Illikambur

Frá Þórisdal í Lóni um Illakamb að Grund í Víðidal.

Einn hrikalegasti fjallvegur landsins, leiðin úr Lóni um Kjarrdalsheiði og lllakamb upp að eyðibýlinu Grund í Víðidal. Hún er mest upp og niður og þar á ofan í ótal krókum. Loftlínan milli róta Kjarrdalsheiðar og Grundar er samt ekki nema fjórtán kílómetrar. Þetta er stórbrotnasta reiðleið landsins um úfið land inn að eyðibýli, sem var byggt 1835 og slitrótt í ábúð til 1897, þegar búskapur lagðist niður vegna ofbeitar.

Förum frá Þórisdal eftir jeppavegi norðvestur og inn með Jökulsá. Síðan sunnan og vestan við Eskifell að brekkurótum Kjarrdalsheiðar. Þaðan upp Ása og Tæputungur og svo norður á Kjarrdalsheiði, mest í 720 metra hæð. Jeppaslóðin endar á Illakambi. Þar förum við reiðgötuna norður og niður kambinn og síðan vestur um Víðibrekkur að göngubrú yfir Jökulsá í Lóni og yfir að Múlaskála í 150 metra hæð yfir sjó. Áfram förum við norður með Jökulsá að austanverðu, um Brenniklett og yfir Leiðartungnagil. Þar förum við norður Leiðartungur upp í 720 metra hæð norðvestan Kollumúla. Síðan norður um Sanda fram á Miðaftansbrún vestan Víðidals. Þaðan er stutt að Kollumúlaskála / Egilsseli við Kollumúlavatn. Frá Miðaftansbrún förum við að lokum sniðgötur austur brekkurnar niður að eyðibýlinu Grund.

29,6 km
Skaftafellssýslur, Austfirðir

Mjög bratt

Skálar: Múlaskáli: N64 33.181 W15 09.045.
Egilssel: N64 36.662 W15 08.718.

Nálægar leiðir: Dalsheiði, Reifsdalur, Egilssel, Sauðárvatn, Geldingafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort