Punktar

Prófessorar eru hættulegir

Punktar

Nornaveiðar standa nú yfir í Bandaríkjunum. Háskólakennarar og einkum prófessorar eru sakaðir um vinstri villu. Sérstakar vefsíður hafa verið opnaðar með ákærum á hendur tugum prófessora fyrir ummæli um, að farið hafi verið í stríð við Írak á lognum og röngum forsendum og að of mikið hafi verið stutt við Ísrael. Slík ummæli þykja jaðra við landráð og drottinsvik þar í landi. Fremstir í flokki þeirra, sem vilja hreinsa landið af prófessorum eru repúblikanarnir Andrew Jones og David Horowitz, sem gaf út bókina The Professors um hundrað hættulegustu prófessorana.

Genfarsáttmáli úreltur

Punktar

John Reid stríðsráðherra Bretlands sagði í gær, að Genfarsáttmálinn um meðferð fanga og óbreyttra borgara í stríði væri úreltur. Hann telur Bretland og Bandaríkin ekki hafa svigrúm til að pynda fanga og valda ógn og skelfingu í þriðja heiminum. Samkvæmt þessu er Bretland sammála Bandaríkjum um rekstur pyndingabúða og um loftárásir á óbreytta borgara í þriðja heiminum. Um helgina kom líka í ljós, að brezki herinn rak pyndingabúðir fyrir kommúnista upp úr síðari heimsstyrjöldinni. Það er gömul saga, að engilsaxnesku ríkin hrokafullu telja sig yfir lög og rétt hafin.

Formið og innihaldið

Punktar

Ekki dettur mér í hug að skrifa um tónlist, af því að ég hef ekki vit á henni. En dr. Gunna dettur í hug að skrifa ítrekað um matargerðarlist, þótt hann sé þar greinilega úti að aka. Hann er hrifinn af sushi á efri hæði Iðu, þótt þar aki réttirnir á færibandi um borðið, hring eftir hring, klukkustund eftir klukkustund. Hins vegar er eðli sushi, að það er ekki búið til fyrr en eftir pöntun. Dr. Gunni hrífst af forminu, en skilur ekki innihaldið. Hann getur fengið gott sushi í næstu götu, á Maru í Aðalstræti, þar sem sushi er alltaf búið til eftir pöntun. Prófaðu silungshrognin.

Hrafninn tekur við

Punktar

Hrafninn er orðinn að einkennisfugli Seltjarnarness. Tugum saman vokir hann yfir hreppnum og hreppstjóranum, þótt mér finnist þar hljóta að vera lítið æti fyrir hrafn, síðan menn hættu að gera þar að fiski. En hann deyr ekki bjargarlaus og leitar sér að fæðu í fjörunni, þar sem hann hefur greinilega hrakið brott mávana, sem áður fóru um í flokkum. Æðarfugl lætur sér hins vegar fátt um hrafninn finnast. Gaman væri að vita, hvað sérfræðingar segja um þessa breytingu á fuglalífi, hvort þetta er í stíl við önnur pláss eða hvort þetta er ný hegðun hjá hrafninum.

Tínir upp rusl

Punktar

Þegar ég geng umhverfis Seltjarnarnesið, er ég stundum í humátt á eftir manni, sem fer svo hratt yfir, að ég næ honum ekki. Þess vegna veit ég ekki, hver hann er. Stundum lýtur hann niður og tínir upp rusl, sem hann lætur snyrtilega í næsta ruslakassa á leiðinni. Þetta er maðurinn á bak við tjöldin, sá sem hreinsar ruslið, sem aðrir henda. Ég held, að þessi ágæti maður eigi erindi í skólana til að kenna unglingum mannasiði, sem eru af allt of skornum skammti. Listin að taka upp rusl annarra má ekki hverfa hjá þjóð, sem hefur tapað sér í núinu.

Rollulaust nes

Punktar

Þegar kallarnir á Nesinu eru farnir að vinna í bankanum á morgnana, henda kellingarnar út hundunum, meðan þær fá sér kaffi og gefa mér auga. Greyin standa úti eins og illa gerðir hlutir og kunna ekki annað en að gelta og góla. Sú hefur raunar verið sérfræði íslenzkra hunda um aldir. Jafnan var fátt um sauðfé í túnum Seltirninga á fyrri öldum og áratugir eru síðan síðasta rollan hvarf þaðan og varð fáum harmdauði. Gott er þá til þess að vita, að vösk sveit þjóðlegra hunda er á varðbergi á Seltjarnarnesi gegn þeim vágesti, sem sauðfé er hvarvetna í túnum annarra hreppa.

Gallup bullar enn

Punktar

Gallup hefur gefið út enn eitt bullið, sem gengur undir nafninu skoðanakönnun. Fyrir Samtök verzlunar og þjónustu hefur fyrirtækið spurt um viðhorf fólks til einkarekstrar í heilbrigðisgeiranum án þess að leiða í ljós, hvort fólk vill borga fyrir einkarekna þjónustu eða hvort það játar henni upp á þau býti, að hún sé ókeypis. Svona kannanir eru til skammar í bransanum, en eru allt of tíðar, því að Gallup og félagar flaðra upp um viðskiptavini sína og spyrja aðeins að því, sem kemur þeim vel, og birta aðeins það, sem kemur þeim bezt.

3% Framsókn

Punktar

Þegar fylgi Framsóknar í Reykjavík er komið niður í 3%, er ekkert orðið eftir nema sá hópur óvinnufærra utanbæjarmanna, sem hefur fengið vinnu hjá ríkinu út á flokkinn. Aðrir eru flúnir. Enda er óeðlilegt, að pupullinn á mölinni kjósi flokkinn, sem áratugum saman hefur setið í landstjórn og lagt þar Reykjavík í einelti. Raunar flokkast undir sjálfseyðingarhvöt hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu að kjósa Framsókn, því að leynt og ljóst hefur flokkurinn reynt að mismuna því. 3% fylgi er aðeins eðlileg niðurstaða af því verki. Og megi sú útkoma haldast óbreytt sem lengst.

Nítján eyður

Punktar

Nítján lokuð verzlunarpláss taldi ég á leið minni niður Laugarveg í gær. Í síðustu jólaös taldi ég þau einu sinni vera átta. Þetta segir mér þá sögu, að Laugavegur sé ógirnileg verzlunargata, enda er þar ekki hægt að fara úr einkabílnum undir þaki og ganga í búðir í friði fyrir regni og vindi. Fyrir nokkrum áratugum var talað um að byggja gegnsætt þak yfir Laugaveginn, en það reyndist hægara sagt en gert, svo að ekki varð úr verki. Laugavegurinn verður samt aldrei nothæf verzlunargata, fyrr en menn átta sig á, að fólk vill ekki verzla í úlpum, með hor í nös.

Varnarliðið er sóun

Punktar

Brottför varnarliðsins í miðjum samningaviðræðum sýnir, að illa er komið fyrir heimsveldinu. Bandaríkin ramba á brún gjaldþrots vegna skuldasöfnunar og þurfa að spara útgjöld á óþörfum stöðum á hnettinum. Fjárvana heimsveldi getur ekki leyft sér að hafa orrustuþotur og þyrlur á Íslandi meðan jörðin brennur undir því annars staðar, svo sem í helztu olíuríkjum heims, Írak og Íran. Varnarliðið fer, af því að það hefur engan tilgang í heimsveldi, sem ekki hefur fé, hermenn og tæki til að halda stöðu sinni og verður að velja þau stríð, sem brýnust eru talin hverju sinni.

Bændur brenna sinu

Punktar

Bændur hafa tröllatrú á sinubrunum, sem náttúrufræðingar segja gagnslausa. Bændur telja, að eftir bruna komi gróður, sem gefi fleiri fóðureiningar á fermetrann. Þegar bruninn fer úr böndum, er sígarettum kennt um. Þannig var það líka á Spáni og í Portúgal fyrir ári. Þar kom þó í ljós við nánari rannsókn, að bændur höfðu kveikt næstum alla eldana, til að stækka akrana. Þegar búið er að brenna heilan hrepp á Mýrum, er kominn tími til að banna þessa bábilju, hvað sem bændur segja um kosti sinubruna. Sýslumenn, sem leyfa bruna, eiga að fá sér aðra vinnu.

Serbar eru viðræðuhæfir

Punktar

Evrópusambandið hefur gefizt upp á að neita Serbíu um fundi um undirbúning aðildar landsins að sambandinu, þótt Ratko Mladic og Radovan Kardzic hafi ekki enn verið afhentir, heilum áratug eftir stríðsglæpi þeirra. Þetta er líkt öðru hjá hinu friðsæla bandalagi. Það rífur kjaft út og suður, en hefur ekki bein í nefinu til að standa við hótanir. Það rífur kjaft við Íran, en leggur svo skottið milli fótanna. Það rífur kjaft við Bandaríkin og flaðrar svo upp um þau. Enginn tekur lengur mark á hótunum sambandsins. Viðræður þess við Serbíu hefjast eftir helgi.

Sæll er sá sem trúir

Punktar

Samningamenn Íslands hafa ekki vit á samningum við heimsveldi. Þeir munu nú gera samning við Bandaríkin um einhverja framvindu óbeinna varna á Íslandi, væntanlega gegn auknum stuðningi Íslands við hryðjuverkin í Írak. Um leið og blekið þornar á samningnum, byrja Bandaríkin að svíkja hann. Þau gera það, af því að það er bandarísk stefna að svíkja samninga. Stjórnvöld þar á bæ telja alla samninga milli ríkja vera marklausa. Þau geti einhliða og fyrirvaralaust hætt að fara eftir þeim. Ísland er eina land heimsins, sem enn trúir á samninga við Bandaríkin.

Málfundur í menntaskóla

Punktar

Pólitíkin hér á landi er full af engu. Umræður á þingi eru ekki um mál, sem máli skipta, svo sem um aðild Íslands að Evrópu og hnattvæðingu eða um truflað jafnvægi milli markaðsbúskapar og velferðar. Íslenzkir þingmenn tala hins vegar um álver, eins og ríkið sé fyrirtæki í braski úti í bæ, eða um að kvelja opinbera starfsmenn með því að flytja stofnanir þeirra á Krókinn, sem væntanlega er við endimörk hins byggilega heims. Alþingi hefur lítið að gera og minnir mig á hangs menntaskólanema á Skalla, ræðuhöld þeirra minn á málfund í menntaskóla.

Aðferð múslima

Punktar

Ef kristinn maður finnst í Afganistan, er hann dæmdur til dauða, nema hernámsliðið grípi í taumana og hóti öllu illu. Manninum var sleppt gegn því að hann hypjaði sig. Hvernig væri að prófa þetta sama í Evrópu, dæma alla múslima til dauða og segja þeim, að þeir geti bjargað sér með því að flýja til einhvers ríkis múslima að frjálsu vali? Samanburðurinn sýnir í hnotskurn muninn á vestrænum hefðum og hefðum múslima. Danir treysta sér ekki einu sinni til að reka út klerk, sem hótar þeim manndrápum vegna teikninga af hvimleiðum spámanni múslima.