Engar skrautfroður

Veitingar

Þrír Frakkar hjá Úlfari hafa gengið upp og niður. Meira upp að undanförnu. Hér er meira úrval af fiski dagsins en á öðrum fiskistöðum. Rauðsprettan er ætíð fín og lyktarlaus og þorskur er á hverjum degi. Einnig er á boðstólum hrefnukjöt og frábær svartfugl. Innréttingar hafa verið óbreyttar frá upphafi, einstaklega notalegar. Úlfar Eysteinsson er að mestu hættur að elda, en sonur hans, Stefán Úlfarsson, heldur uppi merkinu. Eldamennskan er að mestu leyti hefðbundin án mikillar áherzlu á nouvelle. Engar skrautfroður, fremur kartöflur og hrásalat í meðlæti. Frekar dýrt í hádeginu, um það bil 3.050 krónur fiskréttur í hádeginu.