Höfðabrekkuheiði

Frá Höfðabrekku um Höfðabrekkuheiði til Selsmýrar norðan Víkur í Mýrdal.

Sunnan Mýrdalsjökuls er ævintýraland. Þröngar dalskorur kvíslast milli brattra fjalla. Þú ferðast í völundarhúsi, þótt engin hætta sé á að villast, lækirnir beina þér rétta leið. Þú ferðast raunar í lækjunum, því að leiðin liggur sitt á hvað á bökkunum. Því miður eru jeppar farnir að troðast þessa áður einstæðu reiðleið. Útlendingar hafa eignast bæina við Heiðarvatn og eru sagðir farnir að amast við ferðum um lönd þeirra. Takið ekki mark á þeim, náttúruverndarlögin frá 1999 eru okkar megin. Kortið sýnir leiðina í tveimur áföngum, Höfðabrekkuheiði og Heiðarvatn. Lýsingin hér á við þær sameiginlega.

Byrjum 5 km austan Víkur í Mýrdal við þjóðveg 1 hjá Höfðabrekku. Förum bílslóða norður Kerlingardal, um Kerlingardals- og Höfðabrekkuheiðar, bratt niður að Múlakvísl andspænis Hafursey. Þetta var bílvegurinn austur, þangað til Jónsmessuhlaupið í Múlakvísl árið 1955 rauf hann. Hér sjást leifarnar af brúnni yfir Múlakvísl. Síðan förum við norðvestur og síðan vestur að fjallaskálanum Ausubóli, sem er 3 km frá Mýrdalsjökli. Næst förum við eftir gilinu kringum Kambhálsa, suðvestur með Sundá að Vesturgilsá. Síðan vestan við Hnitbjörg og yfir Heiðargilsá, framhjá eyðibýlinu Káraseli, vestur um Vatnsársund og norður fyrir Heiðarvatn. Þar komum við að Heiðarbæjum. Loks förum við suðvestur á þjóðveg 1, um 4 km norðan Víkur í Mýrdal.

18,6 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Ausuból: N63 31.199 W18 54.741.

Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Heiðarvatn, Heiðardalsvegur, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson