-ri eru talin hafa verið enn frumstæðari en þau voru í Chernobyl. Fjöldi borgara í Norður-Kóreu hefur orðið fyrir geislun og sennilega líka í Kína. Kim þarf aðstoð heimsins og veit af því. Því brosir hann við öllum.

Hádegisferðalög höfundar

Punktar

Hef ferð á hringtorginu við suðurenda Fiskislóðar. Þar eru alltaf stæði við Mat og Drykk. Fer austur Mýrargötu og finn kannski stæði 200 metrum frá Kopar. Annars keyri ég til hægri inn Tryggvagötu og finn kannski stæði við Svörtu perluna, 100 metrum frá Fiskfélaginu og Matarkjallaranum. Áður gat ég keyrt götuna áfram austur að Hverfisgötu. Vegna útbelgdra steypukassa í austurþýzkum stíl keyri ég ýmsa króka um Vonarstræti, svo upp Hverfisgötu. Finn kannski stæði við Arnarhól, hjá Essensia. Annars verð ég vegna einstefnu að fara ýmsa króka í Þingholtum til að finna bílastæði við Óðinsgötu, þar sem eru 100 metrar að Sjávargrillinu. Enn er borgin næstum bílfær milli helztu stofnana.