E. Andalúcia

Borgarrölt, Madrid

Sevilla

Catedral de Santa Maria, Sevilla 2

Catedral de Santa Maria

Sevilla er helzta borg Andalúsíu og var raunar öldum saman aðalborg Spánar. Hún var márísk í rúmar fimm aldir, 712-1248, svo sem enn má sjá á borgarkastalanum og bænaturni dómkirkjunnar.

Einkum varð vegur hennar þó mikill eftir landafundina í Ameríku fyrir fimm öldum. Í þá daga var skipgengt upp ána Guadalquivir til borgarinnar, svo að Amerigo Vespucci, Cristóbal Cólon (Kólumbus) og Fernao de Magalhaes (Magellan) settu svip sinn á staðinn og lögðu sumpart héðan af stað í ferðir sínar. Hér komu líka við sögu Don Júan, Don Quixote, Cervantes, Velázques og Carmen.

Alcázar, Sevilla

Alcázar

Sevilla er fjörug borg með rúmlega hálfa milljón íbúa, auk mikils fjölda ferðamanna, sem flykkist til borgarinnar árið um kring. Fræg er hin mikla dymbilvikuhátíð, Semana Santa, sem hefst á pálmasunnudag og stendur með daglegum skrúðgöngum í heila viku. Bræðraklúbbar keppast um að útbúa sem skrautlegasta vagna með turnum og myndastyttum. Á milli vagnanna dansar fólk og syngur.

Skömmu eftir dymbilvikuhátíðina kemur aprílhátíð, Feria de Abril, þegar menn reisa tjöld og halda uppi veizlum, dansi og söng í heila viku. Sevilla er höfuðborg dansanna flamenco og sevilliana.

Árið 1992 verður heimssýningin haldin á eyju í Guadalquivir um tveimur kílómetrum norðan við miðbæinn í Sevilla. Á sama ári verða ólympíuleikarnir í Barcelona og Madrid verður menningarhöfuðborg Evrópu, svo að Spánverjar hlakka mikið til um þessar mundir. Það ár verða einnig liðnar nákvæmlega fimm aldir síðan Kólumbus lagði af stað í fyrstu Ameríkuferð sína.

Næstu skref