Brjóstvörn neytenda.

Greinar

Vísitala neytendasíðu Dagblaðsins hefur á tveimur árum hækkað um tæplega níu prósentustig umfram hina opinberu vísitölu. Þannig hefur Dagblaðið getað mælt árangur stjórnmálamanna og embættismanna í vísitölufölsun.

Vísitala Dagblaðsins er fundin úr heimilisbókhaldi kunningja blaðsins um allt land. Þeir senda blaðinu mánaðarlega upplýsingaseðla með niðurstöðum heimilisbókhaldsins. Úr þessum seðlum má lesa verðhækkanirnar.

Yfir vísitölu Dagblaðsins liggja engir stjórnmálabraskarar, sem ákveða, hvað skuli taka út úr vísitölunni hverju sinni. Og hún er bara eitt dæmi af mörgum um árangursríkt starf Dagblaðsins í þágu neytenda.

Frægt varð tómatamálið fyrir tveimur árum, þegar blaðið birti mynd af stórum breiðum góðra tómata, sem fleygt hafði verið á haugana. Baráttan í kjölfarið leiddi til útsöluverðsins, sem síðan hefur verið á grænmeti á hátímanum.

Hinir þröngsýnu forsvarsmenn framleiðenda héldu því fram, að stórlækkun tómataverðs mundi auka söluna um 5-10%. Reynslan varð samt sú, að salan jókst um 300%, þegar garðyrkjumenn létu undan herferð Dagblaðsins.

Neytendasíða Dagblaðsins á sér aðeins rúmlega tveggja ára sögu. Á þessum stutta tíma hefur ótrúlega mikið starf verið unnið í þágu neytenda. Brot af því má sjá í aukaútgáfu Dagblaðsins, sem liggur frammi í Laugardalshöll.

Dagblaðið er þar með stórt sýningarsvæði. Þar er neytendasíðan til viðtals fyrir neytendur, sem vilja spyrja einhvers eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ástæða er til að hvetja sem flesta til að notfæra sér þessa þjónustu.

Á svæði Dagblaðsins á sýningunni Heimilið ’80 eru líka fjölmörg sýnishorn af vörum, sem fást á ótrúlega mismunandi verði. Þetta er angi af umfangsmiklum verðkönnunum neytendasíðu Dagblaðsins á síðustu árum.

En vörur eru ekki aðeins misjafnlega dýrar. Þær geta líka verið ójafnar að gæðum. Og þessa dagana birtast einmitt á neytendasíðunni niðurstöður umfangsmikils samanburðar á vörugæðum algengra neyzluvara.

Þar eru vörur frá Reykjavík og Akureyri bornar saman við vörur frá Kaupmannahöfn og New York. Annars vegar berum við saman íslenzkar vörur og erlendar og hins vegar berum við saman vörur ýmissa innlendra framleiðenda.

Neytendasíðan hefur mjög barizt fyrir endurbótum vörumerkinga og meðal annars fengið stöðvaða dreifingu á sjólaxi. Þá hefur síðan neytt Póst og síma til að endurgreiða óheimil flutningsgjöld.

Því miður hefur árangurinn ekki alltaf verið svona góður. Illræmdar einokunarstofnanir á borð við Póst og síma komast enn upp með lagabrot og aðrar ofsóknir á hendur neytendum. Þar má enn langtum betur, ef duga skal.

Versta einokunarstofnunin, sem neytendur komast í tæri við, er Grænmetisverzlun landbúnaðarins. Hún skellir skollaeyrum við nákvæmum upplýsingum um hvert hneykslismálið á fætur öðru í innflutningi og verðlagningu kartaflna.

Ein virkasta leiðin til að bæta úr þessu ástandi er aukið samstarf lesenda Dagblaðsins við neytendasíðuna. Við hvetjum þá til að ræða við Önnu Bjarnason á sýningarsvæði blaðsins í Laugardalshöll einhvern næstu daga.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið