Strandasýsla

Seljavatn

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Urriðavötn til Hellu í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi fyrst vestur með þjóðvegi og síðan áfram til vesturs á brún Urriðaár, síðan til suðvesturs vestan Himbrimavatna að Urriðavatni. Við förum til suðurs milli Seljavatns að vestanverðu og Margrétarvatns að austanverðu og loks niður að þjóðvegi 646 við Hafnarhólma.

10,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Sandneshryggur, Pyttasundshæðir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Seljanesmúli

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Eyri í Ingólfsfirði fyrir Seljanesmúla i Ófeigsfjörð.

Á Eyri eru minjar um síldarsöltun og síldarverksmiðju, sem lögð var niður 1952.

Förum frá Eyri með ströndinni vestur í Ingólfsfjörð. Þaðan er leið norður Brekkuskarð til Ófeigsfjarðar. En við förum norðnorðaustur ströndina út fyrir Seljanesmúla. Síðan suðvestur inn í Ófeigsfjörð.

12,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Krossnesmúli, Brekkuskarð, Miðstrandir, Ófeigsfjarðarheiði, Tagl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sandneshryggur

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Hvammi í Bjarnarfirði um Sandneshrygg að Kvíanesi í Steingrímsfirði.

Byrjum hjá mótum þjóðvega 653 og 655 í Bjarnarfirði, hjá brúnni við Hvamm. Förum suðvestur á Bjarnarfjarðarháls, vestan við Grjóthólmavatn og Haugsvatn. Áfram suðvestur Sandneshrygg og síðast vestur að Kvíanesi.

7,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Seljavatn, Pyttasundshæðir, Bassastaðaháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Pyttasundshæðir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Kaldrananesi í Bjarnarfirði um Pyttasundshæðir til Hafnarhólma í Steingrímsfirði.

Förum frá Kaldrananesi eftir Þórisgötu um Bringur og síðan vestan Bæjarvatna. Þaðan er slóð austan Bæjarvatna til Bakkagerðis. Við förum vestan vatnanna til suðsuðvesturs og austan við Hamarsvötn og niður hjá Margrétarfelli suður að Hafnarhólma.

9,0 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Þórisgata, Urriðavötn, Seljavatn, Sandneshryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Ófeigsfjarðarheiði

Frá Skjaldfönn á Langadalsströnd til Ófeigsfjarðar á Ströndum.

Heiðin var vel vörðuð, en margar eru fallnar.

Förum frá Skjaldfönn suðaustur Skjaldfannardal hjá eyðibýlunum Laugalandi og Hraundal, síðan austur Hraundal, sunnan megin Hraundalsár. Síðan í norðurhlíð Rauðanúps. Þar beygjum við aðeins til norðurs um Rjóður og upp á Borg í 480 metra hæð. Síðan austur yfir holtahryggi og melöldur á Ófeigsfjarðarheiði. Þar förum við norðan við vatnið Röng, förum yfir Hvalá. Síðan milli Vatnalautavatna, sunnan við stærra vatnið. Skömmu síðar komum við að Rjúkanda. Förum sunnan árgljúfranna yfir ána og norðaustur yfir ása og hjalla yfir í Húsadal og til Ófeigsfjarðar.

32,7 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Hraundalsháls, Drangajökull, Miðstrandir, Brekkuskarð, Seljanesmúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Naustvíkurskarð

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Bæ í Trékyllisvík að Naustavík í Reykjafirði.

Nafn Kaupstaðarvörðu stafar af, að þar sáu menn fyrst suður til verzlunarstaðarins Kúvíkna.

Förum frá Bæ. Gönguleiðarskilti vísar þar veginn. Förum suður og upp Naustavíkurskarð um Kaupstaðarvörðu í 260 metra hæð og síðan suður og bratt niður með Árnesá að þjóðvegi 643 í Naustavík.

4,2 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Göngumannaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Miðstrandir

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Krákutúni í Meyjardal að Húsá í botni Ófeigsfjarðar.

Í Húsavík er heit lind og setlaug upp með Húsá og þar er göngubrú yfir ána. Drangaskörð eru ein stórbrotnasta náttúrusmíð landsins.

Förum frá Krákutúni suðaustur með ströndinni, fyrst í Húsavík. Síðan til austurs út fyrir Bæjarfjall að Drangahlíð. Þaðan skýra götu suður og upp í slakkann Kattardal og áfram suðaustur um vel varðaðan Drangaháls í 300 metra hæð innan við Skarðafjall. Góðir göngumenn geta líka farið dramatískari leið um Drangaskörð utan við Skarðafjall. En við komum suðaustur og um sneiðinga niður í Drangavík. Förum þaðan fyrir Skerjasundsmúla og undir Engineshlíðinni inn í Eyvindarfjörð. Þar er göngubrú yfir Eyvindarfjarðará. Næst förum við austur um Básana og suður fyrir skriðurunninn Hrúteyjarnesmúla. Áfram suður með ströndinni um víkina Látur, um Borgarháls ofan við Borg, fyrir mynni Dagverðardals, ofan við Strandatún og Háareka að Hvalá, mesta vatnsfall Vestfjarða. Þar er brú og þar komum við á jeppaslóð. Að lokum förum við áfram suður með ströndinni að Húsá.

25,5 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Skjaldabjarnarvík, Drangajökull, Ófeigsfjarðarheiði, Brekkuskarð, Seljanesmúli, Þúfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Krossnesmúli

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Eyri við Ingólfsfjörð að Krossneslaug í Norðurfirði.

Krossneslaug er í flæðarmálinu, ein þekktasta útisundlaug landsins. Á Eyri eru minjar um síldarsöltun og síldarverksmiðju, sem lögð var niður 1952.

Förum frá Eyri norður með ströndinni út fyrir Miðaftansfjall og Munaðarnesfjall og síðan austur og upp Austurkinn. Förum undir Litlafellshyrnu, niður að Víðinesi, síðan austan við Krossnesmúla suðsuðaustur að Krossneslaug.

14,3 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Seljanesmúli, Brekkuskarð, Tagl.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Krossárdalur

Frá Kleifum í Gilsfirði um Krossárdal og Bitruháls að Gröf í Bitrufirði.

Gömul og greiðfær póstleið milli Gilsfjarðar í Barðastrandarsýslu og Bitrufjarðar í Strandasýslu. Ef við lítum á Vestfirði sem hausinn á landinu, liggur þessi leið um hálsinn á landinu, hæst í aðeins 220 metra hæð. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð. Kleifar eru núna í eyði, en voru á 20. öld þekktar fyrir hrossakyn Jóhannesar á Kleifum.

Förum frá Kleifum suður og upp Kleifar hjá Hafurskletti og síðan beint austur um Krossárdal. Um brattan sneiðing austur hjá Gullfossi og Hafursklettum upp í Krossárdal, sem við förum um til Bitrufjarðar. Förum norðan við Krossárvatn og síðan austur og niður Krossárdal á mörkum mýrar og hlíðar. Reiðleiðin fylgir Krossá framhjá eyðibýlunum Skáney, Einfætingsgili og Krossárbakka niður að Gröf í Bitrufirði norðanverðum.

14,1 km
Vestfirðir, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Snartartunguheiði, Bitruháls.
Nálægar leiðir: Vatnadalur, Steinadalsheiði.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Kolbeinsárnes

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá þjóðvegi 60 sunnan Kolbeinsár hringleið um Kolbeinsárnes.

Fjölbreytt landslag er á Kolbeinsárnesi, klettabelti og borgir til landsins, vogskorin strönd með skerjum og eyjum. Fuglalíf er mikið og fjölskrúðugt. Tóftir verstöðvar eru austan á nesinu. Byrjum á þjóðvegi 60 sunnan Kolbeinsár við slóða, sem liggur út á Kolbeinsnes.

Um leiðina segir á Vestfjarðavefnum: “Gengið er frá hliði við veginn, nokkuð suður frá bænum Kolbeinsá. Þaðan er götutroðningi fylgt niður í nærliggjandi víkur. Úr síðustu víkinni er stefnan tekin á Tjarnarborgir sem eru nyrst á nesinu. Frá þeim er haldið að þeirri vík sem næst liggur í suðaustur og er þá bráðlega komið í Búðarvog, litlu sunnar. Þaðan er farið suður yfir í næstu vík og strandlengjunni að mestu leyti fylgt í Selvík á sunnanverðu Kolbeinsárnesi. Gengið er upp úr Selvík og komið á þjóðveginn aftur og þá er ekki löng ganga eftir veginum að hliðinu, þaðan sem lagt var upp í gönguferðina.”

6,1 km
Vestfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kálfanes

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Hólmavík hringleið um Kálfanes til Hólmavíkur.

Förum frá Hólmavík. Á Vestfjarðavefnum er þessi leiðsögn: Gengið er frá enda Kópnesbrautar sem er innst í kauptúninu Hólmavík. Þar er upphaf gönguleiðarinnar. Fylgt er gamla þjóðveginum meðfram sjónum með Kálfanesborgir á vinstri hönd. Þegar komið er inn fyrir Höfða blasir bærinn Ós við og Ósáin. Gengið er upp með ánni og yfir þjóðveginn. Þar má sjá ummerki um áveitu í flóanum. Þaðan sést móta fyrir reiðgötu í hlíðinni fyrir ofan svonefnda Stakkamýri. Þeirri götu er fylgt að eyðibýlinu Kálfanesi og síðan áfram inn fyrir flugvöllinn. Lokaáfanginn er eftir þjóðveginum inn í kauptúnið aftur.

6,6 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Laxárdalsheiði

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kambur

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Veiðileysufirði fyrir Kamb til Kúvíkna í Reykjarfjarðar.

Á Vestfjarðavefnum segir m.a.: Kambur er sérkennilegt og áberandi fjall á nesinu milli Reykjarfjarðar og Veiðileysufjarðar í Árneshreppi á Ströndum. Upp úr Kambinum rísa þverhníptir tindar sem álengdar minna á tröllagreiðu … Samkvæmt þjóðsögunni er nafn fjarðarins þannig til komið að kerling nokkur sem Kráka hét missti tvo syni sína í róðri á firðinum. Lagði hún þá á fjörðinn að þar myndi aldrei fást framar bein úr sjó … Frá Látrum var nokkuð útræði fyrrum og talsverður reki er þar … Kúvíkur sem um 250 ára bil var eini verslunarstaðurinn á Ströndum frá því um aldamótin 1600. Þar voru um tíma tvær verslanir og heimavistarskóli var rekinn þar einn vetur (1916). Þar má ennþá sjá merki umsvifanna, til dæmis pott þar sem hákarlalýsið var soðið í.”

Förum frá sæluhúsinu í Veiðileysufirði meðfram sjó vestur og norður fyrir botn Veiðileysufjarðar. Þar er greinilegur slóði. Við fylgjum honum vestur ströndina um skrítnar sandsteinsmyndanir. Utarlega á nesinu komum við að Kambi. Þar var búið til 1954 og stendur húsið enn. Þar er grjótdys, sem heitir Spænskradys. Við förum út á Víganes og síðan vestur og inn með Reykjarfirði. Þar komum við að Látrum, þar sem við förum sjávarmegin við klettaborg með glufum og gjám. Þar breikkar gatan og er vandlega hlaðin yfir verstu farartálmana. Þar er ströndin vogskorin. Við höldum vestur og komum að Halldórsstöðum. Í landi bæjarins var verzlunarstaðurinn Kúvíkur. Þaðan förum við vestur á þjóðveg 643 í Reykjarfirði.

13,2 km
Vestfirðir

Skálar:
Veiðileysufjörður: N65 55.850 W21 26.090.

Nálægar leiðir: Trékyllisheiði, Háafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kakali 1242

Þeysireiðir Þórðar kakala árið 1242.

Þórður kakali kom út í Eyjafirði sumarið 1242. Reið suður Bleiksmýrardal og Sprengisand til að forðast Kolbein unga. Reið síðan vestur á firði til að leita fylgismanna. Síðan suður um Hítardal til að leita vopna og áfram suður um Skessubásaveg og Klukkuskarð til Laugarvatns og áfram til Skálholts, Keldna og Breiðabólstaðar. Síðan í einum rykk á átján tímum frá Skálholti í Stykkishólm. Frétti í Borgarfirði af her Kolbeins unga í Reykholti. Slapp undan honum yfir Hvítá og síðan í þeysireið vestur Mýrar, þar sem hann komst út á Löngufjörur, en Kolbeinn varð strandaglópur á aðfallinu. Ferð Þórðar lauk ekki í Stykkishólmi, heldur flúði hann út í Breiðafjarðareyjar. Tveimur árum síðar vann Þórður mikinn sigur í Flóabardaga og endanlegur sigur í Haugsnesbardaga. Var þá búinn að vera í þindarlausum herferðum í fjögur ár.

Fleiri en Þórður stóðu í stórræðum í herferðum árið 1242. Þá fór Kolbeinn ungi um vetur með 600 manna lið um Núpdælagötur frá Húnaþingi til að veita Þórði kakala fyrirsát í Borgarfirði. Þetta var 27. nóvember. ”Svo var veðri farið er þeir riðu á heiðina, að um morguninn var á krapadrífa og vindur lítill og urðu menn alvotir. En er leið á daginn tók að frysta; hljóp þá veðrið í norður.” Menn villtust og hröktust um heiðina, nokkrir dóu og aðra kól. Lét Kolbeinn menn glíma til að halda á sér hita. Í stað þess að halda áfram niður Hvítársíðu og fara síðan yfir Norðurá, fór Kolbeinn yfir Hvítá og í Reykholt. Þurfti því að fara Hvítá tvisvar og tafðist við það. Missti því naumlega af Þórði, sem fór um Bæjarsveit norður yfir Hvítá á sama tíma. Kolbeinn missti af Þórði norðvestur Mýrar og út á Löngufjörur. Hefði betur farið Holtavörðuheiði og setið fyrir Þórði á Mýrum. Mistök þessi mörkuðu þáttaskil í valdabaráttunni. Þórði óx ásmegin eftir þetta. Hafði sigur í Flóabardaga 1244 og í Haugsnesbardaga 1246. Þórður varð einvaldur yfir Íslandi 1247-1250. Hann er sá eini af Sturlungum, sem sýndi herkænsku, ólíkur Sturlu bróður sínum. Reif sig upp úr fylgisleysi og vopnaleysi í einveldi á fimm árum. Dó síðan á sóttarsæng úti í Noregi. (© Jónas Kristjánsson)

? km
Ýmsir landshlutar

Nálægar leiðir: Bleiksmýrardalur, Gásasandur, Skessubásavegur, Klukkuskarð, Löngufjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Hölknaheiði

Frá Bessatungu í Svínadal í Dölum að Snartartungu í Bitrufirði á Ströndum.

Förum frá Bessatungu austur Brekkudal, suðaustur upp úr dalbotninum upp á Hölknaheiði. Förum suður fyrir Hólkonuhnjúk í 620 metra hæð. Síðan norðaustur að Brunngili og norður og niður í botn Brunngils. Þaðan förum við norðaustur dalina. Komum niður að Snartartungu.

14,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Snartartunguheið, Gaflfellsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Hvalsárdalur

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Hvalsá í Hrútafirði hringleið um Hvalsárdal og Heydal til Hvalsár.

Förum frá Hvalsá til vesturs með Hvalsá sunnanverðri. Förum suður fyrir Bessaborg og norður fyrir Dyngju og síðan áfram vestsuðvestur með Hvalsá upp að eyðibýlinu Feykishólum. Þaðan norður um Tungur að eyðibýlinu Heydal í Heydal. Förum þaðan suðaustur á Dagmálabungu og þaðan áfram suðaustur að Helgafelli og til austurs sunnan við Helgafell að Hvalsá. Förum norðaustur og austur með Hvalsá norðanverðri að Hvalsá.

21,4 km
Vestfirðir

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort