Út og suður, norður og niður.

Greinar

Tómt mál er að tala um, hvort ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sé fjarri sjónarmiðum Sjálfstæðisflokksins eða ekki. Það er föst venja stjórnmálamanna að taka ekki mark á flokkssamþykktum, þegar þeir eru í stjórn.

Það væri barnaskapur að ætla, að ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar hefði stjórnað meira til hægri áttar. Við höfum reynslu af honum og vitum, að hann er nákvæmlega jafn langt til vinstri og Gunnar Thoroddsen.

Auðvitað er meira gaman að tala um leiftursókn gegn verðbólgu en niðurtalningu á verðbólgu. Niðurtalningarhjal hefur það þó umfram leiftursóknarhjal, að það lofar minna af aðgerðum, sem ekki verður staðið við.

Þegar hér er sagt, að Gunnar og Geir séu jafnlangt til vinstri, verður um leið að játa, að ekki er lengur ljóst, hvað er vinstri og hvað er hægri, hvað er út og hvað er suður, hvað er norður og hvað er niður.

Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar ákvað á sínum tíma að efla veldi Framkvæmdastofnunar ríkisins og fela “færustu kommúnistum flokksins að setjast í stjórn og kommissarastól”, svo sem Leó M. Jónsson orðaði það hér í blaðinu.

“Um leið og flokkur kemst í ríkisstjórn, er hann til vinstri, sama hvaða nafni hann nefnist. Það eina, sem skilur kommúnista að, er sú staðreynd, að annar armurinn vill, að Ísland sé áfram í NATO, hinn armurinn vill, að Ísland segi sig úr NATO.”

Þessi orð kjallaragreinar Leós eru alveg rétt. Við þau má þó bæta, að engu máli virðist skipta, hvort flokkar séu með eða móti þáttöku í Atlantshafsbandalaginu. Í ríkisstjórn bera þeir alltaf ábyrgð á þáttökunni.

Sama miðvikudaginn og grein Leós birtist var önnur kjallaragrein hér í blaðinu. Þar hélt Vilmundur Gylfason því fram, að allir íslenzkir stjórnmálaflokkar væru í rauninni að moða á miðjunni. Það er jafnrétt og hjá Leó.

“Hér á landi er það svo, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir margháttuðum ríkisafskiptum, bæjarútgerðum, landbúnaðarstefnu og Framkvæmdastofnun, svo dæmi séu tekin. Svokallaðir vinstri flokkar hafa ekki reist skorður við einkaframtaki.

Það er ekki sjáanlegur munur í þessum efnum á ríkisstjórnum, sem ýmist kalla sjálfar sig eða eru kallaðar af andstæðingum sínum til hægri eða vinstri.

Það eru einkum Morgunblaðið og Þjóðviljinn, sem reyna að halda lifi í þessari goðsögn – að hér sé um að ræða grundvallarágreining, sem öllu máli skipti. En fólkið í landinu veit betur.”

Þetta er auðvitað rétt hjá Vilmundi. Hann hefur líka rétt fyrir sér síðar í greininni, þegar hann vendir sínu kvæði í kross og segir alla stjórnmálaflokkana vera til hægri:

“… verða stjórnmálaflokkarnir íhaldssamir í bókstaflegum skilningi þess orðs. Þeir keppa að því að komast í ríkisstjórn, ekki til þess að breyta, heldur til þess að stjórna frá degi til dags.”

Staðreyndin er, að hugtök eins og hægri og vinstri, íhald, framsókn og kommúnismi hafa ekki hið minnsta gildi í íslenzkum stjórnmálum. Og hámark barnaskaparins eru tilraunir Morgunblaðsins og Vísis, Geirs og Björns hans Bjarnasonar til að fá fólk til að trúa, að stjórn Gunnars sé eitthvað öðru vísi en stjórn Geirs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið