Fyrstu jarðskjálftar stjórnarsamstarfsins hafa þegar mælzt. Stærsti kippurinn varð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson sagði, að gengislækkunarblaður Steingríms Hermannssonar væri orðið að sérstöku efnahagsvandamáli.
Skeyti Ólafs er grófasta dæmið um vaxandi spennu milli Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Þessi spenna lýsir sér bezt á síðum Þjóðviljans og Tímans, sem eru farnir að senda hvor öðrum tóninn nærri því daglega.
Tíminn svaraði árásinni á Steingrím með því að saka Ragnar Arnalds um fréttafölsun. Þetta minnir á þá tíð, er ráðamenn Sovétríkjanna skömmuðu ráðamenn Kína með því að taka ráðamenn Albaníu til bæna. Aðvörunin á að komast til skila.
Þetta er veruleg breyting til hins verra eftir margra mánaða frið í ríkisstjórninni. Þar einkenndist samstarfið til skamms tíma af gagnkvæmri tillitssemi og hófsemi í orðbragði, þegar menn voru ekki sammála.
Á þessum forsendum töldu margir stjórnina líklega til langlífis. Nú er hins vegar farið að tala um, að hún muni falla. Fordæmið var gefið í fyrra, þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag slógust upp á líf og dauða.
Þá reyndi Framsóknarflokkurinn að ganga milli hinna ólmu slagsmálaseggja. Nú er það stjórnarhluti Sjálfstæðisflokksins, sem reynir að stilla til friðar. Og eins og áður saka báðir deiluaðilar hann um að halda með hinum.
Alvarlegast er fyrir stjórnarsamstarfið, en ef til vill hagkvæmast fyrir þjóðfélagið, hversu ómerkileg eru tilefnin að missætti Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Það er eins og verið sé að búa til ágreiningsefni.
Hvorki er það merkileg né nýstárleg fréttafölsun, þótt Ragnar Arnalds reyni af veikum mætti að gera lítið úr vaxandi skattbyrði. Broslegast er, að hann er um leið að verja lög, sem fyrri fjármálaráðherrar eiga í meiri þátt en hann.
Raunar sagði Ragnar í vetur, að útkoma skattanna væri óviss og álagninguna mætti leiðrétta í sumar. Í stað þess að standa við loforðið, stritast hann við að verja lög annarra. Sjálfvirka taugakerfið ræður ferðinni.
Auðvitað er það líka slysalegt hjá Steingrími að vera að tala um gengislækkun, sem allir vita um, meira að segja Ólafur Ragnar og Alþýðusambandið. En hvern átti annars að blekkja með þögninni? Gaman væri að frétta það.
Eins og gangur himintungla er öruggur, þá er gengislækkun örugg, ef til vill í mynd gengissigs, “hraðs gengissigs í einu stökki” eins og frægt varð; “gengisbreytingar” á máli Seðlabankans. Enn er ónotað hugtakið “öfug gengishækkun”.
Gagnrýni á ofsköttun og gengislækkun ríkisstjórnarinnar er verðugt verkefni fyrir stjórnarandstöðuna. Hins vegar er það merki um óþolinmæði í stjórnarbúðunum, þegar stjórnarsinnar eru farnir að leita sér að ágreiningsefnum af því tagi.
Allar líkur benda til, að ríkisstjórnin komist yfir þröskuld samninganna við opinbera starfsmenn og geri þar með stjórnarandstöðunni mjög erfitt um vik að misnota Vinnuveitendasambandið til ófriðar á vinnumarkaði.
Búast hefði mátt við hnútum innan stjórnarliðs á öndverðum vetri, þegar alþingi er komið saman. Sú staðreynd, að þær eru þegar farnar að fljúga um borð á friðsælu sumri, bendir til, að samstarfið standi ekki á sem traustustum grunni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið