Skaftafellssýslur

Mælifellssandur

Frá skálanum í Hólaskjóli að skálanum í Hvanngili.

Þetta er greiðfær leið og hestar spretta oft úr spori, þegar þeir finna, að gróðurinn í Hvanngili nálgast. Flosi Ólafsson leikari taldi þetta mesta skeiðvöll landsins. Mýrdalsjökull gnæfir yfir suðurbrún sandsins og Torfajökull yfir norðurbrún hans. Stök fjöll á sandinum eru áberandi, mest Mælifell, sem sandurinn er kenndur við. Þetta hefur allar aldir verið þjóðleið milli Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Hún var fljótar farin en leiðin á ströndinni, þar sem oftar þurfti að vaða jökulár. Hér fór Flosi Þórðarson með liði sínu í aðför að Njáli á Bergþórshvoli. Áður en verzlun var sett upp í Vík í Mýrdal var farið hér um með alla aðdrætti frá Eyrarbakka og Reykjavík.

Förum frá skálanum í Hólaskjóli í 320 metra hæð og norður Lambaskarðshóla með Fjallabaksleið. Beygjum til vesturs og síðan út af veginum til suðurs eftir reiðslóð um þröngt gil. Förum vestur gilið inn í Álftavatnakrók og síðan suður að Álftavötnum. Þar komum við á Syðri-Fjallabaksleið og fylgjum henni. Fyrst suður í Álftavatnakrók og síðan suður um hæðirnar austan og sunnan Svartahnjúks, komum þar í 600 metra hæð. Slóðin beygir til vesturs niður úr hálsunum, síðan suðvestur sandinn suður fyrir Mælifell og síðan til vesturs um Brennivínskvísl, sunnan við Slysaöldu, í 600 metra hæð, og þaðan beint vestur að vaði á Kaldaklofskvísl. Frá því förum við norður með Hvanngilshausum að vestanverðu inn að skálunum í Hvanngili, í 570 metra hæð.

46,7 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Skælingar, Hólaskjól, Ljótarstaðaheiði, Öldufell, Laufafell, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Strútslaug.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Mýrdalssandur

Frá Fjallakofanum við Hólmsá um Mýrdalssand að Höfðabrekku. Hér eru engar slóðir, aðeins eyðisandur eins langt og augað eygir til suðurs. Fara þarf varlega í stríðum jökulkvíslum á sandinum, Leirá og Þverkvísl. Sandurinn getur líka verið þungur yfirferðar. Fyrst og fremst er þetta tengileið milli leiða af Fjallabaki og leiða í Mýrdal. Í góðu veðri er mikilúðlegt útsýni til Mýrdalsjökuls og stöku fjöllin á sandinum eru líka tignarleg, Atley og Hafursey. Þegar komið er í Hafursey er ástæða til að vera feginn að vera sloppinn undan Kötlugosi, því að í eynni er griðland fyrir hugsanlegu jökulflóði. Förum frá Fjallakofanum við Hólmsárfoss suður jeppaveg með ánni, unz hún snýr til vesturs og nálgast Atley á sandinum. Förum þá þvert til suðurs af slóðinni í stefnu á austurhorn Hafurseyjar, vestan Rjúpnafells og austan Sandfells. Förum beint strik meðfram Sandfellsjökli og Kötlujökli. Förum yfir Leirá og Þverkvísl og beygjum síðan þvert til vesturs við suðausturhorn Hafurseyjar. Komum þar inn á slóða að björgunarskýli í sunnanverðri eynni. Fylgjum þeim slóða að mestu til suðurs að þjóðvegi 1 og síðan vestur brúna á Múlakvísl að Höfðabrekku.

35,0 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.
Hafursey : N63 30.900 W18 44.080.

Nálægir ferlar: Öldufell, Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Hólmsá, Skaftártunguleið, Álftaversleið, Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Miklafell

Frá Miklafelli að Orrustuhóli.

Tengileið frá byggðum áleiðis að Blæng og Laka. Frá Blæng er stutt að fara vestur að Laka, þaðan sem eru tvær leiðir að Blágili og síðan suður að Hunkubökkum.

Förum frá fjallaskálanum suðaustan undir Miklafelli í 410 metra hæð og eftir jeppavegi suður til byggða um Eldhraun, milli Dalsfjalls að austan og Hests og Kaldbaks að vestan. Hverfisfljót rennur austast í dalnum. Förum vestan við Grænháls og síðan nálægt vesturfjöllunum um Digranes og Þverárnes að þjóðvegi 1, í 50 metra hæð rétt austan við Orrustuhól.

