Vatnsskarð

Milli Bólstaðarhlíðar í Svartárdal og Víðimýrar í Skagafirði.

Þetta var allar aldir og er enn höfuðleiðin milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Enn má sjá minjar um póstleiðina vestan lækjar við Víðimýri. Hún lá beint milli Arnarstapa og Víðimýrar. 1238: Lið Sturlu Sighvatssonar eltir lið Kolbeins unga Arnórssonar austur yfir Vatnsskarð. 1253: Heinrekur biskup og Þorgils skarði ríða saman á Vatnsskarð. Sama ár ríða Þorgils og Gissur Þorvaldsson saman á skarðið. 1254: Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fara austur yfir skarðið til að herja á Odd Þórarinsson Svínfelling. 1255: Þorgils skarði ríður Vatnsskarð vestur í Dali eftir Þverárfund.

Förum frá Bólstaðarhlíð upp fyrir þjóðveg 1 og til suðausturs og síðan austurs upp hlíðina ofan þjóðvegar undir Botnastaðafjalli og Gilshálsi. Austan undir hálsinum er þverleið til Laxárdals og að Skarðsá í Sæmundarhlíð. En við förum yfir þjóðveginn og austur að Vatnshlíðarvatni sunnanverðu. Frá horni Vatnshlíðarvatns förum við enn yfir þjóðveginn og til norðausturs ofan við Sæmundará og neðan við þjóðveginn. Áfram beina stefnu yfir þjóðveginn að Arnarstapa og þaðan austur og niður að Víðimýri .

16,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Valadalur, Laxárdalur, Reykjaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort