Author Archive

Já, værum við í Eden.

Greinar

“Einn skuttogara og skóla á mann, fríar íbúðir og matvæli, daglegan ný- iðnað og algert skattfrelsi.” Þetta er ýkt mynd, en þó með sannleikskjarna, af óskhyggjustefnu allra íslenzku stjórnmálaflokkanna. Þeir vilja gera allt fyrir ekkert.

Þessi óskhyggjustefna leiðir til allt annars raunveruleika, það er árlegrar útþenslu ríkisgeirans á kostnað annarra geira þjóðfélagsins. Stjórnmálamenn þurfa sífellt meiri peninga til að efna lítið brot loforða sinna.

Mikið óskaplega væri það fersk og hressileg tilbreytni, ef einhver stjórnmálaflokkurinn eða landsfaðirinn gengi fram fyrir skjöldu og segði sannleikann, – ef hann vildi gera svo vel að byrja á byrjuninni.

Við höfum svo og svo miklar þjóðartekjur á ári. Þessar þjóðartekjur eru sumpart notaðar til neyzlu og sumpart til fjárfestingar. Þær eru líka sumpart notaðar af hinu opinbera, atvinnuvegunum og almenningi.

Það er hægt að hafa skoðun á æskilegum hlutföllum þessara þátta. Til dæmis, að fólkið skuli nota 74% þjóðartekna, hið opinbera 14% og atvinnulífið 12%. Slíkt mundi byggjast á mati á, hvaða geirar þjóðfélagsins eigi að hafa meiri forgang en aðrir.

Sumir mundu segja, að atvinnulífið þyrfti meira til hraðari uppbyggingar þjóðarauðs. Aðrir mundu segja, að velferðarríkið þyrfti meira til hraðara réttlætis. Aðrir mundu segja, að fólkið sjálft þyrfti meiri rauntekjur.

Hægt er að sundurgreina þessar prósentutölur enn frekar. Til dæmis, að einkaneyzla (rauntekjur) skuli vera 68% þjóðartekna, samneyzla (rekstur hins opinbera) 8%, fjárfesting í íbúðum 6%, í atvinnuvegum 12% og 6% hjá hinu opinbera.

Þessi raunsæja hugsun, að milli verðmæta verði að velja, krefst sennilega nýrrar tegundar þjóðhagsreikninga. Þar þyrfti að koma fram, að sum fjárfesting ríkisins, til dæmis í orkuverum og hitaveitum, er atvinnulífs eðlis.

Burtséð frá slíkum annmörkum, sem leysa má, er líka hægt að sundurgreina liðina enn frekar. Sem dæmi má nefna samneyzluna og opinberu fjárfestinguna, sem samanlagt eru viðfangsefni fjárlaga ríkis og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.

Einhvern tíma kemur að því, að alþingi og ríkisstjórn neyðast til að standa andspænis þeirri staðreynd, að niðurstöðutala fjárlaga sé föst og fyrirfram ákveðin. Hún sé hreinlega byggð á pólitísku mati á hluta ríkisbús í þjóðarbúi.

Þar með er komið upplagt tækifæri til að velja og hafna í einstökum þáttum ríkisbúskaparins. Þá er ekki reiknað á ímynduðum þörfum, nýjum eða hefðbundnum. Í staðinn er byggt á því fé, sem er til ráðstöfunar. Þegar til dæmis er búið að ákveða, að ríkið fái 6% þjóðartekna til rekstrar og 4% til fjárfestingar, er hægt að skipta fénu niður á einstaka þætti. Svo og svo mikið til menntamála, utanríkismála, landbúnaðarvitleysu o.s.frv.

Þannig gætu stjórnmálaflokkarnir minnkað möguleika á hinu gífurlega tjóni, sem þeir nú valda almenningi og atvinnulífi með gegndarlausri óskhyggju, er byggist á notkun þjóðartekna, sem ekki eru til.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Verzlað með eigur annarra.

Greinar

Danir munu innan Efnahagsbandalagsins styðja óskir Íslendinga um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögu Grænlands. Þetta sagði utanríkisráðherra Danmerkur, Kjeld Olesen, þegar hann var hér í opinberri heimsókn um daginn.

Loforðið er vinsamlegt eins og búast mátti við af dönskum stjórnvöldum. Það er nýtt dæmi af mörgum um þægileg samskipti Dana og Íslendinga á undanförnum áratugum. Þar gildir ekki ágengni norskra stjórnvalda.

Hins vegar segir loforðið raunalega sögu af völdum á Grænlandshafi. Þau eru ekki í höndum Grænlendinga, ekki einu sinni Dana, heldur Efnahagsbandalags Evrópu. Og þar koma Danir bara fram sem þrýstihópur.

Fiskimiðin við Grænland eru hluti af sameiginlegu hafsvæði bandalagsins. Það ráðskast með þau í samræmi við hagsmuni sína sem heildar og notar þau sem verzlunarvöru í samningum við önnur ríki, þar á meðal Ísland.

Í sumar fóru íslenzkir embættismenn til Efnahagsbandalagsins og sömdu um loðnuveiðar Íslendinga í grænlenzkri fiskveiðilögsögu á þessu ári. Eftir er að semja til frambúðar. Og þá koma til sögunnar kröfur um gagnkvæmni.

Erfitt er að sjá, hvaða veiðiheimildir væri hægt að veita Efnahagsbandalaginu hér við land. Einnig er ekki auðvelt að sjá, að við höfum efni á að veita bandalaginu löndunarrétt á fiski af Grænlandsmiðum.

Sjálfsagt er að halda áfram viðræðum við Efnahagsbandalagið og reyna að þæfa málið okkur í hag, með góðri aðstoð Dana. Fiskifræðingar aðila munu hittast í þessum mánuði og embættismenn í hinum næsta.

Um leið megum við ekki gleyma, að enginn þessara aðila á nokkurn siðferðilegan rétt á miðum Grænlands. Danir og Efnahagsbandalagið eiga hann ekki fremur en við. Þeir, sem réttinn eiga, eru hins vegar ekki spurðir.

Efnahagsbandalagið verzlar með auðlindir Grænlands án þess að spyrja Grænlendinga ráða. Enginn getur verið viss um, að Grænlendingar muni endalaust sætta sig við nýlendustefnu bandalagsins. Og þeir bíta raunar á jaxlinn.

Grænlendingar hafa náð sér í heimastjórn. Þeir eru um þessar mundir að efla þjóðarvitund sína. Danahatur fer vaxandi, einkum meðal unga fólksins. Það óttast, að verið sé að ræna auðlindir þess í landi og í sjó.

Grænlendingar eru enn undirþjóð í eigin landi. Mjög fáir þeirra hafa stundað háskólanám, enda yfirþjóðin ekki hvatt til slíks. Heimamenn eru nýlega búnir að fá sömu laun fyrir sömu vinnu, en hafa enn lakari störfin.

Fastlega má gera ráð fyrir, að Grænlendingar muni nota heimastjórnina til að færa sig upp á skaftið og efla sjálfstæði sitt. Við þekkjum fyrirbærið, því að þetta er brautin, sem við gengum sjálfir á sinum tíma.

Eitt skref Grænlendinga, sem blasir við, er úrsögn þeirra úr Efnahagsbandalaginu. Á annan hátt geta þeir ekki tryggt, að auðlindir hafsins verði notaðar beint eða óbeint í þeirra eigin þágu, en ekki sem verzlunarvara.

Það getur því verið, að við séum að semja við aðila, sem ekki á það, er hann vill bjóða í skiptum. Þess vegna er tímabært fyrir íslenzk stjórnvöld að hefja vinsamleg samskipti við landsstjórnina á Grænlandi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vestur-Þýzkalandisering.

Greinar

Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, taldi heppilegt að auka viðskipti austurs og vesturs. Það mundi slaka á spennunni og gera Austur-Evrópu háðari Vesturlöndum í tækni og fjármálum.

Þetta fór saman við opnunina til austurs, stefnu kanzlara Vestur-Þýzkalands, þeirra Willy Brandt og Helmut Schmidt. Enda hefur ekkert ríki verið athafnasamara í austantjaldssamningum en Vestur-Þýzkaland.

Vestræn iðnfyrirtæki hafa reist heilu verksmiðjurnar í Austur-Evrópu, allt frá hönnun yfir í blómin í garðinum. Þau hafa flutt austur heilu framleiðsluraðirnar fyrir þessar verksmiðjur, t.d. í bílaiðnaði.

Auk fjármögnunar af þessu tagi hafa vestrænir bankar lánað ótölulega milljarða til opinberra sjóða og fyrirtækja austantjalds. Heill milljarður dala, mest af þýzku fé, rann til Póllands dagana, sem verkfallið stóð.

Þessi vestræna blóðgjöf hefur haft mikið gildi í hagkerfi, sem ekki nýtur nægilegs markaðar og hefur því tilhneigingu til að stirðna. Einkum er það vestræna tæknin, sem hefur magnað hagþróun Austur-Evrópu.

Í staðinn telja leiðtogar á Vesturlöndum, að þeir fái frið, svonefnda slökun á spennu. Þeir telja sig geta ofið saman hagkerfi austurs og vesturs svo náið, að hvorugum aðilanum henti yfirgangur og árásir.

Englandskonungar fengu skamman frið, þegar þeir keyptu af sér víkingana. Einum vetri síðar voru víkingarnir komnir aftur, hálfu vígalegri en áður og heimtuðu hálfu meira fé. Að lokum tóku þeir völdin af Englum.

Meðan leiðtogar á Vesturlöndum eru að kaupa sér friðinn, eru vestrænir iðjuhöldar og bankamenn að raka saman peningunum á austantjaldsviðskiptum. Þeir hafa beinan fjárhagslegan hag af slökun milli austurs og vesturs.

Austurviðskiptin fara ekki eftir Iögmálinu, að betra sé að vera lánardrottinn en skuldunautur. Fremur gildir reglan, að sá hefur betur, sem sterkari hefur taugarnar. Og í þessu tilviki er það eindregið skuldunauturinn.

Iðjuhöldar og bankamenn Vesturlanda fá herping í magann í hvert skipti, sem eitthvað skyggir á slökun og stefnir í voða fjárfestingu þeirra í Austur-Evrópu. Þetta er ekki Finnlandisering, heldur Vestur-Þýzkalandisering.

Hliðstæðu máli gegnir um leiðtogana, sem unnið hafa að efnahagstengslum austurs og vesturs. Þessi tengsl eru tromp hins pólitíska ferils þeirra. Þau verða að blífa, komi Afganistan og fari Afganistan.

Leiðtogar Vestur-Evrópu hafa mildari afstöðu en leiðtogar Bandaríkjanna gagnvart ýmsum yfirgangi ráðamanna Sovétríkjanna og samningsrofum þeirra. Leiðtogar Vestur-Þýzkalands hafa mildustu afstöðuna, enda hafa þeir veðjað hæst.

Þetta kom enn einu sinni í ljós í pólska verkfallinu. Á Vesturlöndum voru menn á nálum af ótta við, að verkfallsmenn gerðu eitthvað, sem kæmi elsku Gierek frá völdum eða kallaði jafnvel á Rauða herinn.

Að baki er ekki fyrst og fremst raunsæ samúð með Pólverjum. Fremur er það hið krampakennda tak margra vestrænna leiðtoga á slökunarstefnunni. Þeim finnst vera í voða bæði heiður og fjárfesting. Það er Vestur-Þýzkalandiseringin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Engir alvörumenn.

Greinar

Svið okkar er rúmlega mitt ár 1980. Þjóðhagsstofnun hefur endurskoðað spár sínar um gengi þjóðarinnar á árinu. Hún hefur með töluverðu öryggi sagt, að þjóðartekjur muni minnka um 1% og þjóðartekjur á mann um 2%.

Ljóst er, hvernig alvöru stjórnmálamenn eiga að taka slíkum upplýsingum. Þeir þurfa að ákveða, hvort reyna skuli að stefna að jöfnum samdrætti hinna stóru þátta þjóðarútgjaldanna eða einhverjum misjöfnum samdrætti þeirra.

Auðvitað eru þeir háðir þrýstihópum þjóðfélagsins í ákvörðunum sínum. Tilraunir þeirra til að skipta 1% samdrættinum jafnt eða misjafnt niður geta að meira eða minna leyti strandað á kröfuhörku aðila úti í bæ.

Einfaldast fyrir stjórnmálamenn væri að fá tjóninu jafnt skipt. Annars vegar jafnt milli neyzlu og fjárfestingar. Og hins vegar jafnt milli hins opinbera, atvinnuvega og almennings. Um slíkt fengist mestur friður.

Einkaneyzlan mundi þá minnka um 1%, íbúðafjárfesting um 1%, samneyzlan um 1%, ríkisfjárfesting um 1% og fjárfesting atvinnuvega um 1%. Hjá hagsmunaaðilum er nægileg hagþekking og sanngirni til að þola slíkt.

Svo gætu ráðamenn einnig reynt að mismuna í samræmi við einhverja pólitíska stefnu. Til dæmis væri unnt að ákveða, að ekki mætti skerða kaupmátt launa og þar með einkaneyzluna. Þá væri í staðinn reynt að skerða hina liðina um 3%.

Einnig gætu landsfeður ákveðið, að fjárfesting í atvinnuvegum væri hvílíkt grundvallaratriði, að hana mætti ekki skerða. Þá mundu þeir í staðinn reyna að skerða hina liðina um 1,1% og dreifa á þann hátt skerðingu þjóðartekna.

Stjórnmálamenn gætu borið aðra þætti fyrir brjósti, viljað vernda íbúðabyggingar, samneyzlu hinnar opinberu þjónustu eða framkvæmdir hins opinbera. Og auðvitað gætu þeir líka gefið forgang einhverri blöndu hinna fimm þátta.

Þeir gætu líka litið á málið sem val milli neyzlu og fjárfestingar, án tillits til þess, á vegum hvers hún er. Þeir gætu til dæmis ákveðið, að fjárfestingu mætti minnka, en ekki væru tök á að skerða neyzluna.

Náttúrlega er þetta einföld mynd. Árið er meira en hálfnað og svigrúm til aðgerða er því takmarkað. Ennfremur strandar góður vilji oft á utanaðkomandi fyrirstöðu, bæði þrýstihópum og ópersónulegum markaðslögmálum.

Hins vegar er langt síðan Þjóðhagsstofnun byrjaði að spá um afkomu þessa árs. Hin nýjasta og nákvæmasta er mjög svipuð hinni fyrstu og ónákvæmustu. Ríkisstjórnin vissi frá upphafi ferils síns nokkurn veginn um þjóðarhag ársins.

Í ljósi þessa er forvitnilegt að sjá, að hún hefur ekki valið neina hinna ýmsu leiða, sem hér hefur verið bent á. Hún hefur hagað sér eins og samdráttur þjóðartekna gefi tilefni til útþenslu, samneyzlu og opinberrar fjárfestingar.

Hún hefur stefnt að 2% aukningu samneyzlu eða opinberrar þjónustu á árinu. Hún er ekki fyrsta ríkisstjórnin, sem lætur sér detta slíkt í hug. En hún er sú fyrsta, sem telur aðstæður heimila 20% aukningu opinberrar fjárfestingar.

Afleiðingin er auðvitað sú, að skerðingin verður mun meiri en ella á hinum þáttunum. Íbúðabyggingar skerðast um 3% og einkaneyzlan um 2%. Enda sjáum við þessa dagana, að skattþyngdina á að auka um 5% á árinu.

En þetta eru heldur ekki alvöru stjórnmálamenn.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Sparta sigraði Aþenu.

Greinar

Sovézk stjórnvöld hafa truflað vestrænt fréttaútvarp síðan verkföllin hófust í Póllandi. Þetta brot á mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins sýnir ótta stjórnvalda við uppsteyt þræla sjálfs heimaríkisins.

Sovézk stjórnvöld vilja ekki, að íbúar Sovétríkjanna frétti af tilboðum pólskra stjórnvalda um hærri laun. Þau vilja ekki, að þeir frétti af kröfum pólskra verkamanna um frjáls verkalýðsfélög með leynilegum kosningum.

Sovézk stjórnvöld vilja ekki einu sinni, að íbúar Sovétríkjanna frétti af því, að hægt sé að fara í verkföll í Póllandi. Þau vilja ekki, að þeir frétti, að samningaviðræður geti farið fram milli stjórnvalda og verkfallsmanna.

Heimaþrælarnir í Sovétríkjunum gætu farið að láta sér detta sitt af hverju í hug, ef þeir fengju að vita, hvað íbúar sumra leppríkjanna komast upp með. Enn leynist frelsisneisti í Eystrasaltslöndunum, Úkraínu og víðar.

Sovézk stjórnvöld hafa alltaf Rauða herinn uppi í erminni, ef stjórnvöld leppríkjanna í Austur-Evrópu ganga of langt til móts við almenning. Þau beita honum ekki að gamni sínu, heldur aðeins til varnar sjálfu kerfinu.

Rauða herinn má eins nota til að skjóta Pólverja eins og Afgani. Öldum saman hafa verið miklir fáleikar milli Rússa og Pólverja. Vandinn yrði verri, ef sovézk stjórnvöld teldu sig knúin til að beita hernum gegn Rússum.

Pólskum stjórnvöldum finnst óbærilegt að hugsa til afleiðinganna af kvaðningu pólska hersins gegn verkfallsmönnum. Þau óttast réttilega, að meirihluti hermanna hlypist undan merkjum og gengi í lið með alþýðunni.

Á sama hátt væri vandasamt fyrir sovézk stjórnvöld að beita Rauða hernum í Úkraínu. Af því mundi hljótast brestur í kerfinu. Líklega yrði að beita hersveitum Asíuþjóða Sovétríkjanna til að draga úr samúð hermanna með þrælunum.

Slíkt hafa sovézk stjórnvöld neyðzt að gera í Afganistan. Þau hafa orðið að senda heim hermenn frá svæðum múhameðstrúar í Sovétríkjunum. Í staðinn hafa verið sendir aðrir, sem ekkert eiga sameiginlegt með Afgönum.

Ástandið, sem liggur að baki truflana á fréttum af gangi mála í Póllandi, er óhugnanlegt. Þar er að baki þrælaríki, sem ekkert nytsamt getur, aðeins undirróður erlendis og hernaðaríhlutun. Það er hrein og klár Sparta.

Sovétríkin og Sparta eru sérhæfð hernaðarríki. Bæði hafa þau ónýtt hagkerfi og litla framleiðni. Hinum mikilvægu markaðslögmálum hefur verið kippt úr sambandi. Þess vegna vantar frjóa verzlun og frjóa menningu.

Andspænis Sovétríkjunum standa Vesturlönd í hlutverki Aþenu nútímans. Þar eru íbúarnir ekki hermenn og þrælar, heldur frjálsir borgarar. Þar er efldur hinn gamli og síungi menningararfur frá Aþenu, hornsteini Vesturlanda.

Í gamla daga valt á ýmsu í baráttu Spörtu og Aþenu. Nú á tímum veltur líka á ýmsu. Við vonum, að íbúar Austur-Evrópu losni um síðir undan þrældómi kommúnismans. Við sjáum hvað eftir annað, að alþýðan þráir frelsið.

Því miður sjáum við engin merki þess, að upphlaup í Austur-Evrópu breyti eðli kerfisins. Og ekki er fornsagan meira uppörvandi. Að lokum var það Sparta, grá fyrir járnum, sem sigraði lífsglaða Aþenu og jafnaði múra hennar við jörðu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skjálftar farnir að mælast.

Greinar

Fyrstu jarðskjálftar stjórnarsamstarfsins hafa þegar mælzt. Stærsti kippurinn varð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson sagði, að gengislækkunarblaður Steingríms Hermannssonar væri orðið að sérstöku efnahagsvandamáli.

Skeyti Ólafs er grófasta dæmið um vaxandi spennu milli Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Þessi spenna lýsir sér bezt á síðum Þjóðviljans og Tímans, sem eru farnir að senda hvor öðrum tóninn nærri því daglega.

Tíminn svaraði árásinni á Steingrím með því að saka Ragnar Arnalds um fréttafölsun. Þetta minnir á þá tíð, er ráðamenn Sovétríkjanna skömmuðu ráðamenn Kína með því að taka ráðamenn Albaníu til bæna. Aðvörunin á að komast til skila.

Þetta er veruleg breyting til hins verra eftir margra mánaða frið í ríkisstjórninni. Þar einkenndist samstarfið til skamms tíma af gagnkvæmri tillitssemi og hófsemi í orðbragði, þegar menn voru ekki sammála.

Á þessum forsendum töldu margir stjórnina líklega til langlífis. Nú er hins vegar farið að tala um, að hún muni falla. Fordæmið var gefið í fyrra, þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag slógust upp á líf og dauða.

Þá reyndi Framsóknarflokkurinn að ganga milli hinna ólmu slagsmálaseggja. Nú er það stjórnarhluti Sjálfstæðisflokksins, sem reynir að stilla til friðar. Og eins og áður saka báðir deiluaðilar hann um að halda með hinum.

Alvarlegast er fyrir stjórnarsamstarfið, en ef til vill hagkvæmast fyrir þjóðfélagið, hversu ómerkileg eru tilefnin að missætti Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Það er eins og verið sé að búa til ágreiningsefni.

Hvorki er það merkileg né nýstárleg fréttafölsun, þótt Ragnar Arnalds reyni af veikum mætti að gera lítið úr vaxandi skattbyrði. Broslegast er, að hann er um leið að verja lög, sem fyrri fjármálaráðherrar eiga í meiri þátt en hann.

Raunar sagði Ragnar í vetur, að útkoma skattanna væri óviss og álagninguna mætti leiðrétta í sumar. Í stað þess að standa við loforðið, stritast hann við að verja lög annarra. Sjálfvirka taugakerfið ræður ferðinni.

Auðvitað er það líka slysalegt hjá Steingrími að vera að tala um gengislækkun, sem allir vita um, meira að segja Ólafur Ragnar og Alþýðusambandið. En hvern átti annars að blekkja með þögninni? Gaman væri að frétta það.

Eins og gangur himintungla er öruggur, þá er gengislækkun örugg, ef til vill í mynd gengissigs, “hraðs gengissigs í einu stökki” eins og frægt varð; “gengisbreytingar” á máli Seðlabankans. Enn er ónotað hugtakið “öfug gengishækkun”.

Gagnrýni á ofsköttun og gengislækkun ríkisstjórnarinnar er verðugt verkefni fyrir stjórnarandstöðuna. Hins vegar er það merki um óþolinmæði í stjórnarbúðunum, þegar stjórnarsinnar eru farnir að leita sér að ágreiningsefnum af því tagi.

Allar líkur benda til, að ríkisstjórnin komist yfir þröskuld samninganna við opinbera starfsmenn og geri þar með stjórnarandstöðunni mjög erfitt um vik að misnota Vinnuveitendasambandið til ófriðar á vinnumarkaði.

Búast hefði mátt við hnútum innan stjórnarliðs á öndverðum vetri, þegar alþingi er komið saman. Sú staðreynd, að þær eru þegar farnar að fljúga um borð á friðsælu sumri, bendir til, að samstarfið standi ekki á sem traustustum grunni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Bókfæra ekki gjaldþrotið.

Greinar

Bókhaldslega séð getur Gierek og pólski kommúnistaflokkurinn ekki haft rangt fyrir sér. Kenningin segir, að flokkurinn og verkalýðsfélög hans séu fulltrúar öreiganna. Aðrar skoðanir eru villutrú í Austur-Evrópu.

Pólsku verkamennirnir, sem eru í verkfalli, setja efst kröfuna um frjáls verkalýðsfélög, óháð kommúnistaflokknum. Þessi grundvallarkrafa heggur að rótum kerfisins. Enda sést greinilega, að samkomulag strandar á henni.

Kerfið er raunar löngu gjaldþrota. Pólsku verkföllin 1956, 1970, 1976 og nú 1980 sýna þetta. Yfirvöld í Póllandi njóta ekki trausts alþýðu. Hinir sjálfskipuðu fulltrúar öreigastéttarinnar hafa reynzt umboðslausir.

Harmleikirnir í Prag, Búdapest og Austur-Berlín hafa fyrir löngu sýnt, að hið eina, sem sameinar alþýðu Austur-Evrópu, er hatrið á kommúnismanum og rússnesku heimsvaldastefnunni. Hatrið hvílir á þriggja áratuga kúgun.

Í stórum dráttum eru valdhafar Austur-Evrópu hættir að flagga hugsjónum heima fyrir. Þeir eru hættir að lofa hugmyndafræðilegt gildi kommúnisma. Þeir benda bara á Rauða herinn, þegar þeir segja þjóðum sínum að hafa sig hægar.

Enn hefur ekki verið kallað á Rauða herinn í Póllandi. Slík hjálparbeiðni á sennilega langt í land. Valdhafarnir vilja sjálfir leysa málið, enda mundu sovézk afskipti örugglega leiða til skipta á pólskum valdamönnum.

Gierek hefur ekki heldur verið fært tækifæri til að beita innlendri herlögreglu. Verkamennirnir hafa lært af blóðbaðinu, sem varð 1970, þegar þeir kveiktu í skrifstofum kommúnistaflokksins. Þá féllu 45 og 1165 særðust.

Verkamennirnir halda kyrru fyrir á vinnustöðum. Þeir hafna mótmælagöngum og uppþotum. Aðgerðir þeirra eru vel hugsaðar, enda mun betur skipulagðar en nokkru sinni áður. Þeir eru kerfinu nú hættulegri en fyrr.

Hinum friðsömu aðgerðum hafa fylgt friðsamar aðgerðir stjórnvalda. Þau hafa hingað til beitt silkihönzkum. Þau hafa lofað kauphækkunum, bót og betrun, bara ef verkamennirnir hætti að naga rætur kommúnismans.

Páfinn í Róm lætur fulltrúa sína í Póllandi standa með stjórnvöldum í því að reyna að fá verkamenn til að hefja vinnu á nýjan leik. Þetta sýnir, að kirkjan hefur hagsmuni af vinnufriði í Póllandi.

Sama er að segja um yfirvöld á Vesturlöndum, sem hafa gersamlega misst málið, síðan verkföllin hófust í Póllandi. Þau telja nefnilega Gierek vera tiltölulega skikkanlegan af austrænum valdhafa að vera og vilja ekki missa hann.

Þannig tefla allir aðilar skákina einkar varlega. Allir vilja komast hjá Rauða hernum, borgarastyrjöld og blóðbaði í Póllandi. Um leið eiga menn erfitt með að trúa, að gamlingjarnir í Moskvu gangi léttúðugir til slíks leiks.

Niðurstaðan er óljós. Í fyrri verkföllum hafa stjórnvöld hækkað laun verkamanna, búið til ímynd velmegunar með innflutningi erlends fjármagns og þar með framkallað verðbólgu, sem hefur fært lífskjörin til fyrra horfs.

Í þetta sinn er sennilegt, að Gierek geti fallizt á opnari hagmálaumræðu og frjálsari kosningar á vinnustöðum til verkalýðsfélaga, en ekki ný verkalýðsfélög. Þar stendur hnífurinn í kúnni: Kommúnisminn getur ekki bókfært gjaldþrotið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Krítarkort til góðs.

Greinar

Eðlilegt er, að krítarkortum sé tekið með nokkurri varúð hér á landi. Þessi viðskiptaháttur hefur borizt óvænt til landsins. Menn þurfa tíma til að taka afstöðu til óþekktra fyrirbæra, krítarkorta sem annarra.

Umræða fjölmiðla um krítarkort hefur ekki verið mikil. Það litla, sem skrifað hefur verið, er ekki gagnrýnna eða óvægnara en við mátti búast. Þeir, sem brydda á nýjungum, verða að sætta sig við ýmis veðrabrigði.

Ef til vill er einkennilegast, að krítarkortin skuli ekki hafa komið fyrr til landsins. Svo virðist sem menn hafi almennt talið þau ólögleg. Það kemur síðan á óvart, að ekkert í lögum bannar fyrirtækjum að lána.

Alls staðar í kringum okkur eru krítarkort orðin að almennum viðskiptahætti. Upprunnin og mest notuð eru þau í Bandaríkjunum. Enda hafa menn þar í landi jafnan lagt mest til frjálsra og lipurra viðskiptahátta.

Svo er nú komið, að erfitt er að nota bílaleigubíla og hótel í Bandaríkjunum án aðstoðar krítarkorts. Þar er litið á kortleysi sem grunsamlegt fyrirbæri, sönnunargagn um fyrri óskilvísi í slíkum viðskiptum.

Bandaríkjamenn hafa langa og góða reynslu af krítarkortum. Þau eru að ýmsu leyti lipurri og öruggari en ávísanir, sem gegna nokkurn veginn sama hlutverki. Hvort tveggja leysir menn frá því að bera á sér reiðufé.

Krítarkort er ekki hægt að falsa á eins auðveldan hátt og ávísanir. Þau bera fasta eiginhandaráritun og fast númer. Að slíku er verulegt öryggi umfram ávísanir, eins og við þekkjum þær hér á landi.

Eini umtalsverði vandinn er eigin skilvísi þeirra, sem kortin bera. Hin hraða útbreiðsla þessa viðskiptaháttar um Vesturlönd bendir ekki til, að fyrirtæki óttist neytendur. Enda er sáralítið um vanskil.

Sumir segja krítarkortin vera eiturlyf, sem steypi veikgeðja fólki í skuldafen. Hér á landi er þó farið svo varlega af stað að leyfa aðeins 200.000 króna úttekt í mánuði og 80.000 króna einstakar úttektir.

Sjálfsagt er að fylgjast vel með reynslunni. Eitt og eitt skuldafen kann að myndast. Hitt er þó líklegra, að ofangreind hámörk reynist allt of lág fyrir meginþorra tekjuhás fólks, án þess að um fen sé að ræða.

Svo eru aðrir, sem segja krítarkortin auka veltuna í þjóðfélaginu og þar með verðbólguna. En þá geta menn líka alveg eins verið andvígir veltu yfirleitt. Og alvarlegs verðbólguvanda er annars staðar að leita.

Flugleiðir hafna innlendu krítarkortunum, en Arnarflug tekur þau gild. Hótel Saga hafnar þeim, en Hótel Holt fagnar þeim. Þannig ákveða fyrirtækin sjálf, hvort þau vilji þessi viðskipti, alveg eins og neytandinn.

Verzlunarbankinn hefur slegið hinum bönkunum við með því að taka upp þjónustu vegna krítarkortanna. Má búast við, að hann auki hlut sinn af heildarveltu bankakerfisins. Enda sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær.

Ekki verður séð, að kortin kosti neytendur meira en ávísanaheftin. Að öllu samanlögðu má því telja framtakið jákvætt. Og því ekki líka Visa og American Express til að koma á samkeppni í þessu eins og öðru?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Traustið er takmarkað.

Greinar

“Valdatafl” hét framhaldsflokkur í sjónvarpinu fyrir mörgum árum. Hann fjallaði um forstjóra auðugs verktakafélags. Þeir dunduðu við það í fásinninu að sitja á svikráðum hver við annan. Enda höfðu þeir peninga eins og skít.

Flugleiðir eiga hins vegar ekki peninga. Þær töpuðu sjö milljörðum í fyrra og fjórum milljörðum tapa þær í ár. Eigur fyrirtækisins eru veðsettar í bak og fyrir. Forstjórarnir ættu því ekki að hafa tíma til að dunda við valdatafl.

Vandamál Flugleiða eru svo hrikaleg, að segja þarf upp helmingi starfsliðsins til að endar nái saman. Yfirleitt er þetta gott starfsfólk. Sama er ekki hægt að segja um toppinn, þar sem engin fækkun á sér stað.

Þar að auki er mjög erfitt að trúa, að engar annarlegar ástæður séu í bland við hreinsanir hjá Flugleiðum. Þær minna að sumu leyti á viðleitni austrænna valdhafa til að festa sig í sessi. Menn eru Sigurðarmenn eða …

Athyglisvert er, að hreinsunin á toppnum tekur ekki mið af tveimur örlagaríkum mistökum, sem ráðamenn Flugleiða hafa gert eftir sameininguna. Þessi mistök voru rangt val flugvéla og skortur á viðbragðsflýti.

Ekki voru valdar sparneytnar flugvélar á borð við Tri-Star, heldur keyptar eyðslufrekar DC-8 flugvélar, sem nú eru illseljanlegar. Ekki var keypt Boeing 747 breiðþota, heldur DC-10, sem hentar verr til vöruflutninga í bland.

Í kjölfar eldsneytishækkana er afleiðingin sú, að flogið er með tapi, þótt sætanýtingin á Norður-Atlantshafinu sé 100% dögum saman. Þar eru eyðslufrekar vélar langtum þyngri á metunum en há laun sumra flugliðanna.

Langt mál mætti skrifa um mismun flugvélategunda. En það eitt segir næga sögu, að sumar tegundir eru léttar í endursölu og verðmiklar, en aðrar þungar í sölu og verðlitlar. Á því sviði hafa Flugleiðir orðið fyrir hnekki.

Ekki er síður alvarlegt, hversu seinlega Flugleiðum gekk að bregðast við taprekstrinum. Er fyrirtækið þó svo stórt, að stjórnun ætti að vera nógu nýtízkuleg til að flytja slíkar upplýsingar með rafeindahraða.

Við nútíma stjórnun vita ráðamenn samstundis, þegar gróði breytist í tap. Aðvörunarbjöllurnar eru raunar búnar að hringja, áður en tapið byrjar að myndast. Í slíkum fyrirtækjum verður ekkert tap, því að varnir eru nógu hraðar.

Ráðamenn Flugleiða virðast hins vegar hafa setið mánuðum saman með hendur í skauti, önnum kafnir við valdatafl, meðan óveðursskýin hrönnuðust upp, til dæmis árið 1978, áður en tapið varð geigvænlegt.

Það var ekki fyrr en á sumri sjö milljarða tapársins í fyrra, að fjöldauppsagnir hófust. Og verulegur samdráttur í sætaframboði varð fyrst á því ári, sem nú er hálfnað. Ráðamenn sváfu frameftir meðan húsið brann.

Víst er algengt að hengja bakara fyrir smið. Og valdataflsmenn Flugleiða mættu gjarnan líta sjálfum sér nær, þegar þeir senda næstu uppsagnarbréf. Úr fjarlægð sýnist sem stærstu mistökin hafi verið framin á toppnum.

Svo virðist sem þetta verði brátt ekki mál hluthafa einna, ef skattgreiðendur fara að hlaupa undir bagga. En sú auma hjörð vill gjarna geta borið fullt traust til þeirra, sem um fjalla. Og á það skortir nokkuð um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Brjóstvörn neytenda.

Greinar

Vísitala neytendasíðu Dagblaðsins hefur á tveimur árum hækkað um tæplega níu prósentustig umfram hina opinberu vísitölu. Þannig hefur Dagblaðið getað mælt árangur stjórnmálamanna og embættismanna í vísitölufölsun.

Vísitala Dagblaðsins er fundin úr heimilisbókhaldi kunningja blaðsins um allt land. Þeir senda blaðinu mánaðarlega upplýsingaseðla með niðurstöðum heimilisbókhaldsins. Úr þessum seðlum má lesa verðhækkanirnar.

Yfir vísitölu Dagblaðsins liggja engir stjórnmálabraskarar, sem ákveða, hvað skuli taka út úr vísitölunni hverju sinni. Og hún er bara eitt dæmi af mörgum um árangursríkt starf Dagblaðsins í þágu neytenda.

Frægt varð tómatamálið fyrir tveimur árum, þegar blaðið birti mynd af stórum breiðum góðra tómata, sem fleygt hafði verið á haugana. Baráttan í kjölfarið leiddi til útsöluverðsins, sem síðan hefur verið á grænmeti á hátímanum.

Hinir þröngsýnu forsvarsmenn framleiðenda héldu því fram, að stórlækkun tómataverðs mundi auka söluna um 5-10%. Reynslan varð samt sú, að salan jókst um 300%, þegar garðyrkjumenn létu undan herferð Dagblaðsins.

Neytendasíða Dagblaðsins á sér aðeins rúmlega tveggja ára sögu. Á þessum stutta tíma hefur ótrúlega mikið starf verið unnið í þágu neytenda. Brot af því má sjá í aukaútgáfu Dagblaðsins, sem liggur frammi í Laugardalshöll.

Dagblaðið er þar með stórt sýningarsvæði. Þar er neytendasíðan til viðtals fyrir neytendur, sem vilja spyrja einhvers eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ástæða er til að hvetja sem flesta til að notfæra sér þessa þjónustu.

Á svæði Dagblaðsins á sýningunni Heimilið ’80 eru líka fjölmörg sýnishorn af vörum, sem fást á ótrúlega mismunandi verði. Þetta er angi af umfangsmiklum verðkönnunum neytendasíðu Dagblaðsins á síðustu árum.

En vörur eru ekki aðeins misjafnlega dýrar. Þær geta líka verið ójafnar að gæðum. Og þessa dagana birtast einmitt á neytendasíðunni niðurstöður umfangsmikils samanburðar á vörugæðum algengra neyzluvara.

Þar eru vörur frá Reykjavík og Akureyri bornar saman við vörur frá Kaupmannahöfn og New York. Annars vegar berum við saman íslenzkar vörur og erlendar og hins vegar berum við saman vörur ýmissa innlendra framleiðenda.

Neytendasíðan hefur mjög barizt fyrir endurbótum vörumerkinga og meðal annars fengið stöðvaða dreifingu á sjólaxi. Þá hefur síðan neytt Póst og síma til að endurgreiða óheimil flutningsgjöld.

Því miður hefur árangurinn ekki alltaf verið svona góður. Illræmdar einokunarstofnanir á borð við Póst og síma komast enn upp með lagabrot og aðrar ofsóknir á hendur neytendum. Þar má enn langtum betur, ef duga skal.

Versta einokunarstofnunin, sem neytendur komast í tæri við, er Grænmetisverzlun landbúnaðarins. Hún skellir skollaeyrum við nákvæmum upplýsingum um hvert hneykslismálið á fætur öðru í innflutningi og verðlagningu kartaflna.

Ein virkasta leiðin til að bæta úr þessu ástandi er aukið samstarf lesenda Dagblaðsins við neytendasíðuna. Við hvetjum þá til að ræða við Önnu Bjarnason á sýningarsvæði blaðsins í Laugardalshöll einhvern næstu daga.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fá þeir aldrei nóg?

Greinar

Opinberir aðilar munu á þessu ári auka fjárfestingu sína um 21% umfram verðbólgu, samkvæmt nýjustu tölum Þjóðhagsstofnunar. Þessi furðulega aukning gerist á ári minnkandi þjóðartekna og annarrar óáranar í landinu.

Með sama áframhaldi verður öll fjárfesting í landinu komin í hendur opinberra aðila eftir aðeins fimm eða sex ár. Þá verður engin fjárfesting á vegum almennings, samvinnufyrirtækja eða einkafyrirtækja.

Ekki er hægt að finna, að jafn hrikalegt skref í átt til sovézks hagkerfis hafi áður verið stigið hér á landi. Og svo virðist sem ráðherrar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna geri sér ekki grein fyrir hneykslinu.

Hin sovézka hagþróun brokkaði jafnt og þétt á dögum ríkisstjórna Geirs Hallgrímssonar, Ólafs Jóhannessonar og Benedikts Gröndal. Hjá Gunnari Thoroddsen er hún nú komin á harðastökk, án þess að nokkur grípi í taumana.

Hið opinbera hefur aukið fjármunamyndun sína umfram verðbólgu allan áttunda áratuginn, nema árin 1977 og 1978. Þetta stjórnleysi varð verulega alvarlegt, þegar þjóðartekjur fóru að staðna um miðjan áratuginn.

Á tíma framangreindra ríkisstjórna hefur fjármunamyndun í íbúðum fólks ekki aukizt, heldur minnkað öll árin, nema 1976 og 1977. Á sama tíma hefur fjármunamyndun í atvinnuvegunum líka minnkað, nema árin 1977 og 1980.

Þegar þjóðartekjur staðna er ekkert við því að segja, þótt fjárfesting almennings og fyrirtækja dragist saman. En hið opinbera má ekki sjálft skorast undan hliðstæðum samdrætti, eins og það gerir þó í hraðvaxandi mæli.

Sömu raunasögu er að segja í neyzlunni, þótt hægar gangi. Þjóðhagsstofnun telur svokallaða einkaneyzlu, þ.e. kaupmátt almennings, munu minnka um 2% á árinu, en svokallaða samneyzlu, þ.e. rekstur hins opinbera, aukast um 2%.

Þjóðartekjur á mann hafa með nokkrum árasveiflum staðið í stað síðan 1973. Sanngjarnt hefði verið, að á þessum tíma hefði staðan haldizt óbreytt hjá öllum aðilunum þremur, almenningi, atvinnulífi og hinu opinbera.

Það er ekki olíukreppan eða annar utanaðkomandi vandi, sem hefur valdið almenningi og atvinnulífi búsifjum þessa tímabils. Það sést greinilega af hinni einföldu staðreynd, að þjóðartekjur á mann hafa ekki minnkað.

Bölvunin er heimatilbúin. Hún felst í græðgi hins opinbera, sem alltaf er reiðubúið að fínna upp nýjar, sameiginlegar þarfir, sem endilega verði að leysa í grænum hvelli. Ríkið hefur aukið hlut sinn á kostnað almennings og atvinnuvega.

Svo standa launamenn og launagreiðendur gráir fyrir járnum andspænis hvor öðrum um þessar mundir. Launamenn þurfa kjarabætur, sem launagreiðendur geta ekki veitt, af því að hið opinbera er búið að stela fénu.

Í miðjum kjaraslagnum koma svo skattseðlarnir sem fljúgandi reiðarslag. Þeir undirstrika, að skattar eru enn einu sinni að hækka umfram verðbólgu. Þeir staðfesta, að bölvun þjóðarhags stafar af ríkisstjórninni.

Við skulum vona, að þessi stjórn eða önnur stöðvi þróunina og færi bæði samneyzlu og opinbera fjárfestingu niður í horf, sem endurspeglar þjóðartekjur hvers tíma. Að öðrum kosti fer illa fyrir Íslendingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Út og suður, norður og niður.

Greinar

Tómt mál er að tala um, hvort ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sé fjarri sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins eða ekki. Það er föst venja stjórnmálamanna að taka ekki mark á flokkssamþykktum, þegar þeir eru í stjórn.

Það væri barnaskapur að ætla, að ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar hefði stjórnað meira til hægri áttar. Við höfum reynslu af honum og vitum, að hann er nákvæmlega jafn langt til vinstri og Gunnar Thoroddsen.

Auðvitað er meira gaman að tala um leiftursókn gegn verðbólgu en niðurtalningu á verðbólgu. Niðurtalningarhjal hefur það þó umfram leiftursóknarhjal, að það lofar minna af aðgerðum, sem ekki verður staðið við.

Þegar hér er sagt, að Gunnar og Geir séu jafnlangt til vinstri, verður um leið að játa, að ekki er lengur ljóst, hvað er vinstri og hvað er hægri, hvað er út og hvað er suður, hvað er norður og hvað er niður.

Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar ákvað á sínum tíma að efla veldi Framkvæmdastofnunar ríkisins og fela “færustu kommúnistum flokksins að setjast í stjórn og kommissarastól”, svo sem Leó M. Jónsson orðaði það hér í blaðinu.

“Um leið og flokkur kemst í ríkisstjórn, er hann til vinstri, sama hvaða nafni hann nefnist. Það eina, sem skilur kommúnista að, er sú staðreynd, að annar armurinn vill, að Ísland sé áfram í NATO, hinn armurinn vill, að Ísland segi sig úr NATO.”

Þessi orð kjallaragreinar Leós eru alveg rétt. Við þau má þó bæta, að engu máli virðist skipta, hvort flokkar séu með eða móti þáttöku í Atlantshafsbandalaginu. Í ríkisstjórn bera þeir alltaf ábyrgð á þáttökunni.

Sama miðvikudaginn og grein Leós birtist var önnur kjallaragrein hér í blaðinu. Þar hélt Vilmundur Gylfason því fram, að allir íslenzkir stjórnmálaflokkar væru í rauninni að moða á miðjunni. Það er jafnrétt og hjá Leó.

“Hér á landi er það svo, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir margháttuðum ríkisafskiptum, bæjarútgerðum, landbúnaðarstefnu og Framkvæmdastofnun, svo dæmi séu tekin. Svokallaðir vinstri flokkar hafa ekki reist skorður við einkaframtaki.

Það er ekki sjáanlegur munur í þessum efnum á ríkisstjórnum, sem ýmist kalla sjálfar sig eða eru kallaðar af andstæðingum sínum til hægri eða vinstri.

Það eru einkum Morgunblaðið og Þjóðviljinn, sem reyna að halda lifi í þessari goðsögn – að hér sé um að ræða grundvallarágreining, sem öllu máli skipti. En fólkið í landinu veit betur.”

Þetta er auðvitað rétt hjá Vilmundi. Hann hefur líka rétt fyrir sér síðar í greininni, þegar hann vendir sínu kvæði í kross og segir alla stjórnmálaflokkana vera til hægri:

“… verða stjórnmálaflokkarnir íhaldssamir í bókstaflegum skilningi þess orðs. Þeir keppa að því að komast í ríkisstjórn, ekki til þess að breyta, heldur til þess að stjórna frá degi til dags.”

Staðreyndin er, að hugtök eins og hægri og vinstri, íhald, framsókn og kommúnismi hafa ekki hið minnsta gildi í íslenzkum stjórnmálum. Og hámark barnaskaparins eru tilraunir Morgunblaðsins og Vísis, Geirs og Björns hans Bjarnasonar til að fá fólk til að trúa, að stjórn Gunnars sé eitthvað öðru vísi en stjórn Geirs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vinnufriður er líklegur.

Greinar

Ríkisstjórnin er nokkurn veginn búin að sigra í fyrri hálfleik kjarasamninganna og stendur vel að vígi við upphaf hins síðari. Eftir friðinn hjá opinberum starfsmönnum verður erfitt að magna ófrið á almennum vinnumarkaði.

Kjarasamningar hafa oftast öðrum þræði verið flokks- og stjórnarpólitísk mál. Að þessu sinni er það meira áberandi en oftast áður. Leiðtogum samtaka vinnumarkaðsins eru stjórnmálin ofar í huga en sjálf samningamálin.

Mikill meirihluti leiðtoga alþýðusambandsins og bandalags opinberra starfsmanna er hlynntur frekara samstarfi ríkisstjórnarinnar. Hið sama er að segja um forustu vinnumálasambandsins. Þessir aðilar stefna eindregið að friði.

Á móti stendur meirihluti leiðtoga vinnuveitendasambandsins, sem vill ríkisstjórnina feiga. Þetta eru stuðningsmenn þess hluta Sjálfstæðisflokksins, sem er í stjórnarandstöðu. Þeir vilja gjarna lenda í slagsmálum.

Í öllu þessu er ljósast, hversu hallir undir ríkisstjórnina leiðtogar launþega eru. Nú er ekki minnzt á “Samningana í gildi”, aðalmálið fyrir tveimur árum. Þá var líka Geir Hallgrímsson við völd, en ekki Gunnar Thoroddsen.

Í þetta sinn voru leiðtogar launþega sanngjarnir og hófsamir í kröfum, að minnsta kosti í samanburði við ýmsa fyrri tíð. Þeir töluðu um nokkur prósent í stað nokkurra tuga prósenta og þæfðu málin af skynsemi.

Fyrsta bragð stjórnarsinna var óvænt útspil vinnumálasambandsins, sem stjórnarandstæðingar mættu með krók málmsmíðasambandsins. Þá sneru stjórnarsinnar yfir á hinn vænginn og náðu samkomulagi í opinbera geiranum.

Samkomulagið felur í sér 14.000 króna hækkun til hins launaminni meirihluta ríkisstarfsmanna. Ennfremur flokkatilfærslur 1000-2000 starfsmanna, hátekjusamræmingu 200-300 manna og 345 þúsund króna gólf nokkur hundruð lágtekjumanna.

Gólfið er eins konar lágmarkslaun. Það er í samræmi við vilja meirihluta leiðtoga alþýðusambandsins. Um leið er það meirihluta leiðtoga vinnuveitendasambandsins mjög andstætt. Gæti hér verið stríðni í bland?

Ekki ætti að vera erfitt að túlka samkomulagið í opinbera geiranum yfir í geira atvinnulífsins. Einstakir liðir vega að vísu misjafnlega þungt. En samt ætti að vera hægt að finna sambærilega útgjaldaaukningu atvinnulífs megin.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með baráttu Morgunblaðsins og Vísis gegn samkomulagi hjá hinum opinberu. Blöðin hafa útmálað fyrir ríkisstarfsmönnum, hversu óhagstætt fyrir þá samkomulagið sé. En án árangurs.

Þar með hefur stjórnarandstaðan hingað til sótt að ríkisstjórninni úr tveimur áttum. Annars vegar hafa opinberu samningarnir verið sagðir allt of lágir. Og hins vegar segir vinnuveitendasambandið þá allt of háa.

Með friði í opinbera geiranum má búast við betra samræmi í stjórnarandstöðunni. Blöð hennar munu nú snúast á sveif vinnuveitenda og segja atvinnulífið ekki þola samninga, sem séu jafnháir og hjá hinu opinbera.

Þessi stjórnarandstaða verður ákaflega vandspiluð. Almennt er talið, að opinberu samningarnir hafi verið hæfilegir, miðað við aðstæður, og að rétt sé að semja um eitthvað svipað í atvinnulífinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hekla í mildu skapi.

Greinar

Enn einu sinni höfum við verið heppin. Versti kafli Heklugossins er að baki án nokkurs manntjóns og án verulegs eignatjóns. Þetta ætlar að verða einn eitt túristagosið á miklu eldvirkniskeiði tveggja síðustu áratuga.

Áttin var suðlæg og flutti gjóskuna til norðurs yfir eyðimerkur hálendisins. Engar skemmdir urðu á túnum og heimahögum. Afréttur Hrunamanna slapp að verulegu leyti og Þjórsárdalur slapp alveg.

Eyðileggingin var fyrst og fremst á afrétti Holta- og Landmanna. Þar er nú alger hagleysa á stórum svæðum. Ekki var þó vitað um fjártjón, þegar þetta er skrifað. Smölun hafði gengið mjög vel á hættusvæðinu.

Vesturstraumar hraunsins hættu fljótlega og austurstraumarnir ógna ekki byggð. Nú þegar hefur dregið svo úr gosinu, að óhætt er að telja hættuna liðna hjá. Svo framarlega sem menn fara varlega á gossvæðinu.

Eyðileggingin hefði orðið hundraðföld, ef vindátt hefði borið gjóskuna yfir þéttbýl héruð Suðurlands. Hekla sýndi þar sömu tillitssemi og hún hefur oftast sýnt áður, einkum í mestu gosunum. Henni er ekki alls varnað.

Orkuverið við Sigöldu lenti í gjóskufalli á svipaðan hátt og orkuverið við Búrfell í Skjólkvíagosinu 1970. Í hvorugt skiptið varð lát á orkuframleiðslu. Virðist svo sem verin geti staðizt allt nema hraunstraum.

Ísskolunartækin fluttu vikurinn léttilega framhjá stokkum Búrfells. Gosefnamagnið, sem fór um vélarnar, var miklu minna en hættulegt getur talizt. Orkuverið hefði þolað mun meira án þess að stöðvast.

Nú hefur reynsla alvöru Heklugoss bætzt við undirhlíðagosið frá 1970. Þessi reynsla bendir til, að óhætt sé að halda áfram beizlun Þjórsár og Tungnaár og fullvirkja svæðið smám saman, svo sem ráðgert hefur verið.

Hitt er þó jafnsatt, sem margir hafa sagt, að í virku eldfjallalandi er ráðlegt að dreifa orkuverum og reisa þau að öðru jöfnu utan eldvirkra svæða. Við megum ekki hafa of mikið í húfi á einu svæði.

Eldgos eru að verða tíðari hér á landi. Mönnum fannst skammur tími líða milli Heklugossins 1947 og Öskjugossins 1961. En síðan hafa með fárra ára bili dunið yfir okkur tvö Eyjagos, margir Mývatnseldar og tvö Heklugos.

Ef til vill hefur þessi tíðni dreift kröftum undirdjúpanna. Altjend hefur ekkert hinna mörgu gosa síðustu tveggja áratuga náð slíkum hamförum, sem lýst var í gamla daga. Hin nýju gos hafa öll verið tiltölulega mild túristagos.

Hekla kom öllum á óvart í þetta sinn, þótt sumir séu vitrir eftir á. Þetta heimsfræga fjall, sem gaus aðeins fimmtán sinnum á fyrstu þúsund árum Íslandsbyggðar, er nú búið að gjósa þrisvar á einum þriðjungi aldar.

Við höfum alltaf verið að bíða eftir annarri eldstöð, sem átti samkvæmt reglunni að koma á undan Heklu. Katla hefur gosið tiltölulega reglulega á hálfrar aldar fresti og hefur nú ekki látið á sér kræla í rúma sex áratugi.

Okkur er alténd óhætt að taka okkur vara og safna sem mestri reynslu af hverju nýju gosi. Við sleppum líklega vel að þessu sinni. En við lifum áfram í viðkvæmu sambýli við orku undirdjúpa og vitum ekki, hvar hún velur sér næstu útrás.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kommissarar afnumdir?

Greinar

Efnahagsnefnd ríkisstjórnarinnar hefur komizt að hinni óvæntu og ánægjulegu niðurstöðu, að leggja beri niður kommissara Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þetta er liður í nýjum efnahagstillögum nefndarinnar.

Framkvæmdastofnunin hefur frá upphafi verið merkisberi hinnar pólitísku spillingar hér á landi. Hún tók við af bönkunum, sem áður voru í fararbroddi. Og hún hlúði betur en þeir að skilyrðum spillingarinnar.

Bankastjórar voru lengst af ráðnir eftir valdatafli stjórnmálanna. Þeir voru umboðsmenn flokka sinna við peningakassa þjóðarinnar. Það er fyrst á síðustu árum, að nýir bankastjórar eru ráðnir sem fagmenn.

Bankastjórarnir stóðu ekki og féllu með valdataflinu. Þeir héldu starfinu, þótt ríkisstjórnin að baki þeirra félli. Smám saman urðu margir þeirra minna pólitískir og ræktuðu með sér faglega hæfileika.

Landsfeður okkar höfnuðu þessu sjálfstæði bankastjóra, þegar þeir leiddu yfir þjóðina Framkvæmdastofnun ríkisins. Þar skipuðu þeir bankastjóra, sem áttu að koma og fara með nýjum ríkisstjórnum.

Þessir bankastjórar hafa frá upphafi verið kallaðir kommissarar. Þeir hafa yfirleitt verið skipaðir úr röðum þingmanna og þá þeirra, sem hafa komizt næst því að ná ráðherraembætti. Hlutverk þeirra er stórpólitískt.

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins skipti ekki um kommissara í vetur, enda var hún bara vakthafandi og mátti ekkert gera. Núverandi ríkisstjórn lét líka undir höfuð leggjast að skipta um kommissara.

Ríkjandi kommissar er úr hópi þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Sá flokkur hefur oft þótzt vera andvígur kommissarakerfinu, en hefur þó alltaf stutt það í raun. Hafa menn það til marks um fánýti stefnumála.

Kommissarinn varð frægur í síðustu kosningabaráttu, þegar hann þakkaði sér persónulega ýmsar framkvæmdir í fjórðungnum. Þessar framkvæmdir voru unnar fyrir fé frá Framkvæmdastofnun ríkisins, “hins félagslega banka”.

Félagsleg sjónarmið eru töfraorðin, þegar ekki er hægt að finna nein skynsemissjónarmið fyrir fjárveitingum. Á grundvelli félagslegra sjónarmiða er hægt að reka óhefta, pólitíska fyrirgreiðslu.

Þessi aðferðafræði byggist á velgengni verðbólgunnar. Stöðug rýrnun höfuðstóls veldur því, að lán eru að verulegum hluta gjafir. Auðvitað vilja allir fá slíkar gjafir. Og sumir hafa betri aðgang en aðrir.

Stjórnmálaspilling á Íslandi felst að verulegu leyti í, að blandað er saman stjórnmálum og úthlutun lána. Þessi tegund spillingar er ekki möguleg, ef fjárskuldbindingar eru verðtryggðar, svo sem nú er verið að reyna að gera.

Eðlilegt framhald þeirrar siðvæðingar er afnám kommissarakerfis Framkvæmdastofnunar ríkisins. Það er veigamikið skref í valddreifingu, aðskilnaði stjórnmálavalds og fjármálavalds.

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið afstöðu til þessarar tillögu efnahagsnefndar. Málið er engan veginn komið á þurrt. Meirihluti þingmanna þjóðarinnar talar fagurt, en heldur um leið dauðahaldi í fyrirgreiðslukerfið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið