7. Amalienborg – Østre Anlæg

Borgarrölt
Nyboder, København

Nyboder

Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.

Østre Anlæg, København

Østre Anlæg

Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.

Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.

Østre Anlæg

Statens Kunstmuseum, København

Statens Kunstmuseum

Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.

Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur.

Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra.

Næstu skref