Fá þeir aldrei nóg?

Greinar

Opinberir aðilar munu á þessu ári auka fjárfestingu sína um 21% umfram verðbólgu, samkvæmt nýjustu tölum Þjóðhagsstofnunar. Þessi furðulega aukning gerist á ári minnkandi þjóðartekna og annarrar óáranar í landinu.

Með sama áframhaldi verður öll fjárfesting í landinu komin í hendur opinberra aðila eftir aðeins fimm eða sex ár. Þá verður engin fjárfesting á vegum almennings, samvinnufyrirtækja eða einkafyrirtækja.

Ekki er hægt að finna, að jafn hrikalegt skref í átt til sovézks hagkerfis hafi áður verið stigið hér á landi. Og svo virðist sem ráðherrar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna geri sér ekki grein fyrir hneykslinu.

Hin sovézka hagþróun brokkaði jafnt og þétt á dögum ríkisstjórna Geirs Hallgrímssonar, Ólafs Jóhannessonar og Benedikts Gröndal. Hjá Gunnari Thoroddsen er hún nú komin á harðastökk, án þess að nokkur grípi í taumana.

Hið opinbera hefur aukið fjármunamyndun sína umfram verðbólgu allan áttunda áratuginn, nema árin 1977 og 1978. Þetta stjórnleysi varð verulega alvarlegt, þegar þjóðartekjur fóru að staðna um miðjan áratuginn.

Á tíma framangreindra ríkisstjórna hefur fjármunamyndun í íbúðum fólks ekki aukizt, heldur minnkað öll árin, nema 1976 og 1977. Á sama tíma hefur fjármunamyndun í atvinnuvegunum líka minnkað, nema árin 1977 og 1980.

Þegar þjóðartekjur staðna er ekkert við því að segja, þótt fjárfesting almennings og fyrirtækja dragist saman. En hið opinbera má ekki sjálft skorast undan hliðstæðum samdrætti, eins og það gerir þó í hraðvaxandi mæli.

Sömu raunasögu er að segja í neyzlunni, þótt hægar gangi. Þjóðhagsstofnun telur svokallaða einkaneyzlu, þ.e. kaupmátt almennings, munu minnka um 2% á árinu, en svokallaða samneyzlu, þ.e. rekstur hins opinbera, aukast um 2%.

Þjóðartekjur á mann hafa með nokkrum árasveiflum staðið í stað síðan 1973. Sanngjarnt hefði verið, að á þessum tíma hefði staðan haldizt óbreytt hjá öllum aðilunum þremur, almenningi, atvinnulífi og hinu opinbera.

Það er ekki olíukreppan eða annar utanaðkomandi vandi, sem hefur valdið almenningi og atvinnulífi búsifjum þessa tímabils. Það sést greinilega af hinni einföldu staðreynd, að þjóðartekjur á mann hafa ekki minnkað.

Bölvunin er heimatilbúin. Hún felst í græðgi hins opinbera, sem alltaf er reiðubúið að fínna upp nýjar, sameiginlegar þarfir, sem endilega verði að leysa í grænum hvelli. Ríkið hefur aukið hlut sinn á kostnað almennings og atvinnuvega.

Svo standa launamenn og launagreiðendur gráir fyrir járnum andspænis hvor öðrum um þessar mundir. Launamenn þurfa kjarabætur, sem launagreiðendur geta ekki veitt, af því að hið opinbera er búið að stela fénu.

Í miðjum kjaraslagnum koma svo skattseðlarnir sem fljúgandi reiðarslag. Þeir undirstrika, að skattar eru enn einu sinni að hækka umfram verðbólgu. Þeir staðfesta, að bölvun þjóðarhags stafar af ríkisstjórninni.

Við skulum vona, að þessi stjórn eða önnur stöðvi þróunina og færi bæði samneyzlu og opinbera fjárfestingu niður í horf, sem endurspeglar þjóðartekjur hvers tíma. Að öðrum kosti fer illa fyrir Íslendingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið