Vellir

Frá Víðimýri yfir Héraðsvötn að Flugumýri.

Á Sturlungaöld féllu Héraðsvötn í tveimur kvíslum, sem báðar hétu Jökulsá, austari og vestari. Sú vestri var þar, sem nú er Húseyjarkvísl. Yfir hana var farið nálægt Húsey. Farið var um Vallalaug á Völlunum milli kvísla, þar sem ferðamenn hvíldust og fengu sér bað. Hún var þungamiðja héraðsins, mitt á milli Víðimýrar og Flugumýrar. Menn tóku krók þangað suður eftir milli vaða á Héraðsvötnum.

Á Völlum hélt Kolbeinn Tumason fund 1201 og lét kjósa Guðmund Arason til biskups. Víðimýri og Flugumýri voru vel varðir staðir, með virki á Flugumýri og kastala á Víðimýri. 19. apríl 1246 riðu Brandur Kolbeinsson og Ásbirningar yfir Héraðsvötn nálægt gömlu brúnni frá Víðimýri til Djúpadals til orrustu við Þórð kakala Sighvatsson. Var þar háður Haugsnesbardagi. Á Víðimýri gistu höfðingjar Sturlungu. Órækja Snorrason 1235 og Sturla Þórðarson á leið til Flugmýrarveizlu 1253 og aftur 1254. Þorgils skarði Böðvarsson fór yfir Héraðsvötn hjá Löngumýri árið 1255 í aðför að Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni og Hrafni Oddssyni. Það vað er um tveim kílómetrum norðan brúar á Héraðsvötnum, nálægt gömlu brúnni. Tveir Hestvígshamrar eru í Skagafirði, annar við Víðimýri og hinn við Flugumýri. Ekki er ljóst, við hvorn er átt í Sturlungu. Þar funduðu Skagfirðingar 1245 til að velja sér Brand Kolbeinsson að leiðtoga. Árið 1253 tóku Skagfirðingar þar við Gissuri Þorvaldssyni sem leiðtoga og þar tóku þeir 1254 við Oddi Þórarinssyni, umboðsmanni Gissurar.

Byrjum við Víðimýri. Förum austur um Hestvígshamar vestari og síðan yfir Húseyjarkvísl á Póstvaði að Húsey. Síðan suðaustur um Vallholt að Vallalaug, þar sem áð var að fornu. Með þjóðvegi 753 norður að þjóðvegi 1 og áfram norður gamla þjóðveginn að gömlu brúnni yfir Héraðsvötn. Yfir brúna og að lokum norðaustur um Róðugrund og Hestvígshamar austari að Flugumýri. Hér er lýst gömlum aðstæðum. Gamla vaðið hefur líklega verið nálægt gömlu brúnni. Nú á tímum eru Héraðsvötn riðin á vaði andspænis Kúskerpi.

10,7 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Sæmundarhlíð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga, Björn Gunnlaugsson