Svört framtíð Bjartrar

Punktar

„Við í Bjartri framtíð viljum umfram allt vernda miðhálendið og hafa þjóðgarð þar,“ sagði Björt Ólafsdóttir rétt fyrir kosningar. Nú er Björt orðin ráðherra og leggur til að reisa orkuver við Skrokköldu á miðju hálendinu. Aldrei hefur verið neitt að marka Björtu. Eins og aðrir í Bjartri framtíð segir hún það, sem hentar hverju sinni. Mikið rask mun verða við Skrokköldu, byggingar, skurðir og lón. Björt framtíð lagði í kosningabaráttunni mikla áherzlu á andstöðu sína við þessa tillögu. Minnir á Óttar Proppé, sem orðinn er heilbrigðisráðherra og gerir allt öfugt við það, sem hann lofaði. Þetta er alveg siðlaust lið, svört framtíð.

Hæstiréttur tapar enn

Punktar

Enn verður Hæstiréttur sér til skammar í óbeit sinni á frjálsri fjölmiðlun. Enn hefur Mannréttindadómstóll Evrópu snúið við forneskju Hæstaréttar í dómum gegn fréttaflutningi. Dómstóllinn segir Hæstarétt hafa brotið gegn tjáningarfrelsi Steingríms Sævars Ólafssonar, þáverandi ritstjóra vefsins Pressunnar. Umfjöllun Pressunnar um Ægi Geirdal hafi verið vönduð. Áður hafði Erla Hlynsdóttir í þrígang lagt Hæstarétt fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu út af fréttaflutningi hennar. Nú er fyllilega kominn tími til, að Hæstiréttur láti af óbeit sinni á fréttum og fréttafólki. Hann hætti að láta hlæja að sér úti um alla Evrópu.

Wilders var stöðvaður

Punktar

Þótt Geert Wilders hafi unnið á í þingkosningum Hollands, er aukningin mun minni en búizt var við. Andúðin á múslimum hefur dvínað og Wilders hefur innan við 15% atkvæða. Íhaldsflokkur forsætisráðherrans Mark Rutte tapaði fylgi, en er samt langstærsti þingflokkurinn. Snarpar deilur Rutte og Erdoğan Tyrkjasoldáns hafa aukið fylgi Rutte síðustu vikuna. Sú virðist vera staðan víðast í Vestur-Evrópu um þessar mundir. Múslimahatarar treysta stöðuna í pólitíska mynztrinu, en ná ekki fylgi til að komast til beinna áhrifa. Le Pen til dæmis getur fengið flest atkvæði í fyrstu umferð í Frakklandi, en tapar svo í seinni umferð forsetakosninganna.

Róið samfélagið

Punktar

Stjórnarflokkarnir vilja ekki nota hærri auðlindarentu og lægri niðurgreiðslur ríkisskulda til að róa samfélagið. Sumir finna sárt fyrir því að hafa verið skildir eftir í góðærinu. Það er unga fólkið, sem nær ekki að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er sumt gamla fólkið, sem hefur verið svikið um aðild að góðærinu. Það eru þeir, sem samkvæmt orðbragði ráðherra hafa valið sér að verða veikir eða verða örkumla af slysförum. Þeir eru taldir alvarlegri svindlarar en einkavinir ríkistjórnarinnar. Auðvitað á að nota auðlindarentu og ferðatekjur til að jafna til í þjóðfélaginu og róa samfélagið, sem fanatískir ráðherrar reyna að kljúfa.

Loksins lífræn vottun

Punktar

Verið er að taka upp lífræna vottun í landbúnaði. Þar með lýkur langvinnu stríði bændasamtakanna gegn fjölþjóðlegri vottun. Um tíma var farið framhjá lífrænni vottun með því að taka upp séríslenzka umhverfisvottun. Ekkert mark var tekið á henni erlendis. Hin nýja vottun kemur frá Evrópusambandinu eins og flest annað, sem er til bóta. Framtakssamir bændur geta hugsað sér að reyna að selja afurðir sínar erlendis. Auðvitað þarf fyrst að fara eftir reglum um grindargólf og rými húsdýra, útivist og lífrænt fóður, og svo framvegis. Þeir, sem uppfylla kröfur um lífræna ræktun, geta þá fengið vöruna stimplaða með merki, sem eykur sölu og hækkar verð.

