Langisjór

Frá Jökulheimum við Vatnajökul meðfram norðurhlið Langasjávar að fjallaskála við suðurenda vatnsins.

Við förum að mestu eftir jeppaslóðum. Ein fegursta leið landsins, Fögrufjöll speglast í vatninu. “Langisjór, stærsta blátæra fjallavatn landsins, liggur mitt í ósnortnu víðerni í djúpum dal milli móbergshryggjanna Tungnaárfjalla og Fögrufjalla. Þar er einn fegursti staður landsins, að formum og litbrigðum, víðáttu, og andstæðum. Þráðbeinir hryggir rísa brattir upp af vatnsfleti sem skilur að nær gróðurlausa svarta sanda Tungnaárfjalla og víðlenda skærgræna mosaþembu Fögrufjalla með strjálum hálendisgróðri. Í norðaustri rís hvítur Vatnajökull. Breiðbak ber hæst í Tungnaárfjöllum og við suðurenda Langasjávar móbergshnjúkinn Sveinstind …” (www.natturukortid.is)

Förum frá fjallaskálanum í Jökulheimu í 670 metra hæð. Förum suður yfir kvíslar Tungnaár, um Botnaver, um Launfit og Fit suður yfir fjöllin norðaustan Breiðbaks. Förum síðan af þeirri leið eftir jeppaslóð til austurs og síðan suðurs að norðurendanum á Langasjó. Þaðan fylgjum við fjörunni að norðanverðu til suðvesturs, undir fjallinu Breiðbaki og andspænis Fögrufjöllum handan vatnsins. Við förum fyrir suðurenda vatnsins og komum þar á jeppaslóð, sem liggur austur fyrir höfða við vatnsendann og síðan út á nes, þar sem er fjallaskálinn Langisjór í 670 metra hæð.

38,9 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Jökulheimar: N64 18.632 W18 14.304.
Langisjór: N64 07.151 W18 25.698.

Nálægir ferlar: Breiðbakur, Jökulheimar, Hamarskriki, Fljótsoddi.
Nálægar leiðir: Faxasund, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson