Pólitíkin hér á landi er full af engu. Umræður á þingi eru ekki um mál, sem máli skipta, svo sem um aðild Íslands að Evrópu og hnattvæðingu eða um truflað jafnvægi milli markaðsbúskapar og velferðar. Íslenzkir þingmenn tala hins vegar um álver, eins og ríkið sé fyrirtæki í braski úti í bæ, eða um að kvelja opinbera starfsmenn með því að flytja stofnanir þeirra á Krókinn, sem væntanlega er við endimörk hins byggilega heims. Alþingi hefur lítið að gera og minnir mig á hangs menntaskólanema á Skalla, ræðuhöld þeirra minn á málfund í menntaskóla.