Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, taldi heppilegt að auka viðskipti austurs og vesturs. Það mundi slaka á spennunni og gera Austur-Evrópu háðari Vesturlöndum í tækni og fjármálum.
Þetta fór saman við opnunina til austurs, stefnu kanzlara Vestur-Þýzkalands, þeirra Willy Brandt og Helmut Schmidt. Enda hefur ekkert ríki verið athafnasamara í austantjaldssamningum en Vestur-Þýzkaland.
Vestræn iðnfyrirtæki hafa reist heilu verksmiðjurnar í Austur-Evrópu, allt frá hönnun yfir í blómin í garðinum. Þau hafa flutt austur heilu framleiðsluraðirnar fyrir þessar verksmiðjur, t.d. í bílaiðnaði.
Auk fjármögnunar af þessu tagi hafa vestrænir bankar lánað ótölulega milljarða til opinberra sjóða og fyrirtækja austantjalds. Heill milljarður dala, mest af þýzku fé, rann til Póllands dagana, sem verkfallið stóð.
Þessi vestræna blóðgjöf hefur haft mikið gildi í hagkerfi, sem ekki nýtur nægilegs markaðar og hefur því tilhneigingu til að stirðna. Einkum er það vestræna tæknin, sem hefur magnað hagþróun Austur-Evrópu.
Í staðinn telja leiðtogar á Vesturlöndum, að þeir fái frið, svonefnda slökun á spennu. Þeir telja sig geta ofið saman hagkerfi austurs og vesturs svo náið, að hvorugum aðilanum henti yfirgangur og árásir.
Englandskonungar fengu skamman frið, þegar þeir keyptu af sér víkingana. Einum vetri síðar voru víkingarnir komnir aftur, hálfu vígalegri en áður og heimtuðu hálfu meira fé. Að lokum tóku þeir völdin af Englum.
Meðan leiðtogar á Vesturlöndum eru að kaupa sér friðinn, eru vestrænir iðjuhöldar og bankamenn að raka saman peningunum á austantjaldsviðskiptum. Þeir hafa beinan fjárhagslegan hag af slökun milli austurs og vesturs.
Austurviðskiptin fara ekki eftir Iögmálinu, að betra sé að vera lánardrottinn en skuldunautur. Fremur gildir reglan, að sá hefur betur, sem sterkari hefur taugarnar. Og í þessu tilviki er það eindregið skuldunauturinn.
Iðjuhöldar og bankamenn Vesturlanda fá herping í magann í hvert skipti, sem eitthvað skyggir á slökun og stefnir í voða fjárfestingu þeirra í Austur-Evrópu. Þetta er ekki Finnlandisering, heldur Vestur-Þýzkalandisering.
Hliðstæðu máli gegnir um leiðtogana, sem unnið hafa að efnahagstengslum austurs og vesturs. Þessi tengsl eru tromp hins pólitíska ferils þeirra. Þau verða að blífa, komi Afganistan og fari Afganistan.
Leiðtogar Vestur-Evrópu hafa mildari afstöðu en leiðtogar Bandaríkjanna gagnvart ýmsum yfirgangi ráðamanna Sovétríkjanna og samningsrofum þeirra. Leiðtogar Vestur-Þýzkalands hafa mildustu afstöðuna, enda hafa þeir veðjað hæst.
Þetta kom enn einu sinni í ljós í pólska verkfallinu. Á Vesturlöndum voru menn á nálum af ótta við, að verkfallsmenn gerðu eitthvað, sem kæmi elsku Gierek frá völdum eða kallaði jafnvel á Rauða herinn.
Að baki er ekki fyrst og fremst raunsæ samúð með Pólverjum. Fremur er það hið krampakennda tak margra vestrænna leiðtoga á slökunarstefnunni. Þeim finnst vera í voða bæði heiður og fjárfesting. Það er Vestur-Þýzkalandiseringin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið