Kúðafljót

Frá Herjólfsstöðum í Álftaveri til Strandar í Meðallandi.

Kúðafljót er vatnsmikið og hættulegt fljót, sem aðeins er hægt að ríða við góðar aðstæður að sumri. Fylgja þarf vönum og staðkunnugum vatnamanni og vera með góða vatnahesta. Fylgja þarf brotum yfir ála og gæta sín á, að stundum eru skörð í brotin. Fyrr á öldum var þetta þjóðvegur, en nú er jafnan farið á brú miklu norðar, upp undir Skaftártungu.

Förum frá Herjólfsstöðum með bæjum suður um Hraunbæ og austur um Norðurhjáleigu að Mýrum. Þaðan förum við til norðausturs norðan við Mýrnahöfða og Skollablá og sunnan við Grjóteyri. Förum þar norðaustur á brotum yfir Gvendarál og aðra vestari ála Kúðafljóts yfir í Bæjarhólma og þaðan um Kvíslar og komið í land norðan við Strönd í Meðallandi.

17,3 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Álftaversleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins