Fjárhúsið á Granda

Veitingar

Mathöll Grandi er eins og Mathöll Hlemmur, stæling á skyndibitahornum í mollum á borð við Kringluna. Grandi hefur útsýnið yfir höfnina og birtuna fram yfir Hlemm, en báðir staðir hafa verðlag á borð við virðulega staði með fullri þjónustu. Á Granda eru vestrænir og austrænir skyndibitar, hamborgarar og djúpsteiktur fiskur með frönskum. En enginn fiskur dagsins, þótt þarna sé ein umsvifamesta fiskihöfn landsins. Bezta deildin var Fjárhúsið. Þar fékk ég lystugt skornar og mátulega grillaðar kótilettur á €19, auðvitað með béarnaise sósu, afgreiddar á pappír með áhöldum úr plasti. Skyndibitastaðir mættu gjarna vera aðeins ódýrari en glæsihús.