Of langt í burtu

Veitingar

IKEA er líklega stærsta og ódýrasta veitingahús landsins. Verðið er lægra en í mötuneytum Félagsþjónustu Reykjavíkur, hádegismatur á innan við 1000 krónur. Það er hálft veitingahúsaverð. Tveir annmarkar eru þó á. Staðurinn er of langt frá Reykjavík, þar sem fólkið er. Og maturinn er ekkert sérstaklega girnilegur, mest djúpsteikt frystivara, til dæmis bragðlausar, sænskar farsbollur. Grænmetisbollur eru miklu betri og eldislaxinn er raunar prýðilegur. Brauðmylsnukjúklingar eru aðalsöluvaran, en lítið fer fyrir lambakjötinu, sem forstjórinn lofar upp í skýin á bændafundum. Og það er langur gangur frá staðnum að útidyrum völundarhússins.