19,5 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Miklafell: N63 58.782 W18 00.524.

Nálægir ferlar: Fljótsoddi.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Brunasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Lónsheiði

Frá Starmýri í Álftafirði um Lónsheiði að Össurá í Lóni.

Hér lá hringvegurinn fram til ársins 1981, þegar bílvegur með slitlagi var lagður um Hvalnes- og Þvottárskriður.

Förum frá Starmýri til suðurs austan við Grímshjalla, síðan vestur með Vatnshlíðarhnausum og suður á Lónsheiði í 400 metra hæð. Milli Hrossatinds og Geithamarstinds og suður með Víkurá í Lóni að þjóðvegi 1 við Össurá.

12,9 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Hofsdalur, Flugustaðadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ljótarstaðaheiði

Frá Gröf í Skaftártungu um Ljótarstaðaheiði að Fjallabaksleið syðri við Hólmsá.

Förum frá Gröf og fylgjum þjóðvegi F210 alla leið. Fyrst norðvestur að Ljótarstöðum og Snæbýli. Síðan vestsuðvestur á Snæbýlisheiði og þaðan norður á Ljótarstaðaheiði. Norður um Langaháls og Syðri-Tjaldgilsháls og norðvestur að Draumadal. Þaðan norðvestur að mótum þjóðvegar F233 um Mælifellssand milli fjallaskálanna í Hólaskjóli og Hvanngili.

23,4 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Leiðólfsfell

Frá Lakavegi 206 sunnan Stórhóls um fjallaskálana Leiðólfsfell, Hrossatungur og Blágil að Lakavegi 206 við Tjaldgil.

Leiðólfsfell er stakt og vel gróið fjall á Landbrotsafrétti. Mikill gróður er umhverfis það. Landnáma segir, að þar hafi Leiðólfur kappi haft bú á Leiðólfsstöðum “og var þar margt byggða”. Engar minjar sjást um hana.

Byrjum á Lakavegi um þremur kílómetrum sunnan við Eintúnaháls. Þar er þverleið til vesturs, fær jeppum. Við förum þá leið beint vestur fyrir sunnan Skálasker og fyrir norðan Innra-Hrútafjall, síðan vestur um Hellnamýri að norðurhlíðum Kanafjalla. Áfram vestur á milli Hraunsenda að norðanverðu og Hraunfellsaxlar að sunnanverðu. Þaðan norðvestur yfir Hellisá að Leiðólfsfelli. Förum vestur fyrir fellið að fjallaskálanum Leiðólfsfelli. Þaðan norður um Sæmundarsker að Fremra-Grjótárhöfði og síðan norðaustur og norður um Hrossatungur að samnefndum fjallaskála. Áfram norðaustur að vegamótum, þar sem við förum austur að fjallaskálanum í Blágili og áfram norðaustur að Lakavegi 206 við Tjaldgili.

37,5 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Leiðólfsfell: N63 51.967 W18 29.015.
Hrossatungur: N63 57.577 W18 23.727.
Blágil: N63 58.001 W18 19.315.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Laki, Lakagígar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Langisjór

Frá Jökulheimum við Vatnajökul meðfram norðurhlið Langasjávar að fjallaskála við suðurenda vatnsins.

Við förum að mestu eftir jeppaslóðum. Ein fegursta leið landsins, Fögrufjöll speglast í vatninu. “Langisjór, stærsta blátæra fjallavatn landsins, liggur mitt í ósnortnu víðerni í djúpum dal milli móbergshryggjanna Tungnaárfjalla og Fögrufjalla. Þar er einn fegursti staður landsins, að formum og litbrigðum, víðáttu, og andstæðum. Þráðbeinir hryggir rísa brattir upp af vatnsfleti sem skilur að nær gróðurlausa svarta sanda Tungnaárfjalla og víðlenda skærgræna mosaþembu Fögrufjalla með strjálum hálendisgróðri. Í norðaustri rís hvítur Vatnajökull. Breiðbak ber hæst í Tungnaárfjöllum og við suðurenda Langasjávar móbergshnjúkinn Sveinstind …” (www.natturukortid.is)

Förum frá fjallaskálanum í Jökulheimu í 670 metra hæð. Förum suður yfir kvíslar Tungnaár, um Botnaver, um Launfit og Fit suður yfir fjöllin norðaustan Breiðbaks. Förum síðan af þeirri leið eftir jeppaslóð til austurs og síðan suðurs að norðurendanum á Langasjó. Þaðan fylgjum við fjörunni að norðanverðu til suðvesturs, undir fjallinu Breiðbaki og andspænis Fögrufjöllum handan vatnsins. Við förum fyrir suðurenda vatnsins og komum þar á jeppaslóð, sem liggur austur fyrir höfða við vatnsendann og síðan út á nes, þar sem er fjallaskálinn Langisjór í 670 metra hæð.

38,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.

Nálægir ferlar: Breiðbakur, Jökulheimar, Hamarskriki, Fljótsoddi.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Landmannaleið

Frá Landmannahelli að Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

Hluti leiðar, sem ýmist er kölluð Landmannaleið eða Fjallabaksleið nyrðri. Þetta er ein allra glæsilegasta reiðleið landsins, litskrúðugasta og fjölbreyttasta. Liggur í ótal sveigjum milli brattra einstæðingsfjalla. Stóru perlurnar á leiðinni eru Landmannalaugar, Kirkjufell og Eldgjá. Eini galli leiðarinnar er, að hún er um leið fjölfarinn sumarvegur vélknúinna farartækja. Engin leið er að víkjast undan bílveginum nema á köflum hér og þar. Svipaða sögu er að segja af leiðinni sunnan Torfajökuls, sem kölluð er Fjallabaksleið syðri. Ferð um þetta svæði verður ekki sama tímalausa tilvistin og hestamenn þekkja frá öðrum reiðslóðum. En hvergi er útsýnið stórfenglegra en einmitt hér.

Förum frá Landmannahelli í 600 metra hæð og með jeppavegi alla leið í Hólaskjól. Mestur hluti leiðarinnar er í um 600 metra hæð. Að mestu er veginum fylgt en sums staðar sneidd horn af leiðinni. Hestagöturnar eru greinilegar. Við förum austur fyrir Löngusátu, suður að Mógilshöfðum og síðan vestur með þeim um Dómadal að norðanverðu Frostastaðavatni. Förum austur fyrir það og yfir hálsinn að afleggjara að Landmannalaugum. Við höldum hins vegar beint austur yfir brúna á Jökulgilskvísl og síðan suður og aftur austur Kýlinga að Kirkjufelli, norður fyrir það og síðan fyrir norðan Halldórsfell. Þar sveigir leiðin til norðausturs að Grænafjalli og síðan til suðausturs sunnan við Skuggafjöll. Þaðan áfram til suðausturs um Jökuldali milli Herðubreiðar að norðan og Vinstrasnóks að sunnan. Komumst á Herðubreiðarhálsi í nærri 700 metra hæð og höfum þaðan útsýni yfir Eldgjá og Lakagíga. Förum síðan langa brekku niður í Eldgjá, yfir Neðri-Ófæru og síðan áfram suður að Lambaskarðshólum, sveigjum til austurs og loks til suðurs að skálanum í Hólaskjóli í 340 metra hæð.

54,9 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Landmannahellir : N64 03.195 W19 13.977.
Landmannalaugar : N63 59.412 W19 03.656.
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Krakatindur, Reykjadalir, Breiðbakur, Skælingar, Hólaskjól, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Glaðheimar, Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Laki

Frá Hunkubökkum í Skaftársveit um Eintúnaháls og Blágilsskála að Laka og Blæng.

Þetta er jeppaslóð, en reiðslóð er líka milli sömu staða. Ekki má vera með rekstur hjá Laka.

Svæðið er einstætt náttúruundur. Héðan rann mesta hraun jarðarinnar á sögulegum tíma, Skaftáreldahraun 1783, sem breytti loftslagi jarðarinnar um árabil. Víða var landauðn í kjölfarið, mannfellir og hungurdauði. Var í alvöru fjallað um, hvort rétt væri að flytja eftirlifandi Íslendinga á Jótlandsheiðar. Gígarnir eru um hundrað talsins, renna sums staðar saman, en annars staðar eru misjöfn bil milli þeirra. Gosefnin eru svört og rauð,en víða eru gígarnir þaktir gulum og hvítum grámosa, svo að litbrigðin eru einstök. Laki er 818 metra hár móbergshnúkur á miðri sprungu Lakagíga.

Förum frá Hunkubökkum. Leiðin fylgir jeppavegi inn í Laka. Fyrst förum við vestur í Hellisnes og síðan norður dalinn um Heiðarsel og á Túnheiði að hestagirðingunni við eyðibýlið Eintúnaháls. Þaðan norður um Hurðarbök að Geirlandsá, þar sem er Fagrifoss. Síðan norðaustur um Hattsker, síðan norður og norðvestur um Ámundarbotna. Við förum áfram norður Tjarnartanga, yfir Hellisá og um Galta að Varmárfelli vestanverðu. Förum norður fyrir fellið og höldum áfram norður milli Blængs og Laka og endum fyrir norðan Blæng.

44,2 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Eintúnaháls: N63 50.269 W18 13.309. Hestagirðing

Jeppafært

Nálægar leiðir: Lakagígar, Leiðólfsfell, Holtsdalur, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Lakagígar

Frá Blæng og Laka um Lakagíga að Blágili.

Ekki má fara með rekstur þessa leið. Hægt er að fara hringleið frá skálanum í Blágili og verður þá hringurinn um 45 km. Farið er á jeppaslóð, svo að hægt er að hafa tvo hesta í taumi. Svæðið er einstætt náttúruundur. Héðan rann mesta hraun jarðarinnar á sögulegum tíma, Skaftáreldahraun 1783, sem breytti loftslagi jarðarinnar um árabil. Víða var landauðn í kjölfarið, mannfellir og hungurdauði. Var í alvöru fjallað um, hvort rétt væri að flytja eftirlifandi Íslendinga á Jótlandsheiðar. Gígarnir eru um hundrað talsins, renna sums staðar saman, en annars staðar eru misjöfn bil milli þeirra. Gosefnin eru svört og rauð,en víða eru gígarnir þaktir gulum og hvítum grámosa, svo að litbrigðin eru einstök.

Förum frá fjallaskálanum Blæng vestur með Blæng og áfram vestur fyrir sunnan Blæng. Norður á Stórasker og síðan til suðvesturs fyrir sunnan Lambavatn um Lakagíga og Úlfarsdal og loks austur að fjallaskálanum í Blágili.

33,4 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Blængur: N64 03.662 W18 08.884
Blágil: N63 58.001 W18 19.315.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Laki, Leiðólfsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kúðafljót

Frá Herjólfsstöðum í Álftaveri til Strandar í Meðallandi.

Kúðafljót er vatnsmikið og hættulegt fljót, sem aðeins er hægt að ríða við góðar aðstæður að sumri. Fylgja þarf vönum og staðkunnugum vatnamanni og vera með góða vatnahesta. Fylgja þarf brotum yfir ála og gæta sín á, að stundum eru skörð í brotin. Fyrr á öldum var þetta þjóðvegur, en nú er jafnan farið á brú miklu norðar, upp undir Skaftártungu.

Förum frá Herjólfsstöðum með bæjum suður um Hraunbæ og austur um Norðurhjáleigu að Mýrum. Þaðan förum við til norðausturs norðan við Mýrnahöfða og Skollablá og sunnan við Grjóteyri. Förum þar norðaustur á brotum yfir Gvendarál og aðra vestari ála Kúðafljóts yfir í Bæjarhólma og þaðan um Kvíslar og komið í land norðan við Strönd í Meðallandi.

17,3 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Álftaversleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Illikambur

Frá Þórisdal í Lóni um Illakamb að Grund í Víðidal.

Einn hrikalegasti fjallvegur landsins, leiðin úr Lóni um Kjarrdalsheiði og lllakamb upp að eyðibýlinu Grund í Víðidal. Hún er mest upp og niður og þar á ofan í ótal krókum. Loftlínan milli róta Kjarrdalsheiðar og Grundar er samt ekki nema fjórtán kílómetrar. Þetta er stórbrotnasta reiðleið landsins um úfið land inn að eyðibýli, sem var byggt 1835 og slitrótt í ábúð til 1897, þegar búskapur lagðist niður vegna ofbeitar.

Förum frá Þórisdal eftir jeppavegi norðvestur og inn með Jökulsá. Síðan sunnan og vestan við Eskifell að brekkurótum Kjarrdalsheiðar. Þaðan upp Ása og Tæputungur og svo norður á Kjarrdalsheiði, mest í 720 metra hæð. Jeppaslóðin endar á Illakambi. Þar förum við reiðgötuna norður og niður kambinn og síðan vestur um Víðibrekkur að göngubrú yfir Jökulsá í Lóni og yfir að Múlaskála í 150 metra hæð yfir sjó. Áfram förum við norður með Jökulsá að austanverðu, um Brenniklett og yfir Leiðartungnagil. Þar förum við norður Leiðartungur upp í 720 metra hæð norðvestan Kollumúla. Síðan norður um Sanda fram á Miðaftansbrún vestan Víðidals. Þaðan er stutt að Kollumúlaskála / Egilsseli við Kollumúlavatn. Frá Miðaftansbrún förum við að lokum sniðgötur austur brekkurnar niður að eyðibýlinu Grund.

29,6 km
Skaftafellssýslur, Austfirðir

Mjög bratt

Skálar: Múlaskáli: N64 33.181 W15 09.045.
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Dalsheiði, Reifsdalur, Egilssel, Sauðárvatn, Geldingafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Höfðabrekkuheiði

Frá Höfðabrekku um Höfðabrekkuheiði til Selsmýrar norðan Víkur í Mýrdal.

Sunnan Mýrdalsjökuls er ævintýraland. Þröngar dalskorur kvíslast milli brattra fjalla. Þú ferðast í völundarhúsi, þótt engin hætta sé á að villast, lækirnir beina þér rétta leið. Þú ferðast raunar í lækjunum, því að leiðin liggur sitt á hvað á bökkunum. Því miður eru jeppar farnir að troðast þessa áður einstæðu reiðleið. Útlendingar hafa eignast bæina við Heiðarvatn og eru sagðir farnir að amast við ferðum um lönd þeirra. Takið ekki mark á þeim, náttúruverndarlögin frá 1999 eru okkar megin. Kortið sýnir leiðina í tveimur áföngum, Höfðabrekkuheiði og Heiðarvatn. Lýsingin hér á við þær sameiginlega.

Byrjum 5 km austan Víkur í Mýrdal við þjóðveg 1 hjá Höfðabrekku. Förum bílslóða norður Kerlingardal, um Kerlingardals- og Höfðabrekkuheiðar, bratt niður að Múlakvísl andspænis Hafursey. Þetta var bílvegurinn austur, þangað til Jónsmessuhlaupið í Múlakvísl árið 1955 rauf hann. Hér sjást leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl. Síðan förum við norðvestur og síðan vestur að fjallaskálanum Ausubóli, sem er 3 km frá Mýrdalsjökli. Næst förum við eftir gilinu kringum Kambhálsa, suðvestur með Sundá að Vesturgilsá. Síðan vestan við Hnitbjörg og yfir Heiðargilsá, framhjá eyðibýlinu Káraseli, vestur um Vatnsársund og norður fyrir Heiðarvatn. Þar komum við að Heiðarbæjum. Loks förum við suðvestur á þjóðveg 1, um 4 km norðan Víkur í Mýrdal.

18,6 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Ausuból: N63 31.199 W18 54.741.

Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hólmsá

Frá Brytalækjum á Syðri-Fjallabaksleið með Hólmsá í Fjallakofann við Hólmsárfoss í Skaftártungu.

Þetta er skemmtileg og fjölbreytt leið niður með efri hluta Hólmsár við undirleik af fossanið. Hestarnir koma ofan af Mælifellssandi og gleðjast við að sjá allan þennan gróður koma í fangið. Vilja helzt fara í loftköstum niður brekkur Álftaversafréttar. “Þeir stytta sporin, þeir stappa hófum / og strjúka tauma úr lófum og glófum. / Höfuðin lyftast. Hin lifandi vél / logar af fjöri undir söðulsins þófum” (Einar Ben).

Förum frá Brytalækjum við vegamót Mælifellssands og Öldufellsleiðar Til austurs eftir leirunum upp á Einhyrningsleið, sem liggur austur frá Öldufellsleið. Förum norðan við Skiptingarhaus og sveigjum þar til suðausturs af slóðinni niður að Hólmsá og förum þar austan við Einhyrning. Síðan niður Einhyrningsaxlir og áfram nálægt ánni niður að Fjallakofanum við Hólmsárfoss.

12,9 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Öldufell.
Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hólaskjól

Frá Gröf í Skaftártungum að fjallaskálanum Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

Hólaskjól er vinsæll áningarstaður hestamanna.

Förum frá Gröf og fylgjum þjóðvegi F208 alla leið. fyrst norður yfir Hvammsá. Framhjá afleggjara í Búland og Skaftárdal. Við förum áfram til norðausturs milli Þorláksstaðafells að vestanverðu og Króks að austanverðu. Síðan norður yfir Núpsheiði og um Kálfasléttur að Syðri-Ófæru. Vestan Bleikáluhrauns norður að fjallaskálanum í Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

24,5 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Ljótarstaðaheiði, Mælifellssandur, Landmannaleið, Fjallabak nyrðra, Skælingar.
Nálægar leiðir: Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson