Svið okkar er rúmlega mitt ár 1980. Þjóðhagsstofnun hefur endurskoðað spár sínar um gengi þjóðarinnar á árinu. Hún hefur með töluverðu öryggi sagt, að þjóðartekjur muni minnka um 1% og þjóðartekjur á mann um 2%.
Ljóst er, hvernig alvöru stjórnmálamenn eiga að taka slíkum upplýsingum. Þeir þurfa að ákveða, hvort reyna skuli að stefna að jöfnum samdrætti hinna stóru þátta þjóðarútgjaldanna eða einhverjum misjöfnum samdrætti þeirra.
Auðvitað eru þeir háðir þrýstihópum þjóðfélagsins í ákvörðunum sínum. Tilraunir þeirra til að skipta 1% samdrættinum jafnt eða misjafnt niður geta að meira eða minna leyti strandað á kröfuhörku aðila úti í bæ.
Einfaldast fyrir stjórnmálamenn væri að fá tjóninu jafnt skipt. Annars vegar jafnt milli neyzlu og fjárfestingar. Og hins vegar jafnt milli hins opinbera, atvinnuvega og almennings. Um slíkt fengist mestur friður.
Einkaneyzlan mundi þá minnka um 1%, íbúðafjárfesting um 1%, samneyzlan um 1%, ríkisfjárfesting um 1% og fjárfesting atvinnuvega um 1%. Hjá hagsmunaaðilum er nægileg hagþekking og sanngirni til að þola slíkt.
Svo gætu ráðamenn einnig reynt að mismuna í samræmi við einhverja pólitíska stefnu. Til dæmis væri unnt að ákveða, að ekki mætti skerða kaupmátt launa og þar með einkaneyzluna. Þá væri í staðinn reynt að skerða hina liðina um 3%.
Einnig gætu landsfeður ákveðið, að fjárfesting í atvinnuvegum væri hvílíkt grundvallaratriði, að hana mætti ekki skerða. Þá mundu þeir í staðinn reyna að skerða hina liðina um 1,1% og dreifa á þann hátt skerðingu þjóðartekna.
Stjórnmálamenn gætu borið aðra þætti fyrir brjósti, viljað vernda íbúðabyggingar, samneyzlu hinnar opinberu þjónustu eða framkvæmdir hins opinbera. Og auðvitað gætu þeir líka gefið forgang einhverri blöndu hinna fimm þátta.
Þeir gætu líka litið á málið sem val milli neyzlu og fjárfestingar, án tillits til þess, á vegum hvers hún er. Þeir gætu til dæmis ákveðið, að fjárfestingu mætti minnka, en ekki væru tök á að skerða neyzluna.
Náttúrlega er þetta einföld mynd. Árið er meira en hálfnað og svigrúm til aðgerða er því takmarkað. Ennfremur strandar góður vilji oft á utanaðkomandi fyrirstöðu, bæði þrýstihópum og ópersónulegum markaðslögmálum.
Hins vegar er langt síðan Þjóðhagsstofnun byrjaði að spá um afkomu þessa árs. Hin nýjasta og nákvæmasta er mjög svipuð hinni fyrstu og ónákvæmustu. Ríkisstjórnin vissi frá upphafi ferils síns nokkurn veginn um þjóðarhag ársins.
Í ljósi þessa er forvitnilegt að sjá, að hún hefur ekki valið neina hinna ýmsu leiða, sem hér hefur verið bent á. Hún hefur hagað sér eins og samdráttur þjóðartekna gefi tilefni til útþenslu, samneyzlu og opinberrar fjárfestingar.
Hún hefur stefnt að 2% aukningu samneyzlu eða opinberrar þjónustu á árinu. Hún er ekki fyrsta ríkisstjórnin, sem lætur sér detta slíkt í hug. En hún er sú fyrsta, sem telur aðstæður heimila 20% aukningu opinberrar fjárfestingar.
Afleiðingin er auðvitað sú, að skerðingin verður mun meiri en ella á hinum þáttunum. Íbúðabyggingar skerðast um 3% og einkaneyzlan um 2%. Enda sjáum við þessa dagana, að skattþyngdina á að auka um 5% á árinu.
En þetta eru heldur ekki alvöru stjórnmálamenn.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið