Eðlilegt er, að krítarkortum sé tekið með nokkurri varúð hér á landi. Þessi viðskiptaháttur hefur borizt óvænt til landsins. Menn þurfa tíma til að taka afstöðu til óþekktra fyrirbæra, krítarkorta sem annarra.
Umræða fjölmiðla um krítarkort hefur ekki verið mikil. Það litla, sem skrifað hefur verið, er ekki gagnrýnna eða óvægnara en við mátti búast. Þeir, sem brydda á nýjungum, verða að sætta sig við ýmis veðrabrigði.
Ef til vill er einkennilegast, að krítarkortin skuli ekki hafa komið fyrr til landsins. Svo virðist sem menn hafi almennt talið þau ólögleg. Það kemur síðan á óvart, að ekkert í lögum bannar fyrirtækjum að lána.
Alls staðar í kringum okkur eru krítarkort orðin að almennum viðskiptahætti. Upprunnin og mest notuð eru þau í Bandaríkjunum. Enda hafa menn þar í landi jafnan lagt mest til frjálsra og lipurra viðskiptahátta.
Svo er nú komið, að erfitt er að nota bílaleigubíla og hótel í Bandaríkjunum án aðstoðar krítarkorts. Þar er litið á kortleysi sem grunsamlegt fyrirbæri, sönnunargagn um fyrri óskilvísi í slíkum viðskiptum.
Bandaríkjamenn hafa langa og góða reynslu af krítarkortum. Þau eru að ýmsu leyti lipurri og öruggari en ávísanir, sem gegna nokkurn veginn sama hlutverki. Hvort tveggja leysir menn frá því að bera á sér reiðufé.
Krítarkort er ekki hægt að falsa á eins auðveldan hátt og ávísanir. Þau bera fasta eiginhandaráritun og fast númer. Að slíku er verulegt öryggi umfram ávísanir, eins og við þekkjum þær hér á landi.
Eini umtalsverði vandinn er eigin skilvísi þeirra, sem kortin bera. Hin hraða útbreiðsla þessa viðskiptaháttar um Vesturlönd bendir ekki til, að fyrirtæki óttist neytendur. Enda er sáralítið um vanskil.
Sumir segja krítarkortin vera eiturlyf, sem steypi veikgeðja fólki í skuldafen. Hér á landi er þó farið svo varlega af stað að leyfa aðeins 200.000 króna úttekt í mánuði og 80.000 króna einstakar úttektir.
Sjálfsagt er að fylgjast vel með reynslunni. Eitt og eitt skuldafen kann að myndast. Hitt er þó líklegra, að ofangreind hámörk reynist allt of lág fyrir meginþorra tekjuhás fólks, án þess að um fen sé að ræða.
Svo eru aðrir, sem segja krítarkortin auka veltuna í þjóðfélaginu og þar með verðbólguna. En þá geta menn líka alveg eins verið andvígir veltu yfirleitt. Og alvarlegs verðbólguvanda er annars staðar að leita.
Flugleiðir hafna innlendu krítarkortunum, en Arnarflug tekur þau gild. Hótel Saga hafnar þeim, en Hótel Holt fagnar þeim. Þannig ákveða fyrirtækin sjálf, hvort þau vilji þessi viðskipti, alveg eins og neytandinn.
Verzlunarbankinn hefur slegið hinum bönkunum við með því að taka upp þjónustu vegna krítarkortanna. Má búast við, að hann auki hlut sinn af heildarveltu bankakerfisins. Enda sveltur sitjandi kráka, en fljúgandi fær.
Ekki verður séð, að kortin kosti neytendur meira en ávísanaheftin. Að öllu samanlögðu má því telja framtakið jákvætt. Og því ekki líka Visa og American Express til að koma á samkeppni í þessu eins og öðru?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið