Skaftafellssýslur

Hornsskriður

Frá Dys í Hornafirði til Syðra-Fjarðar í Papafirði í Lóni.

Hornsskriður eru stórkostleg göngu- og reiðleið, sem liggur í ótal krókum milli stórra bjarga, er fallið hafa úr 600 metra háu og snarbröttu fjallinu. Þetta var þjóðleiðin milli Hornafjarðar og Lóns, þegar Almannaskarð var lokað vegna fanna. Hér má sjá ótal litbrigði sjaldgæfra bergtegunda. Framundan Kastárdal eru leifar af verzlunarstaðnum í Papósi. Hann var notaður af Austur-Skaftfellingum frá 1864 fram undir aldamótin 1900, þegar Höfn í Hornafirði tók við sem verzlunarstaður.

Byrjum við þjóðveg 1, þar sem hann liggur úr Hornafirði upp í Almannaskarð. Þar heitir Dys, er göturnar liggja af veginum og út að Horni. Við förum meðfram Skarðsbrekkum og út fyrir Litlahorn, þar sem við komum að Horni. Frá bænum förum við út að Hafnartanga, þar sem Hornsskriður byrja. Austast heitir Brunnhorn. Þaðan er greiðfært framhjá Kastárdal að Syðra-Firði. Stutt er að þjóðvegi 1.

16,2 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Austursandur. Endalausidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hornafjarðarfljót

Frá Bjarnanesi yfir Hornafjarðarfljót að Holtateigum.

Milli Bjarnanessands og Holtateiga eru fimm kílómetrar, að miklu leyti í vatni. Þetta er því lengsta vað á Íslandi. Þar geta verið djúpir álar, svo að nauðsynlegt er að fara með staðkunnugum. Að jafnaði er Hornafjarðarfljót þó auðvelt yfirferðar. Í Skógey höfðu menn slægjur síðustu aldir, en lengi hefur þar enginn skógur verið.

Byrjum við þjóðveg 1 hjá Fornustekkum í Nesjum í Hornafirði. Förum austur að vaði við Bjarnanessand yfir gamlan farveg Austurfljóta, sem nú hafa sameinast Suðurfljótm við jökulsporð. Síðan um Ferðamannahraun þvert yfir norðurenda Skógeyjar að vaði á Hornafjarðarfljótum norðan við Kríusker og þar beint yfir í Prestafit. Þaðan er stutt upp á þjóðveg 1 milli Tjarnar og Holta á Mýrum.

8,1 km
Skaftafellssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Skógey, Vítisbrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Holtsdalur

Frá Skaftárdal um Holtsdal að Hunkubökkum.

Gamla þjóðleiðin milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftártungu. Þetta er fögur og gróðursæl leið, einkum þegar komið er í skógargötuna niður Kleifar. Ein eftirsóttasta reiðleið landsins, en komst í pattstöðu, þegar Seðlabankinn girti af dalinn. Eftir útistöður við hestamenn lét bankinn af frekju sinni og gerði hlið á girðinguna. Hestamenn geta því óáreittir farið þessa lögvörðu reiðleið, þar sem engir jeppar eiga að geta verið á ferð, fyrr en komið er að sumarhúsum Seðlabankans neðst í dalnum. Fallegt og gróðursælt er einnig frá dalnum og austur að bænum Holti.

Förum frá Skaftárdal. Nú er brú á Skaftá við Skaftárdal, en áður var farið á vaði neðan við núverandi brú. Við förum suðvestur með Skaftá austanverðri og síðan hlíðina upp Skafl og áfram norður af austri í Selfellsmýrar. Förum þar fyrir sunnan Austastafell í 320 metra hæð. Síðan suðaustur um eyðibýlið Hervararstaði að Bunuskeri og áfram suður í Holtsdal milli Skálarheiðar að vestan og Steinsheiðar að austan og um kjarri vaxnar Kleifar niður í Fremri-Dal. Förum niður dalinn um Sótatungur meðfram Holtsá út á jeppaveg, sem liggur austur um eyðibýlið Böðmóðstættur og um Holt að fjallvegi upp í Laka. Við förum austur og niður með þeim vegi framhjá Hellisnesi að Hunkubökkum við veg 206 yfir Skaftá.

20,3 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Skaftá, Laki, Leiðólfsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hellisskógur

Frá Stafafelli í Lóni inn með Jökulsá í Hellisskóg.

Óvenjulega fögur reiðleið undir tilbreytingarríkri fjallshlíð.

Förum frá Stafafelli með jeppavegi norðvestur með Jökulsá í Lóni. Förum fyrir Raftagil, Gullaugarfjall og Hvannagil. Síðan um Smiðjunes og Valskógsnes. Áfram förum við reiðslóð norður í Austurskóga og síðan norðvestur í Hellisskóg.

12,3 km
Austfirðir, Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Illikambur, Dalsheiði, Reifsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Heiðarvatn

Frá Höfðabrekkuheiðarleið við Kárasel að þjóðvegi 1 í Selsmýri norðan Víkur í Mýrdal.

Förum frá eyðibýlinu Káraseli vestur um Vatnsársund og norður fyrir Heiðarvatn. Þar komum við að Heiðarbæjum. Loks förum við suðvestur á þjóðveg 1 í Selsmýri, um 4 km norðan Víkur í Mýrdal.

7,4 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Heiðardalsvegur

Frá Fjallsenda í Mýrdal um Heiðardalsveg að Kerlingardal í Mýrdal.

Þetta er fín leið fyrir sportreið.

Sumarfögur leið um innilokaðan fjallasal norðan Víkur í Mýrdal. Leiðin liggur frá þjóðvegi 1 norðan Víkur og að sama þjóðvegi við Höfðabrekku austan Víkur. Fara má beggja vegna Heiðarvatns, en hefðbundna leiðin er sú, sem hér er lýst. Helzta skart leiðarinnar er fagurblátt heiðarvatnið. Á Vatnshálsi eru sérkennilegir hellar og skútar. Á Kerlingardalsáraurum er meira eða minna riðið niður árfarveginn sjálfan. Fyrrum var farið með flutninga á hestum þessa leið frá Eyrarbakka áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900. Var farið upp úr Kerlingardalsflötum austur yfir Flataskarð, vestan við Kamb og síðan suður fyrir hann. Áfram austur um Núpamýrar að Núpakambi og niður hann að Múlakvísl á vaði. Þaðan lá leiðin austur yfir Mýrdalssand, áður en verzlun hófst í Vík í Mýrdal um aldamótin 1900.

Byrjum við þjóðveg 1 um Fjallsenda, 4 km. norðan Víkur í Mýrdal. Við fylgjum vegi austur að bæjunum Stóru- og Litlu-Heiði. Frá Litlu-Heiði förum við austur eftir jeppaslóð yfir mýrar og um Vatnsársund norðan við Vatnsháls. Beygjum við Vatnsháls til suðurs og förum eftir grasflötum og síðan aurum Kerlingardalsár að Kerlingardal og síðan með bílvegi suður að Höfðabrekku.

12,8 km
Skaftafellssýslur

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Heiðarvatn, Arnarstakksheiði, Mýrdalssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Grettir

Frá Fjallabaksleið nyrðri að Langasjó.

Ein stórfenglegasta eyðimerkurleið landsins að fegursta stöðuvatni landsins.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla og Herðubreiðar í 620 metra hæð. Förum meðfram Skuggafjallakvísl og norðvestan við Ljónstind og Gjátind í Norðari-Ófæru og áfram vestan við Blautulón, sem eru undir fjallinu Gretti. Norðvestan við okkur er Grænifjallgarður. Við förum áfram milli hans og Hellnafjalls að suðaustan. Þar komum við að suðurendanum á Langasjó í 660 metra hæð.

23,1 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Glaðheimar

Frá Kirkjufelli á Fjallabaksleið nyrðri um Glaðheima að Klappargili á Fjallabaksleið nyrðri.

Hliðarleið norðan aðalleiðarinnar á Fjallabaki nyrðra.

Byrjum á þjóðvegi F208 norðan við Kirkjufell á Fjallabaksleið nyrðri. Förum norðaustur utan í Stóra-Kýlingi og um fjallaskálann Höllina að Tungnaá. Beygjum síðan í austsuðaustur eftir línuvegi að Jökuldalakvísl. Síðan suðaustur um fjallaskálann í Glaðheimum norður og austur fyrir Réttarhnúk að þjóðvegi F208 vestan við Klappargil.

8,4 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Höllin: N63 59.892 W18 55.016.
Glaðheimar: N63 59.084 W18 49.978.
Glaðheimar eldri: N63 59.122 W18 50.050.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Gjátindur

Frá Skælingaleið á suðurbrún Eldgjár upp að Gjátindi.

Af Gjátindi er mikið útsýni.

Byrjum á Skælingaleið sunnan við Eldgjá. förum norðaustur og upp með gjánni á Gjátind sunnan gjárinnar.

4,1 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Skælingar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Flosavegur

Flosi Þórðarson fór frá Svínafelli í Öræfum að Njáli á Bergþórshvoli í Landeyjum.

Hér er lýst leiðinni frá Svínafelli að Torfastöðum í Fljótshlíð.

Í Chorographica Islandica í byrjun 18. aldar segir Árni Magnússon: “Flosavegur upp úr Þórmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður.” Nú á tímum er leiðin einnig farin, en þykir ströng. Í Njáls sögu segir, að Flosi og menn hans lögðu af stað frá Svínafelli að morgni sunnudags og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Fyrst riðu þeir Skeiðarársand og Núpsvötn hjá Lómagnúpi. Svo að Kirkjubæjarklaustri. Þar fóru þeir til kirkju. Síðan riðu þeir á fjall til Fiskivatna og þaðan vestur yfir Mælifellssand. Svo niður í Goðaland og yfir Markarfljót á vaði. Hver þeirra var með tvo til reiðar. Þeir voru einn og hálfan sólarhring að fara 163 kílómetra leið.

Byrjum á Svínafelli og förum vestur yfir Skeiðará, Gígjukvísl og Núpsvötn að Lómagnúpi. Síðan vestur Fljótshverfi, yfir Hverfisfljót og vestur Síðu að Kirkjubæjarklaustri. Þaðan vestur með fjallinu að Hunkubökkum og Holti, síðan upp Holtsdal og vestur að Skaftárdal. Þar yfir Skaftá og vestur um Skaftártungur. Yfir Hólmsá og upp með henni að Brytalækjum. Þaðan suður fyrir Mælifell og síðan vestur Mælifellssand, framhjá afleggjara að Hvanngili. Vestur jeppaslóðina að Hattafelli og suður þar vestan við Stórkonufell og Litla-Mosfell að Mýrdalsjökli. Þar er farið yfir Neðri-Emstruá og síðan vestur Emstruleið að Markarfljóti og áfram suðvestur með fljótinu að Húsadal í Þórsmörk. Kaflinn frá Litla-Mosfelli í Húsadal er mjög erfiður. Einhvers staðar þar er Goðaland, sem sagt er frá í Njálu. Frá Húsadal er farið á vaði yfir Markarfljót og síðan vestur Fljótshlíð að Torfastöðum í Fljótshlíð. Norðan Torfastaða eru Þríhyrningshálsar undir Þríhyrningi, þar sem Flosi og menn hans hvíldu sig.

156 km
Skaftafellssýslur, Rangárvallasýs la

Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Miklafell, Hólaskjól, Öldufell, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Skaftafell, Núpsstaðaskógur, Brunasandur, Holtsdalur, Hólmsá, Goðaland, Fljótshlíð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Njála

Fljótsoddi

Frá Jökulheimum við Vatnajökul að Miklafelli á Síðumannaafrétti.

Hin forna Bárðargata liggur vafalaust á þeim slóðum einhvers staðar yfir Hverfisfljót og áfram niður í Fljótshverfi. Á landnámsöld er líklegt, að vatnaskil hafi þvingað meira af jökulvatni í Skaftá og minna hafi runnið í Hverfisfljót, sem þá hét svo lítið sem Raftalækur.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti.

Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Förum frá Jökulheimum í 670 metra hæð, að mestu eftir jeppaslóðum. Suður yfir kvíslar Tungnaár á viðsjárverðu Gnapavaði, um Botnaver, um Launfit og Fit suður yfir fjöllin norðaustan Breiðbaks. Förum síðan af þeirri leið eftir jeppaslóð til austurs og síðan suðurs að norðurendanum á Langasjó. Þar förum við austur flatlendið og yfir Skaftá skammt frá jökli. Förum síðan sléttuna milli Fögrufjalla að vestanverðu og undirfjalla Vatnajökuls að austanverðu. Beygjum síðan til suðsuðausturs og förum um Fljótsodda að Hverfisfljóti og síðan suður með fljótinu. Þar förum ekki yfir Hverfisfljót eins og Gnúpa-Bárður, heldur fylgjum jeppaslóð frá ánni til suðurs um Brunavötn og Fremri-Eyrar að slóð, sem liggur frá fjallaskálanum í Miklafelli að Blæng. Við förum þá slóð suðaustur að vesturbrún Miklafells og síðan suður fyrir fellið að skálanum, sem er suðaustan undir fellinu í 410 metra hæð.

37,6 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.
Miklafell: N63 58.782 W18 00.524.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hamarskriki, Jökulheimar, Langisjór, Miklafell.
Nálægar leiðir: Bárðargata

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fláajökull

Frá Mýrum í Hornafirði upp að Fláajökli.

Sumir telja, að fyrir mörgum öldum hafi Vatnajökull verið klofinn, enda stundum kallaður Klofajökull. Hafi þá verið þjóðleið milli jöklanna frá Brúarjökli og komið hér niður vestan Skálafellsjökuls hjá Hálsatindi.

Förum frá Hólmi norðvestur með Hólmsá að austanverðu upp að jökulrönd Fláajökuls í Vatnajökli.

7,4 km
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægar leiðir: Suðurfjörur, Hornafjarðarfljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Fjallabak nyrðra

Samheiti yfir margar leiðir að Fjallabaki nyrðra og syðra.

Vinsæl reiðleið hestaferðahópa, enda er landslag stórfenglegt alla leiðina úr Rangárbotnum austur í Skaftártungu. Galli hennar er, að fara þarf að mestu eftir fjölförnum jeppavegi.

Meginslóðir á Fjallabaki nyrðra eru, talið frá vestri: Rangárbotnar, Sauðleysur, Landmannaleið. Meginslóðir á Fjallabaki syðra eru, talið frá vestri: Hungurfit, Laufafell, Mælifellssandur. Milli nyrðri og syðri leiðarinnar eru slóðirnar Rauðkembingar, Krakatindur og Reykjadalir. Skoðið hverja slóð fyrir sig. Sjá þar texta um einstakar leiðir að Fjallabaki.

97,0 km
Rangárvallasýsla
Skaftafellssýslur

Jeppafært

Nálægir ferlar: Rangárbotnar, Sauðleysur, Landmannaleið, Heklubraut, Hraunin, Rauðkembingar, Krakatindur, Reykjadalir, Dyngjur, Breiðbakur, Skælingar, Mælifellssandur, Hólaskjól.
Nálægar leiðir: Stóruvallaheiði, Skarfanes, Réttarnes, Valafell, Glaðheimar, Faxasund, Gjátindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Faxasund

Frá Fjallabaksleið um Faxasund að Langasjó og Jökulheimaleið.

Byrjum á Fjallabaksleið nyrðri milli Skuggafjalla að sunnanverðu og Grænafjalls að norðanverðu. Förum austnorðaustur um Faxasund og fjallaskálann Örk að vegamótum við Langasjó.

25,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar: Örk: N64 06.177 W18 36.032.
Botnlangi: N64 06.192 W18 38.817.
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Breiðbakur, Langisjór.
Nálægar leiðir: Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Eyjafjöll

Frá Brekkum í Mýrdal um Holtsós að Skálakoti undir Eyjafjöllum.

Fáið í Skálakoti leiðsögn yfir Holtsós, sem er sífelldum breytingum undirorpinn. Skógafoss er 60 metra hár og 25 metra breiður, einn fegursti foss landsins. Hann var friðlýstur árið 1987 sem náttúruvætti. Sagnir segja, að landnámsmaðurinn Þrasi Þórólfsson hafi kastað gullkistu í helli bak við fossinn. Í Skálakoti er margvísleg þjónusta við hestamenn. Þar er hægt að fá leiðsögn yfir Holtsós.

Förum frá Brekkum norður skarðið milli Kamba að austan og Búrfells að vestan. Förum vestnorðvestur fyrir norðan Litlahöfða að Álftagróf. Síðan vestur að Bæjarhaus og sunnan við Fell suðaustur um Klifandi að þjóðvegi 1 austan við Pétursey. Með þjóðveginum vestur að Skógum og Drangshlíðarfjalli og áfram vestur að þjóðvegi 243 suður með Bakkakotsá. Förum suður og síðan vestur þann veg að Berjanesi. Þar förum við til vesturs fyrir sunnan Holtsós og síðan norður yfir hann, þar sem hann mjókkar. Síðan norður með Holtsá að þjóðvegi 1 og yfir hann að Skálakoti í Eyjafjöllum.

44,0 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Holtsós, Arnarstakksheiði, Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Miðskálaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson