Brottför varnarliðsins í miðjum samningaviðræðum sýnir, að illa er komið fyrir heimsveldinu. Bandaríkin ramba á brún gjaldþrots vegna skuldasöfnunar og þurfa að spara útgjöld á óþörfum stöðum á hnettinum. Fjárvana heimsveldi getur ekki leyft sér að hafa orrustuþotur og þyrlur á Íslandi meðan jörðin brennur undir því annars staðar, svo sem í helztu olíuríkjum heims, Írak og Íran. Varnarliðið fer, af því að það hefur engan tilgang í heimsveldi, sem ekki hefur fé, hermenn og tæki til að halda stöðu sinni og verður að velja þau stríð, sem brýnust eru talin hverju sinni.