F. Spánn

Borgarrölt, Madrid

Valencia

Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.

Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.

Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.Valencia market

Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.

Borgin

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.

Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.

Næstu skref