Landmannaleið

Frá Landmannahelli að Hólaskjóli í Lambaskarðshólum.

Hluti leiðar, sem ýmist er kölluð Landmannaleið eða Fjallabaksleið nyrðri. Þetta er ein allra glæsilegasta reiðleið landsins, litskrúðugasta og fjölbreyttasta. Liggur í ótal sveigjum milli brattra einstæðingsfjalla. Stóru perlurnar á leiðinni eru Landmannalaugar, Kirkjufell og Eldgjá. Eini galli leiðarinnar er, að hún er um leið fjölfarinn sumarvegur vélknúinna farartækja. Engin leið er að víkjast undan bílveginum nema á köflum hér og þar. Svipaða sögu er að segja af leiðinni sunnan Torfajökuls, sem kölluð er Fjallabaksleið syðri. Ferð um þetta svæði verður ekki sama tímalausa tilvistin og hestamenn þekkja frá öðrum reiðslóðum. En hvergi er útsýnið stórfenglegra en einmitt hér.

Förum frá Landmannahelli í 600 metra hæð og með jeppavegi alla leið í Hólaskjól. Mestur hluti leiðarinnar er í um 600 metra hæð. Að mestu er veginum fylgt en sums staðar sneidd horn af leiðinni. Hestagöturnar eru greinilegar. Við förum austur fyrir Löngusátu, suður að Mógilshöfðum og síðan vestur með þeim um Dómadal að norðanverðu Frostastaðavatni. Förum austur fyrir það og yfir hálsinn að afleggjara að Landmannalaugum. Við höldum hins vegar beint austur yfir brúna á Jökulgilskvísl og síðan suður og aftur austur Kýlinga að Kirkjufelli, norður fyrir það og síðan fyrir norðan Halldórsfell. Þar sveigir leiðin til norðausturs að Grænafjalli og síðan til suðausturs sunnan við Skuggafjöll. Þaðan áfram til suðausturs um Jökuldali milli Herðubreiðar að norðan og Vinstrasnóks að sunnan. Komumst á Herðubreiðarhálsi í nærri 700 metra hæð og höfum þaðan útsýni yfir Eldgjá og Lakagíga. Förum síðan langa brekku niður í Eldgjá, yfir Neðri-Ófæru og síðan áfram suður að Lambaskarðshólum, sveigjum til austurs og loks til suðurs að skálanum í Hólaskjóli í 340 metra hæð.

54,9 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Landmannahellir : N64 03.195 W19 13.977.
Landmannalaugar : N63 59.412 W19 03.656.
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Sauðleysur, Krakatindur, Reykjadalir, Breiðbakur, Skælingar, Hólaskjól, Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Glaðheimar, Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson