Danir munu innan Efnahagsbandalagsins styðja óskir Íslendinga um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögu Grænlands. Þetta sagði utanríkisráðherra Danmerkur, Kjeld Olesen, þegar hann var hér í opinberri heimsókn um daginn.
Loforðið er vinsamlegt eins og búast mátti við af dönskum stjórnvöldum. Það er nýtt dæmi af mörgum um þægileg samskipti Dana og Íslendinga á undanförnum áratugum. Þar gildir ekki ágengni norskra stjórnvalda.
Hins vegar segir loforðið raunalega sögu af völdum á Grænlandshafi. Þau eru ekki í höndum Grænlendinga, ekki einu sinni Dana, heldur Efnahagsbandalags Evrópu. Og þar koma Danir bara fram sem þrýstihópur.
Fiskimiðin við Grænland eru hluti af sameiginlegu hafsvæði bandalagsins. Það ráðskast með þau í samræmi við hagsmuni sína sem heildar og notar þau sem verzlunarvöru í samningum við önnur ríki, þar á meðal Ísland.
Í sumar fóru íslenzkir embættismenn til Efnahagsbandalagsins og sömdu um loðnuveiðar Íslendinga í grænlenzkri fiskveiðilögsögu á þessu ári. Eftir er að semja til frambúðar. Og þá koma til sögunnar kröfur um gagnkvæmni.
Erfitt er að sjá, hvaða veiðiheimildir væri hægt að veita Efnahagsbandalaginu hér við land. Einnig er ekki auðvelt að sjá, að við höfum efni á að veita bandalaginu löndunarrétt á fiski af Grænlandsmiðum.
Sjálfsagt er að halda áfram viðræðum við Efnahagsbandalagið og reyna að þæfa málið okkur í hag, með góðri aðstoð Dana. Fiskifræðingar aðila munu hittast í þessum mánuði og embættismenn í hinum næsta.
Um leið megum við ekki gleyma, að enginn þessara aðila á nokkurn siðferðilegan rétt á miðum Grænlands. Danir og Efnahagsbandalagið eiga hann ekki fremur en við. Þeir, sem réttinn eiga, eru hins vegar ekki spurðir.
Efnahagsbandalagið verzlar með auðlindir Grænlands án þess að spyrja Grænlendinga ráða. Enginn getur verið viss um, að Grænlendingar muni endalaust sætta sig við nýlendustefnu bandalagsins. Og þeir bíta raunar á jaxlinn.
Grænlendingar hafa náð sér í heimastjórn. Þeir eru um þessar mundir að efla þjóðarvitund sína. Danahatur fer vaxandi, einkum meðal unga fólksins. Það óttast, að verið sé að ræna auðlindir þess í landi og í sjó.
Grænlendingar eru enn undirþjóð í eigin landi. Mjög fáir þeirra hafa stundað háskólanám, enda yfirþjóðin ekki hvatt til slíks. Heimamenn eru nýlega búnir að fá sömu laun fyrir sömu vinnu, en hafa enn lakari störfin.
Fastlega má gera ráð fyrir, að Grænlendingar muni nota heimastjórnina til að færa sig upp á skaftið og efla sjálfstæði sitt. Við þekkjum fyrirbærið, því að þetta er brautin, sem við gengum sjálfir á sinum tíma.
Eitt skref Grænlendinga, sem blasir við, er úrsögn þeirra úr Efnahagsbandalaginu. Á annan hátt geta þeir ekki tryggt, að auðlindir hafsins verði notaðar beint eða óbeint í þeirra eigin þágu, en ekki sem verzlunarvara.
Það getur því verið, að við séum að semja við aðila, sem ekki á það, er hann vill bjóða í skiptum. Þess vegna er tímabært fyrir íslenzk stjórnvöld að hefja vinsamleg samskipti við landsstjórnina á Grænlandi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið