Þegar ég geng umhverfis Seltjarnarnesið, er ég stundum í humátt á eftir manni, sem fer svo hratt yfir, að ég næ honum ekki. Þess vegna veit ég ekki, hver hann er. Stundum lýtur hann niður og tínir upp rusl, sem hann lætur snyrtilega í næsta ruslakassa á leiðinni. Þetta er maðurinn á bak við tjöldin, sá sem hreinsar ruslið, sem aðrir henda. Ég held, að þessi ágæti maður eigi erindi í skólana til að kenna unglingum mannasiði, sem eru af allt of skornum skammti. Listin að taka upp rusl annarra má ekki hverfa hjá þjóð, sem hefur tapað sér í núinu.