Mælifellssandur

Frá skálanum í Hólaskjóli að skálanum í Hvanngili.

Þetta er greiðfær leið og hestar spretta oft úr spori, þegar þeir finna, að gróðurinn í Hvanngili nálgast. Flosi Ólafsson leikari taldi þetta mesta skeiðvöll landsins. Mýrdalsjökull gnæfir yfir suðurbrún sandsins og Torfajökull yfir norðurbrún hans. Stök fjöll á sandinum eru áberandi, mest Mælifell, sem sandurinn er kenndur við. Þetta hefur allar aldir verið þjóðleið milli Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu. Hún var fljótar farin en leiðin á ströndinni, þar sem oftar þurfti að vaða jökulár. Hér fór Flosi Þórðarson með liði sínu í aðför að Njáli á Bergþórshvoli. Áður en verzlun var sett upp í Vík í Mýrdal var farið hér um með alla aðdrætti frá Eyrarbakka og Reykjavík.

Förum frá skálanum í Hólaskjóli í 320 metra hæð og norður Lambaskarðshóla með Fjallabaksleið. Beygjum til vesturs og síðan út af veginum til suðurs eftir reiðslóð um þröngt gil. Förum vestur gilið inn í Álftavatnakrók og síðan suður að Álftavötnum. Þar komum við á Syðri-Fjallabaksleið og fylgjum henni. Fyrst suður í Álftavatnakrók og síðan suður um hæðirnar austan og sunnan Svartahnjúks, komum þar í 600 metra hæð. Slóðin beygir til vesturs niður úr hálsunum, síðan suðvestur sandinn suður fyrir Mælifell og síðan til vesturs um Brennivínskvísl, sunnan við Slysaöldu, í 600 metra hæð, og þaðan beint vestur að vaði á Kaldaklofskvísl. Frá því förum við norður með Hvanngilshausum að vestanverðu inn að skálunum í Hvanngili, í 570 metra hæð.

46,7 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Skælingar, Hólaskjól, Ljótarstaðaheiði, Öldufell, Laufafell, Krókur, Mosar.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Strútslaug.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson