Sparta sigraði Aþenu.

Greinar

Sovézk stjórnvöld hafa truflað vestrænt fréttaútvarp síðan verkföllin hófust í Póllandi. Þetta brot á mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins sýnir ótta stjórnvalda við uppsteyt þræla sjálfs heimaríkisins.

Sovézk stjórnvöld vilja ekki, að íbúar Sovétríkjanna frétti af tilboðum pólskra stjórnvalda um hærri laun. Þau vilja ekki, að þeir frétti af kröfum pólskra verkamanna um frjáls verkalýðsfélög með leynilegum kosningum.

Sovézk stjórnvöld vilja ekki einu sinni, að íbúar Sovétríkjanna frétti af því, að hægt sé að fara í verkföll í Póllandi. Þau vilja ekki, að þeir frétti, að samningaviðræður geti farið fram milli stjórnvalda og verkfallsmanna.

Heimaþrælarnir í Sovétríkjunum gætu farið að láta sér detta sitt af hverju í hug, ef þeir fengju að vita, hvað íbúar sumra leppríkjanna komast upp með. Enn leynist frelsisneisti í Eystrasaltslöndunum, Úkraínu og víðar.

Sovézk stjórnvöld hafa alltaf Rauða herinn uppi í erminni, ef stjórnvöld leppríkjanna í Austur-Evrópu ganga of langt til móts við almenning. Þau beita honum ekki að gamni sínu, heldur aðeins til varnar sjálfu kerfinu.

Rauða herinn má eins nota til að skjóta Pólverja eins og Afgani. Öldum saman hafa verið miklir fáleikar milli Rússa og Pólverja. Vandinn yrði verri, ef sovézk stjórnvöld teldu sig knúin til að beita hernum gegn Rússum.

Pólskum stjórnvöldum finnst óbærilegt að hugsa til afleiðinganna af kvaðningu pólska hersins gegn verkfallsmönnum. Þau óttast réttilega, að meirihluti hermanna hlypist undan merkjum og gengi í lið með alþýðunni.

Á sama hátt væri vandasamt fyrir sovézk stjórnvöld að beita Rauða hernum í Úkraínu. Af því mundi hljótast brestur í kerfinu. Líklega yrði að beita hersveitum Asíuþjóða Sovétríkjanna til að draga úr samúð hermanna með þrælunum.

Slíkt hafa sovézk stjórnvöld neyðzt að gera í Afganistan. Þau hafa orðið að senda heim hermenn frá svæðum múhameðstrúar í Sovétríkjunum. Í staðinn hafa verið sendir aðrir, sem ekkert eiga sameiginlegt með Afgönum.

Ástandið, sem liggur að baki truflana á fréttum af gangi mála í Póllandi, er óhugnanlegt. Þar er að baki þrælaríki, sem ekkert nytsamt getur, aðeins undirróður erlendis og hernaðaríhlutun. Það er hrein og klár Sparta.

Sovétríkin og Sparta eru sérhæfð hernaðarríki. Bæði hafa þau ónýtt hagkerfi og litla framleiðni. Hinum mikilvægu markaðslögmálum hefur verið kippt úr sambandi. Þess vegna vantar frjóa verzlun og frjóa menningu.

Andspænis Sovétríkjunum standa Vesturlönd í hlutverki Aþenu nútímans. Þar eru íbúarnir ekki hermenn og þrælar, heldur frjálsir borgarar. Þar er efldur hinn gamli og síungi menningararfur frá Aþenu, hornsteini Vesturlanda.

Í gamla daga valt á ýmsu í baráttu Spörtu og Aþenu. Nú á tímum veltur líka á ýmsu. Við vonum, að íbúar Austur-Evrópu losni um síðir undan þrældómi kommúnismans. Við sjáum hvað eftir annað, að alþýðan þráir frelsið.

Því miður sjáum við engin merki þess, að upphlaup í Austur-Evrópu breyti eðli kerfisins. Og ekki er fornsagan meira uppörvandi. Að lokum var það Sparta, grá fyrir járnum, sem sigraði lífsglaða Aþenu og jafnaði múra hennar við jörðu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið