C. Canal Grande

Borgarrölt, Feneyjar
Grand Canale, Feneyjar 5

Canal Grande

Breiðstræti og aðalgata borgarinnar er í rauninni fljót. Þar sem Canal Grande bugðar sig núna, var áður fyrr áll í Feneyjalóni. Á bökkum hans varð borgin til og frá upphafi hefur hann verið helzta samgönguæð hennar. Hann er varðaður um það bil 200 margra alda gömlum höllum á tæplega 4 kílómetra leið sinni um borgina.

Canal Grande er iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Almenningsbátar og leigubátar, lögreglubátar og sjúkrabátar, flutningabátar og útfararbátar, sorpbátar og gondólar eru sífellt á ferðinni fram og aftur. Á bökkunum bíður fólk eftir fari yfir vatnsgötuna eins og á rauðu ljósi í öðrum borgum.

Bátaleið 1 stanzar á flestum viðkomustöðum við Canal Grande. Flestar leiðarlýsingar hér eru miðaðar við bátastöðvarnar. Og fáir staðir í Feneyjum eru í meira en eins kílómetra göngufjarlægð frá einhverri bátastöðinni.

Við siglum frá járnbrautarstöðinni Santa Lucia, sem tengir Feneyjar við meginlandið, og ætlum til Markúsartorgs. Við förum auðvitað með leið 1, svokallaðri hraðferð, Accelerato, sem þekkist á því, að hún er hægari og kemur víðar við en aðrar leiðir.

Næstu skref

E. Andalúcia

Borgarrölt, Madrid

Sevilla

Catedral de Santa Maria, Sevilla 2

Catedral de Santa Maria

Sevilla er helzta borg Andalúsíu og var raunar öldum saman aðalborg Spánar. Hún var márísk í rúmar fimm aldir, 712-1248, svo sem enn má sjá á borgarkastalanum og bænaturni dómkirkjunnar.

Einkum varð vegur hennar þó mikill eftir landafundina í Ameríku fyrir fimm öldum. Í þá daga var skipgengt upp ána Guadalquivir til borgarinnar, svo að Amerigo Vespucci, Cristóbal Cólon (Kólumbus) og Fernao de Magalhaes (Magellan) settu svip sinn á staðinn og lögðu sumpart héðan af stað í ferðir sínar. Hér komu líka við sögu Don Júan, Don Quixote, Cervantes, Velázques og Carmen.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Sevilla er fjörug borg með rúmlega hálfa milljón íbúa, auk mikils fjölda ferðamanna, sem flykkist til borgarinnar árið um kring. Fræg er hin mikla dymbilvikuhátíð, Semana Santa, sem hefst á pálmasunnudag og stendur með daglegum skrúðgöngum í heila viku. Bræðraklúbbar keppast um að útbúa sem skrautlegasta vagna með turnum og myndastyttum. Á milli vagnanna dansar fólk og syngur.

Skömmu eftir dymbilvikuhátíðina kemur aprílhátíð, Feria de Abril, þegar menn reisa tjöld og halda uppi veizlum, dansi og söng í heila viku. Sevilla er höfuðborg dansanna flamenco og sevilliana.

Árið 1992 verður heimssýningin haldin á eyju í Guadalquivir um tveimur kílómetrum norðan við miðbæinn í Sevilla. Á sama ári verða ólympíuleikarnir í Barcelona og Madrid verður menningarhöfuðborg Evrópu, svo að Spánverjar hlakka mikið til um þessar mundir. Það ár verða einnig liðnar nákvæmlega fimm aldir síðan Kólumbus lagði af stað í fyrstu Ameríkuferð sína.

Næstu skref

Glórulaus leiðari

Fjölmiðlun

LEIÐARI Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Fréttablaðinu er vondur fyrirboði. Ber saman Geirfinnsmálið og mál Jóns Ásgeirs. Í fyrra tilvikinu voru smælingjar í löngu gæzluvarðhaldi og mánuðum saman í einangrun. Í síðara tilvikinu veltir hinn grunaði sér í peningum og er með her færustu lögmanna. Hefur þar á ofan ekki séð fangelsi að innan, hvað þá einangrun. Að líkja framvindu þessara tveggja mála er svo gersamlega út í hött, að undrum sætir. Mér sýnist það boða ferðalag Fréttablaðisins í stöðu eindreginnar og glórulausrar hagsmunagæzlu fyrir Jón Ásgeir. Breytingarnar á ritstjórn blaðsins hafa gert það ómarktækt.

Núllið í gúrkutíð

Punktar

Í gúrkutíð er gaman að rifja upp gömul rifrildismál. Deilan um árið núll hefur risið og hnigið nokkrum sinnum. Almennt nota sagnfræðingar ekki árið núll. Hjá þeim kom árið +1 (AD) næst á eftir árinu -1 (BC). Ekki hafa allir verið sammála um það eins og sést í ýmsum heimildum. Í skáldsögum hafa atburðir verið látnir gerast árið núll. Mestu máli skipti ágreiningurinn, þegar menn þurftu að velja, hvort halda ætti 1. janúar 2000 eða 1. janúar 2001 hátíðlegan sem tímamót í tilverunni. Samkvæmt siðvenju sagnfræðinga ættu þúsaldamótin að hafa verið á nýjársnótt 1. janúar 2001. Um þetta má vel rífast til að breyta til í gúrkunni.

D. San Marco

Borgarrölt, Feneyjar

Sestiere San Marco

Rio San Moise, Feneyjar

Rio San Moise

Tanginn, sem Canal Grande sveigist umhverfis frá Rialto brú að Markúsartorgi, myndar hverfi, sem kennt er við kirkjuna San Marco og er hjarta miðborgarinnar. Við förum nú í hringferð um hverfið og raunar einnig lítillega inn í aðliggjandi hverfi.

Calle Vallaresso

Við hefjum ferð okkar við suðvesturhorn Markúsartorgs, göngum út af torginu tæpa 100 metra leið eftir Salizzada San Moisè, þar sem við komum að hliðargötunum Calle Vallaresso til vinstri og Frezzeria til hægri. Við göngum þá fyrrnefndu á enda, um 150 metra leið, þar sem hún kemur fram á bakka Canal Grande.

Ein helzta gondólastöðin er þar sem Calle Vallaresso mæti
r bakkanum. Þar er oft mikill ys og þys og stundum raðir fólks, sem bíður eftir að kynnast einkennisfarartækjum Feneyja.

Merkar stofnanir eru hér á horninu, öðrum megin hinn kunni Harry’s Bar, sem Hemingway gerði frægan, og hinum megin hótelið Monaco, sem býður fjölmörg herbergi með útsýni yfir Canal Grande.

Í götunni eru einnig dýrar tízkuverzlanir og listmunaverzlanir, svo og eitt leikhús.

Næstu skref

 

 

F. Spánn

Borgarrölt, Madrid

Valencia

Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.

Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.

Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.Valencia market

Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.

Borgin

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.

Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.

Næstu skref

Vildi ekki innihaldið

Punktar

Gunnlaugur Sigmundsson keypti lífsþreytta Framsókn handa silfurskeiðungi sínum. Vildi bara firmamerkið, en lét fleygja innihaldinu. Slíkt þekkist vel í heimi viðskipta, en er nýtt í pólitíkinni. Með Sigmundi Davíð kom dólgafrjálshyggja í stað gamla miðjumoðsins. Margir framsóknarmenn hafa síðan verið í losti. Sumir hafa flúið skútuna, sem marar í 10% fylgi könnun eftir könnun. Gamla Framsókn kemur ekki aftur, hún er dauð. Líkið getur fengið inni í Bjartri framtíð. Nýja Framsókn er hliðstæð Sjálfstæðisflokknum. Kvótagreifar eiga þessa tvo flokka og vinnslustöðvagreifar eru meðeigendur að Framsókn. Þannig fer heimsins dýrð.

8. Amalienborg – Rosenborg

Borgarrölt
Rosenborg, København

Rosenborg

Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.

Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.

Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.

Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.

Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.

Svo er röðin komin að Kristjánshöfn

Næstu skref

7. Amalienborg – Østre Anlæg

Borgarrölt
Nyboder, København

Nyboder

Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.

Østre Anlæg, København

Østre Anlæg

Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.

Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.

Østre Anlæg

Statens Kunstmuseum, København

Statens Kunstmuseum

Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.

Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur.

Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra.

Næstu skref

6. Amalienborg – Den lille havfrue

Borgarrölt
Den lille havfrue, København

Den lille havfrue

Møllen ved Kastellet, København

Møllen við Kastellet

Síðan höldum við áfram út Löngulínu að Hafmeyjunni litlu, höggmynd Edvard Eriksen frá 1913, kunnasta einkennistákni Kaupmannahafnar.

Gatan sveigir hér frá sjónum og við göngum hana spölkorn, förum yfir brú og beygjum út af til vinstri í átt til Kastellet, aðalvirkis borgarinnar, reist 1662-65, en þá byggt á eldra grunni. Ytri virkin eru sumpart eyðilögð, en eftir stendur fimmstrendur kjarninn.

Þar sjáum við falleg hlið og kastalakirkjuna, sem er áföst fangelsinu á þann sérkennilega hátt, að í gamla daga gátu fangar hlýtt messu án þess að yfirgefa svartholið. Fallegust er vindmyllan, sem prýðir vesturhorn virkisveggjarins.

Næstu skref

5. Amalienborg – Gefion

Borgarrölt
Gefion brønden, København

Gefion brunnur

Þegar við komum aftur út á götuna, beygjum við til hægri og förum Breiðgötu á enda. Við göngum stuttan spöl til hægri framhjá Frelsissafninu (Frihedsmuseet), sem er timburhús handan götunnar Esplanaden. Þar eru sýndar minjar andspyrnuhreyfingarinnar dönsku frá stríðsárunum síðustu.

Að baki safnsins er Churchill-garður. Þar sjáum við álengdar ensku kirkjuna og til hægri við hana Gefjunarbrunn (Gefionspringvandet). Gosbrunnurinn sýnir, hvernig gyðjan Gefjun bjó til Danmörku með því að breyta sonum sínum í naut og beita þeim fyrir plóg, sem hún notaði til að plægja upp Skán.

Við getum haldið áfram eftir Esplanaden til að fá okkur að borða í Lumskebugten, á nr. 21. Eða farið gönguleið hjá Gefjunarbrunni út Löngulínu (Langelinie). Á leiðinni er Langelinie Pavilionen, þar sem við getum fengið snarl við ágætt útsýni.

Næstu skref

4. Amalienborg – Marmorkirken

Borgarrölt
Marmorkirken, København

Marmorkirken

Frá torgmiðju sjáum við Marmarakirkjuna (Frederikskirke) gnæfa yfir Friðriksgötu (Frederiksgade) með einn af hæstu kúplum heims, 45 metra á hæð og 30 metra á breidd, grænan af kopar. Smíði kirkjunnar hófst 1746 og varð ekki lokið fyrr en 1894.

Hér eiga hinir göngumóðu þess kost að ganga nær kirkjunni og beygja til vinstri eftir Breiðgötu (Bredgade) til Kóngsins Nýjatorgs, þar sem gangan hófst. Hinir beygja til hægri eftir sömu götu. 

Brátt komum við að Listiðnasafninu (Kunstindustrimuseet), sem er hægra megin götunnar, í fyrri húsakynnum Friðriksspítala. Þar er fjöldi fornra og nýrra listmuna, danskra og erlendra. Hægt er að ganga inn í safnið bæði frá Breiðgötu og Amalíugötu.

Næstu skref

3. Amalienborg – Amalienborg

Borgarrölt
Amalienborg, København

Amalienborg

Síðan förum við eftir Kvesthúsbrúnni (Kvæsthusbroen) meðfram innri höfninni að götunni Sankt Annæ Plads. Við beygjum til vinstri og þar eru brátt á vinstri hönd hótelið Neptun (og hádegisverðarstofan Sankt Annæ á nr. 12. Til hægri, við þvergötuna Tollbúðargötu, er hótelið Admiral í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi.

Við höldum áfram eftir Sankt Annæ Plads og beygjum til hægri inn í Amalíugötu (Amaliegade). Ef komið er hádegi, er kjörið að líta inn í áðurnefnt Sankt Annæ eða í Amalie, sem hér er framundan vinstra megin, á nr. 11. — Konungshöllin Amalíuborg er skammt undan. Við göngum inn á hallartorgið og svipumst um.

Amalienborg livvagt, København

Amalienborg lífvörður

Amalíuborg er einkar viðfelldin og sérkennileg konungshöll í fjórum höllum í svifstíl, aðskildum af krossgötum. Hallirnar mynda átthyrning umhverfis torgið. Upphaflega voru þetta hallir fjögurra aðalsmanna, en voru gerðar að konungshöll, þegar Kristjánsborg brann 1794.

Við förum undir tengibyggingu, þegar við komum inn á torgið. Hægra megin tengiálmunnar er bústaður Margrétar II Þórhildar drottningar og Hinriks prins. Vinstra megin eru veizlusalir drottningar. Í þriðju höllinni, hægra megin, býr Ingiríður, ekkjudrottning Friðriks VIII. Og í fjórðu höllinni, vin
stra megin, bjó Kristján X.

Tjúgufáni yfir höll Margrétar sýnir, hvort hún er heima eða ekki. Við stillum helzt svo til að vera hér kl. 12 til að sjá varðsveitina koma með lúðrablæstri eftir Amalíugötu inn á torgið, þegar skipt er um varðmenn með tilheyrandi serimoníum.

Hverfið umhverfis Amalíuborg heitir Friðriksbær, byggt eftir ströngum og þá nýtízkulegum skipulagsreglum um miðja átjándu öld. Göturnar eru tiltölulega breiðar og húsin einkar virðuleg. En mannlíf er hér miklu minna og fátæklegra en í gamla bænum, sem við lýstum í fyrstu gönguferð. Helzt er líf í verzlunargötunni Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade), sem liggur samsíða Amaliegade.

Næstu skref

2. Amalienborg – Nyhavn

Borgarrölt
Nyhavn, København 2

Nyhavn

Hér ætlum við að rölta til vinstri eftir Nýhöfn í átt til sjávar. En fyrst förum við spölkorn til hægri að botni Nýhafnar til að missa ekki af innstu húsunum. Við förum hægt yfir, því að hér er margt smáskrítið og skemmtilegt að sjá í gömlum skreytingum húsanna. Allt það yrði of langt mál að telja upp.

Elzta húsið við götuna er nr. 9, frá 1681. Við missum ekki af sérkennilegri klukku uppi á nr. 11 og gömlu ölkrárskilti frá 1803 á nr. 23, meðan við göngum í rólegheitum í átt til sjávar, fyrst framhjá Tollbúðargötu (Toldbodgade) og síðan Kvesthúsgötu (Kvæsthusgade), unz við nemum staðar fyrir utan hótelið Nyhavn 71 (sjá bls. 8) við enda götunnar.

Nyhavn, København

Nyhavn

Á leiðinni lítum við inn í eina eða tvær ölkrár til að finna reykinn af réttum gamla tímans, þegar þetta var hafnarhverfi Kaupmannahafnar. Erlendar tungur eru enn talaðar í öðru hverju horni, en þær eru fæstar sjómanna, heldur ferðamanna. Hnútur fljúga ekki lengur um borð né hnífar hafnir á loft.
Fleiri minningar eru bundnar við Nýhöfn en hrossahlátrar sjómanna. Ævintýraskáldið H. C. Andersen batt mikla tryggð við götuna. Hann ritaði fyrstu ævintýri sín í húsinu nr. 20, bjó með hléum 1854-64 á þriðju hæð hússins nr. 67 og varði tveimur síðustu árum ævinnar á nr. 18.

Fyrir utan hótelið Nyhavn 71, sem er innréttað í rúmlega 200 ára pakkhúsi, höfum við gott útsýni til hafnarbakka Málmeyjarbátanna, yfir innri höfnina og til Kristjánshafnar (Christianshavn) handan hennar.

Næstu skref

E. Castello

Borgarrölt, Feneyjar
Riva degli Schiavoni, Feneyjar

Castello og Riva degli Schiavoni

Castello

Við byrjum á Molo framan við Palazzo Ducale hjá Markúsartorgi.

Riva degli Schiavoni, breiði lónsbakkinn frá hertogahöllinni til austurs í átt að borgargarðinum, er sá hluti hverfisins Castello, sem flestir ferðamenn kynnast. Að baki hans eru róleg og fáfarin húsasund og hinar fornu skipasmíðastöðvar borgarinnar.

Við skoðum hluta hverfisins í annarri gönguferð, svæðin við San Zanipolo og Santa Maria Formosa. Í þessari ferð skoðum við aðra hluta hverfisins.

Riva degli Schiavoni

Við hefjum gönguna á Molo, bakkanum fyrir framan hertogahöllina, göngum til austurs yfir Ponte della Paglia út á Riva degli Schiavoni.

Vesturhluti bakkans er viðkomu- og endastöð margra áætlunarbáta á Feneyjasvæðinu. Ferðamenn koma margir hverjir hér að landi og ganga inn á Markúsartorg. Oft er því margt um manninn á vesturenda bakkans, á leiðinni milli báta og torgs. Hér eru ferðavöruvagnar og gangstéttarkaffihús.

Hér hefur jafnan verið mikið um skip og báta. Fyrr á öldum var þetta löndunarsvæði kaupmanna frá ströndinni handan Adríahafs, Dalmatíu, þar sem nú eru Slóvenía, Króatía og Bosnía. Feneyingar höfðu mikil áhrif á þeim slóðum. Þeir kölluðu íbúana Schiavoni og af því er nafn breiðbakkans dregið.

Bakkinn liggur í mjúkum sveig að lóninu og veitir gott útsýni til eyjarinnar San Giorgio Maggiore og skipaumferðarinnar á lóninu. Hann er mikið notaður til gönguferða og skokks. Hann tengir saman Bíennalinn og miðborgina. Oft eru þar sett upp tímabundin listaverk í tengslum við Bíennalinn og aðrar listsýningar í borginni.

Næstu skref