Engin gengislækkun

Punktar

Engeyingum og Má tókst ekki að fella krónuna um helgina. Gengið raskaðist lítið og er núna það sama og það var fyrir mánuði. Kvótagreifar misstu af sælustund ríkisstjórnarinnar og geta ekki lækkað kaup sjómanna. Ekki einu sinni Gamma græðir á kukli Engeyinga. Hún er búin að setja upp nokkur útibú í Evrópu til að verða fyrst til að grípa gæs gengislækkunar. Svo kom bara engin lækkun, engin gæs. Nú eru góð ráð dýr. Framundan er frekara ris krónunnar vegna 70% aukningar ferðafólks. Grátandi kvótagreifar fara að hágráta. Það er alveg makalaust, hvað greifar geta grátið sárt, ef ekki fer allt að óskum og ekki er hægt að lækka laun.

Illugi endurreistur

Punktar

Illugi Gunnarsson hefur verið ráðinn til að gera tillögur um framtíðarskipan á stjórn peningamála, hvorki meira né minna. Þið munið hann Illuga. Var á framfæri góðviljaðs verktaka og gat launað greiðann, þegar hann varð menntamálaráðherra. Upp úr því hrökklaðist hann úr embætti, hvarf af sjónarsviðinu og gleymdist. Þá sagði flokksbróðir hans, Páll Magnússon, að verk Illuga hafi verið „kristaltær pólitísk spilling“. Nú er hann ráðinn til að hafa umsjón með Seðlabankanum og peningaveltu hans. Smám saman verður liðið kringum ríkisstjórn Engeyinga hlaðið gaurum, sem eru á sama siðferðisplani og Bjarni Ben og Benedikt Jóhannsson.

Seðlabankakukl

Punktar

Seðlabankinn er miður gáfulega rekinn. Hefur ítrekað keypt gjaldeyri í vonlausu stríði gegn hækkun krónunnar. Seðlabankar geta keypt gjaldeyri til að hamla gegn árstíðabundnum sveiflum. Það kostar hins vegar mikið, svo sem í vaxtatapi. Því gjaldeyrir er vaxtalaus og jafnvel með neikvæða vexti. Nú er krónan á löngu ferðalagi upp í evru á innan við 100 krónur, jafnvel 70 krónur eins og í den. Nú dugar því ekkert kukl í Seðlabankanum. Láta ber krónuna fljóta eðlilega. Í kukli fær pilsfaldafólk fyrirfram vitneskju, eins og Sambandið í gamla daga. Þess vegna er Gamma komin með útibú út um Evrópu til að græða á tapi Seðlabankans. Og okkar allra.

Erdoğan ögrar Evrópu

Punktar

Recep Tayyip Erdoğan, einræðisherra Tyrklands, reynir að æsa landflótta múslima í Evrópu. Notar komandi kosningar um aukið einræði í Tyrklandi til að senda ráðherra sína á útifundi múslima í Evrópu. Þeir hafa kosningarétt í Tyrklandi. Þessu hefur verið fálega tekið. Þýzk lönd hafa mörg hver bannað þessa fundi, svo og Austurríki og Sviss. Holland hefur meira að segja flutt tyrkneskan ráðherra burt með lögregluvaldi. Erdoğan sakar þessi ríki um nazisma. Ástæða bannsins er ótti hollenzkra stjórnvalda við uppþot, sem muni auka fylgi flokks Geert Wilders múslimahatara. Slagorð hans er núna: Múslimar, farið heim til Erdoğans ykkar.

Fréttafundur Engeyinga

Punktar

Fundur Engeyjarættarinnar í dag boðaði ýmsar aðgerðir, sem ráðherrar segja draga úr gengishækkun krónunnar. Mikilvægasta aðgerðin er að bæta stöðu kvótagreifa, sem hafa grátið mikið að undanförnu. Græða færri milljarða á ári en þeir höfðu vænzt. Þá hefur ríkisstjórn Engeyinga ákveðið að gera svikurum í skattaskjóli á aflandseyjum tilboð, sem þeir geta ekki hafnað. Þeir fá sérstök verðlaun fyrir að skipta út myntinni í stað þess að fá sektir fyrir skattsvik. Sumt er ágætt í breytingum Engeyinga, en flestar eru auðvitað sniðnar að hagsmunum ættarinnar. En Engeyingar segjast reikna með að molar falli af borðum sínum til aumingjanna.

Ísland er óljúft

Punktar

Útgjöld ríkisins í ellilífeyri eru hér bara 2% af landsframleiðslu. Eru frá 5,3% í Hollandi upp í 8% í Danmörku. Samanlögð útgjöld vegna lífeyris, frá ríkinu og lífeyrissjóðum, eru hér á landi 5,3%. En um 10% í öllum samanburðarlöndunum; Hollandi, Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. Wilhelm Wessman hótelstjóri bendir á þetta á fésbók sinni. Þetta eru sláandi upplýsingar, til dæmis fyrir þá, sem trúa línuritum nýfrjálshyggjunnar. Fara saman við hliðstæðar upplýsingar um of lítinn þátt ríkisins í heilsukostnaði. Saman við algert getuleysi ríkisstjórnar nýfrjálshyggju í húsnæðismálum unga fólksins. Ísland er ekki ljúfur staður.

Snúum við einkavinavæðingu

Punktar

Engin ástæða er til að einkavinavæða ríkishlutafélög eða breyta ríkisstofnunum í ríkishlutafélög. Í nánast öllum tilvikum hefur það leitt til lakari þjónustu, til dæmis hjá Isavia og Strætó. Þjónusta hefur yfirleitt verið skert í báðum tilvikum. Nú eru uppi kröfur um einkavinavæðingu Isavia. Tilgangurinn er að auka tekjur forstjóragengis og framleiða arð undir pilsfaldinum. Þið munið væntanlega eftir ótal fréttum af yfirgangi forstjóra Isavia og Strætó á síðustu árum. Brýnt er, að innviðir samfélagsins séu í opinberum rekstri: Flugvellir og vegir, orkuöflun og orkudreifing, heilsa og velferð. Íslenzka ríkið, það erum við.

Kúgaði sjónvarpskarlinn

Punktar

Skoðanafasismi gengur svo langt á Íslandi, að fólk krefst þess hópum saman að gagnrýnendur verði reknir úr vinnunni. Jafnvel sjónvarpsfólk heimtar, að Hildur Lilliendahl verði rekin úr vinnunni hjá Reykjavíkurborg fyrir hraustleg ummæli um vanda kvenna. Ætti sjónvarpsfólk þó að vita, að þetta er fasistakrafa. Í ríki lýðræðis á fólk að hafa leyfi til hraustlegra skoðana, án þess að þurfa að sæta atvinnuofsóknum. Hildur sagði, að sér væri: „skapi næst að kveikja í hárinu á mér fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhommann með alla sjónvarpsþættina.“ Ég sé ekki betur en að þessi orð hæfi mjög vel vandanum, sem hún talar um.

Hér er engin sátt

Punktar

Einstaklega heimska og drukkna menn þarf til að halda, að Salek samkomulag henti íslenzkri alþýðu. Salek dugir bara fyrir samfélög, sem eru í sómasamlegri innri sátt um, hver velferð og launamunur skuli vera. Salek hentar Svíum og heldur ró á þeirra vinnumarkaði. Hér er engin sænsk velferð. Hér borgar fólk extra fyrir að verða veikt, slasast eða verða gamalt. Hér er engin sátt um, hver velferðin skuli vera, enda er hún miklu lakari en í Svíþjóð. Fyrst þarf að koma hér sænsk velferð með 10-11% hlutfalli heilsu af þjóðarbúinu. Og fyrst þarf að koma höndum yfir árlegt tugmilljarða þýfi þeirra, sem hafa aðstöðu til hækkunar í hafi.

Við byltum bófunum

Punktar

Jafnvel Kristján Loftsson er hættur að veiða hval. Næst gerir hann skipin út í hvalaskoðun. Ferðamenn færa okkur helminginn af öllum gjaldeyristekjum. Fiskur verður bara úthrópaður eins og prjónaskapur. Smíði hótela nægir ekki í aukningu ferðamanna. Útleiga stakra herbergja úti í bæ, AirB&B, verður að tvöfaldast á þessu ári. Hafði þó tvöfaldazt í fyrra og gaf þá 6-8 milljarða króna. Í sumar verða hundruð að sofa á bekkjum eða í undirgöngum. Á þessu ári verður aukning ferðamanna 50% og önnur 50% árið 2018. Þá getum við öll unnið í ferðamennsku. Þá getum við bylt bófunum og náð tvöföldu kaupi með því að sameinast í verkfalli.