Mýrdalssandur

Frá Fjallakofanum við Hólmsá um Mýrdalssand að Höfðabrekku. Hér eru engar slóðir, aðeins eyðisandur eins langt og augað eygir til suðurs. Fara þarf varlega í stríðum jökulkvíslum á sandinum, Leirá og Þverkvísl. Sandurinn getur líka verið þungur yfirferðar. Fyrst og fremst er þetta tengileið milli leiða af Fjallabaki og leiða í Mýrdal. Í góðu veðri er mikilúðlegt útsýni til Mýrdalsjökuls og stöku fjöllin á sandinum eru líka tignarleg, Atley og Hafursey. Þegar komið er í Hafursey er ástæða til að vera feginn að vera sloppinn undan Kötlugosi, því að í eynni er griðland fyrir hugsanlegu jökulflóði. Förum frá Fjallakofanum við Hólmsárfoss suður jeppaveg með ánni, unz hún snýr til vesturs og nálgast Atley á sandinum. Förum þá þvert til suðurs af slóðinni í stefnu á austurhorn Hafurseyjar, vestan Rjúpnafells og austan Sandfells. Förum beint strik meðfram Sandfellsjökli og Kötlujökli. Förum yfir Leirá og Þverkvísl og beygjum síðan þvert til vesturs við suðausturhorn Hafurseyjar. Komum þar inn á slóða að björgunarskýli í sunnanverðri eynni. Fylgjum þeim slóða að mestu til suðurs að þjóðvegi 1 og síðan vestur brúna á Múlakvísl að Höfðabrekku.

35,0 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir göngufólk

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.
Hafursey : N63 30.900 W18 44.080.

Nálægir ferlar: Öldufell, Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Hólmsá, Skaftártunguleið, Álftaversleið, Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort