Skagafjörður

Suðurárdalur

Frá Hálfdánartungum í Norðurárdal um Seljárdal og Suðurárdal að Reykjum í Hjaltadal.

Förum frá Hálfdánartungum norðaustur Hörgárdal að mynni Seljárdals. Síðan norðnorðvestur Seljárdal og norður á fjallið í 960 metra hæð. Þvínæst norður Suðurárdal alla leið niður í Hjaltadal. Að lokum norðnorðvestur Hjaltadal að Reykjum.

27,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Strompaleið

Frá Hofsafréttarleið að Ingólfsskála að Hofsrafréttarleið til Laugafells í norðurjaðri Sprengisands.

Þetta er jeppafær slóð, styttri en Hofsafréttarleiðin, sem krækir fyrir Orravatnsrústir.

Byrjum við Hofsafréttarleið fyrir sunnan Rauðhóla nokkru austan við Ingólfsskála. Fyrir norðan Rauðhóla er leið til Gimbrafells. Við förum til austurs og mætum þeirri leið sunnan Gimbrafells. Áfram höldum við norðaustur og komum á krossgötur sunnan Orravatns.

14,4 km
Skagafjörður

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Strjúgsskarð

Frá Strjúgsstöðum í Langadal um Strjúgsskarð að Refsstöðum í Laxárdal.

F rá Strjúgsstöðum og Móbergi teygja sig götur upp í skarðið, sem er greiðfært, þegar brekkurnar eru að baki. Í miðju skarðinu eru Haugar tveir, þar sem sagðir eru heygðir landnámsmennirnir Þorbjörn strjúgur á Strjúgsstöðum og Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum eftir að hafa barizt um beit í skarðinu.

Förum frá Strjúgsstöðum norðaustur Strjúgsskarð og síðan um Kárahlíð að Refsstöðum.

6,2 km
Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Laxárdalur, Litla-Vatnsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stafnsvötn

Frá Gili í Vesturárdal í Skagafirði um Stafnsvötn að leiðinni milli Ingólfsskála og Laugafells.

Vesturárdalur er fagur dalur, einkum innri hluti hans.

Förum frá Gili suður dalinn. Þar sem dalurinn þrengist við eyðibýlið Þorljótsstaði, þar sem nú er fjallakofi. Þaðan liggur sneiðingur austur á Giljamúla og síðan slóð suðaustur eftir fjallinu, yfir Stafnsvatnahæð, sunnan við Stafnsvötn, hjá Sjónarhól í 690 metra hæð og síðan að Reiðhól í 700 metra hæð. Skömmu síðar komum við að leið vestur í Ingólfsskála norðan Hofsjökuls.

36,3 km
Skagafjörður

Skálar:
Þorljótsstaðir: N65 12.468 W18 55.695.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt, Eyvindarstaðaheiði.
Nálægar leiðir: Giljamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skíðadalsökull

Frá Klængshóli í Svarfaðardal um Skíðadalsjökul á Hólamannaveg.

Löng leið milli byggða í Svarfaðardal og Skagafirði.

Förum frá Klængshóli suður og suðvestur Skíðadal norðvestan við Almenningsfjall og suðaustan við Stafnstungnafjall, suðvestur um Austurtungur inn í dalbotn. Þaðan förum við suðsuðvestur upp í Skíðadalsjökul milli Leiðarhnjúka. Síðan til vesturs fyrir norðan Eiríkshnjúk og Péturshnjúk um Tungnahryggsjökul og yfir Tungnahrygg að klettaveggnum í vestri. Þar erum við komin á Hólamannaveg.

22,6 km
Eyfjörður, Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Skálar:
Tungnahryggur: N65 41.340 W18 50.820.

Nálægar leiðir: Hólamannavegur, Tungnahryggur, Heiðinnamannadalur, Holárdalur, Þverárjökull.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skiptabakki

Frá vegi 752 í Skagafirði suður að fjallaskálanum Skiptabakka á Eyvindarstaðaheiði.

Förum af þjóðvegi 752 sunnan við Breið inn á jeppaslóða til suðurs. Förum slóðann suður að fjallaskálanum Skiptabakka á Eyvindarstaðaheiði.

28,5 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Krisstjánsson
Heimild: Jón Garðar Snæland

Skarðsá

Frá Skarðsá í Sæmundarhlíð að Syðra-Skörðugili. +

Förum norðaustur yfir hálsinn milli Skarðsár og Syðra-Skörðugils.

3,3 km
Skagafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ingimar Ingimarsson

Siglufjarðarskarð

Frá Siglufirði til Hrauns í Fljótum.

Siglufjarðarskarð var þjóðleiðin til Siglufjarðar, þangað til Strákagöng voru sprengd. Fyrir daga bílsins var leiðin talin hættuleg að vetrarlagi. Sjálfu skarðinu er lýst þannig í þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd.” Kvað svo rammt að slysum, að Þorleifur Skaftason prófastur í Múla var fenginn til að vígja skarðið. Það dugði ekki til. Svellbunkar voru í skarðinu og urðu menn stundum að skríða yfir þá. Árið 1940 var skarðið sprengt niður um fjórtán metra. Síðar var þar lagður bílvegur. Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Sunnan við Siglufjarðarskarð er Afglapaskarð, sem sumir fóru, ef þeir villtust af leið.

Förum frá Siglufirði gamla bílveginn upp dalinn og síðan brattar brekkur beint upp í Siglufjarðarskarð í 600 metra hæð. Vestan skarðsins förum við fyrst suður fjallshlíðina og síðan til vesturs utan í Breiðafjalli og áfram niður brekkurnar vestan fjallsins, þar sem við komum að Hrauni.

10,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Jeppafært

Nálægar leiðir: Dalaleið, Efrafjall, Sandskarð, Hólsskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sandskarð

Frá Siglufirði um Hólsskarð og Sandskarð til Ólafsfjarðar.

Einnig kallað Botnaleið. Vel fær hestum og vinsæl til útreiða.

Förum frá Siglufirði inn í Fjarðarbotn og síðan suðaustur og upp í Hólsskarð í 620 metra hæð. Þaðan til suðurs þvert yfir efstu drög Ámárdals, vestan við Ámárhyrnu og austan við Grænuvallahnjúk. Til suðausturs þvert yfir drög Héðinsfjarðar upp í Sandskarð í 640 metra hæð. Þaðan austur og niður í Skeggjabrekkudal, fram dalinn og að Ólafsfirði.

22,5 km
Skagafjörður-Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Efrafjall, Dalaleið, Siglufjarðarskarð, Fiskihryggur, Hestskarð eystra, Hólsskarð, Héðinsfjarðará, Drangar, Fossabrekkur, Múlakolla.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Reykjaskarð

Frá Skarðsá í Sæmundarhlíð um Reykjaskarð að Þverárdal í Laxárdal.

Í Grettissögu segir frá er Grettir og Illugi bróðir hans eru á leið í útlegðina í Drangey: „Er þá sneru þeir til Skagafjarðar og fóru norður Vatnsskarð og svo til Reykjaskarðs og svo Sæmundarhlíð og svo á Langholt. Þeir komu til Glaumbæjar að áliðnum degi.”

Förum frá Skarðsá vestsuðvestur Reykjaskarð meðfram Skarðsá norðan við Grísafell. Norðaustan við Vatnshlíðarhnjúk beygjum við suðvestur um Vestra-Króksskarð og framhjá Flosaskarði í Kálfárdal. Síðan suður í Kálfárdal rétt norðan leiðar um Stóra-Vatnsskarð. Frá Kálfárdal förum við vestnorðvestur meðfram Kálfá að Ógöngum. Þar förum við norðvestur og upp í Kotshnjúksbrekkur og síðan vestur og niður brekkurnar að eyðibýlinu Þverárdal.

14,3 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Sæmundarhlíð, Vatnsskarð, Laxárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Refshali

Frá Skagaströnd um Refshala til Gauksstaða á Skaga í Skagafirði.

Grímur Gíslason lýsir leiðinni svo í Árbók FÍ 2007. “Greiðfær leið er austur dalinn [Hrafndal] að norðanverðu. Er Tungufell til hægri, er upp úr dalnum er komið, en Refshali til vinstri norðar á fjallinu. Er farið austur mlli þessara tveggja fella, og er þá komið á Fossdal, sem gengur norður með Refshala að austan. Er farið norður Fossdal um stutta leið, en beygt til austurs norðan tjarna, sem þar eru skammt undan. Þá er skammt að upptökum Fossár og niður með henni, ef fara skal til bæja austan á Skaganum.”

Förum frá Skagaströnd austnorðaustur Hrafndal sunnan við Spákonufell og norðan við Illviðrahnjúk. Síðan til norðurs milli Tungufells að austanverðu og Hrútafjalls að vestanverðu. Til norðnorðausturs milli Katlafjalls að vestanverðu og Refshala að austanverðu, í Fjallabaksdal. Þaðan vestur yfir Fossdalsá. Við förum áfram norðaustur um Fossbungu og Urriðatjörn, austan Hraunvatns og sunnan Reyðartjarnar. Við förum áfram austur með Fossá að þjóðvegi 745 norðan við Gauksstaði.

21,5 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Bjarnarfell, Ölvesvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ranghali

Frá Flugumýrarhvammi í Blönduhlíð um Ranghala og Hvammsdal að Hvammi í Hjaltadal.

Þessi leið er ekki fær hestum. Ranghali er brattur og grýttur, en þurr árfarvegur og hættulaus.

Byrjum við þjóðveg 76 hjá Flugumýrarhvammi. Förum austur að Flugumýrarhvammi og síðan austur í mynni Hvammsdals og þaðan norðaustur Ranghala. Þar komumst við krókótta og þrönga leið milli Hjaltastaðafjalls að norðvestanverðu og Tungufjalls að suðvestanverðu. Úr Ranghala förum við norðaustur í Austurdal og síðan norðaustur dalinn inn að botni. Þar förum við norður og upp úr Austurdal á heiðina í 1040 metra hæð. Þar komum við á aðra leið upp úr Vindárdal. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

17,4 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Suðurárdalur, Ullarvötn, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Ólafsfjarðarskarð

Frá Þverá í Ólafsfirði um Ólafsfjarðarskarð til Holtsdals í Fljótum.

Ein af aðalleiðum landpóstanna frá Akureyri um Ólafsfjörð til Siglufjarðar. Úr skarðinu má fara norður í Sandskarð og Hólsskarð til Siglufjarðar.

Byrjum við þjóðveg 82 hjá Skarðsá í Ólafsfirði. Förum vestur Kvíabrekkudal og síðan norðvestur Skarðsdal og loks norður í Ólafsfjarðarskarð í 740 metra hæð. Svo förum við norðvestur í Ólafsfjarðardal og vestur dalinn niður í Holtsdal í Fljótum.

10,2 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Heiðarmýrar, Grímubrekkur, Húngilsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Nýjabæjarfjall

Frá Ábæ í Austurdal til Torfufells í Eyjafirði.

Við Ábæ í Austurdal var eina þrautavaðið á Jökulsá eystri í Skagafirði. Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís. Nýjabæjarfjall er langur og hár fjallvegur um nakið grjót, grófur undir hóf og sjaldan farinn. Nýjabæjarfjalls er getið í Sturlungu og það var farið allar aldir síðan. Austdælingar fóru hér sínar kaupstaðarferðir. Lestarferðir um Nýjabæjarfjall lögðust ekki niður fyrr en 1908. Nú á dögum er þessi leið nánast aldrei farin. Hún er leiðinlega grýtt og seinfarin á fjallinu og verst austast. Við Ábæ er kennd Ábæjar-Skotta, einn frægasti draugur landsins, oft í för með öðrum draugi, Þorgeirsbola.

Förum frá Ábæ suður Austurdal, norðaustan við Eystri-Jökulsá, framhjá eyðibýlunum Tinnárseli og Nýjabæ. Þar sem Hvítá rennur að austan í Jökulsá förum við til austurs upp brattan og þunnan Hvítármúla milli Ytri- og Fremri-Hvítár. Erum þá komin upp á Nýjabæjarfjall, sem er afar breitt fjall á mörkum þess að vera jökull. Leiðin liggur norður af austri, hæst í 1020 metrum norðan fjallaskálans Litlakots. Síðan sunnan við Galtárhnjúk og niður Galtártungur milli Galtár og draga Torfufellsár, austur yfir Torfufellsá og niður með henni allan Torfufellsdal að Villingadal eða Torfufelli.

36,0 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Skálar:
Hildarsel: N65 15.344 W18 44.131.
Litlakot: N65 15.410 W18 30.415.

Nálægar leiðir: Vatnahjalli, Laugafell, Elliði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort og Árbækur Ferðafélagsins

Mælifellsdalur

Frá skálanum við Galtará um Mælifellsdal að Hvíteyrum í Skagafirði.

Þessa leið hafa menn farið allar aldir ofan af Kili niður í Skagafjörð. Hér fóru Gissur jarl og Kolbeinn ungi 19. ágúst 1238 með níuhundruð manns og fjölda hesta til móts við Skagfirðinga, þegar þeir gerðu atlögu að Sturlu og Sighvati í Örlygsstaðabardaga, sem lýst er í Sturlungu. Mælifellsdalur er djúpur og þröngur og nær langt vestur undir drög Svartárdals. Fylgt er jeppaslóð alla leiðina frá Galtará til Mælifells. Sjálfur Mælifellshnjúkur er með hæstu fjöllum á svæðinu, 1138 metra hár og sést um óravegu í góðu skyggni.

Förum frá fjallaskálanum við Galtará í 500 metra hæð og fylgjum vegi norðaustur yfir Þingmannaháls að Bugaskála við suðvesturhorn Aðalmannsvatns. Þaðan förum við vestan vatnsins til norðurs og síðan til austurs við norðurenda þess. Vegurinn beygir fljótlega til norðurs og upp hlíðar Haukagilsheiðar austan við Stafnsgil og allt norður fyrir Heiðarhaus, þar sem við náum 600 metra hæð. Síðan niður brekkurnar í Mælifellsdal og út eftir dalnum til norðurs, yfir brú og að þjóðvegi 751 um Mælifellsá. Fylgjum þeim vegi að þjóðvegi 752 inn Skagafjörð. Förum þann veg hundrað metra að réttinni við Hvíteyrar.

38,1 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Galtará: N65 11.809 W19 31.474.
Bugaskáli: N65 13.183 W19 25.981.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Haugakvísl.
Nálægar leiðir: Stífluvegur, Fossaleið, Hraungarður, Gilhagadalur, Kiðaskarð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson