Vindárdalur

Frá Framnesi í Blönduhlíð um Vindárdal og Hvammsdal til Hvamms í Hjaltadal.

Marteinn biskup Einarsson flúði þessa leið 1548 frá Jóni biskupi Arasyni og Steini presti, sem gætti hans á Hólum í Hjaltadal. Marteinn náðist í tjaldi ofarlega í Vindárdal, þar sem heita Tjaldeyrar. Um flóttann orti Jón Arason: “Biskup Marteinn brá sitt tal, / burt hljóp hann frá Steini, / vasaði fram á Vindárdal, / varð honum það að meini.”

Förum frá Framnesi austur að eyðibýlinu Axlarhaga og þaðan norðaustur í Vindárdal. Dalurinn er í krókum, en höfuðátt hans er austur. Við höldum okkar norðan Vindár. Innan við grjóthrunið Hólana eru sléttar Tjaldeyrar og fyrir ofan þær eru Bungur. Þar förum við bratt upp úr dalnum. Þegar upp er komið, í 1040 metra hæð, beygjum við spöl til suðurs til að komast fyrir kletta. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

17,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins