Fjölbreytt Rok á holtinu

Veitingar

Ný veitingahús eru innréttuð hvert á fætur öðru í miðborginni. Fæst þeirra eru svo áhugaverð, að ég nenni að gagnrýna. Undantekningar leynast inn á milli. Ein er lítið, notalegt og fagurlegt Rok andspænis Hallgrímskirkju. Hefur þá sérstöðu að bjóða þrjátíu rétti á um 1700 krónur hvern eða 2800 krónur fyrir tvo. Þarna eru ýmsir réttir, sem ég hef ekki séð annars staðar, margir fiskréttir, ostrur, önd og nokkur salöt. Svona margir réttir eru annars vegar spennandi, en geta yfirkeyrt álagið á eldhúsið við fullt hús gesta. En gott var það, sem ég fékk. Beztur var þorskurinn, sem var hárfínt rétt eldaður. Þetta er einn af tíu beztu í borginni.